Category: Greinar

Skipulagið á Blikastaðalandi

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

6. febrúar, 2025

Rétt fyrir sveitastjórnarkosningar 2022 var undirritaður samningur við landeiganda Blikastaðalands um uppbyggingu á svæðinu.
Á þessum þremur árum sem liðin eru hefur mikil vinna átt sér stað við hönnun og greiningu á umhverfisáhrifum sem byggðin mun hafa fyrir hverfið. Rík áhersla hefur verið lögð á þætti eins og skuggavarp, birtuskilyrði, hljóðvist og loftgæði ásamt umferðargreiningum. Nú stendur yfir kynning á deiliskipulagi 1. áfanga Blikastaðalands á vinnslustigi. Hægt er að senda inn athugasemdir til 10. febrúar.

Íbúðabyggð á milli fells og fjöru 
Blikastaðaland er mjög fallegt og veðursælt land þar sem áhersla verður á að flétta saman náttúru og mannvænt bæjarhverfi. Íbúðabyggðin verður tengd með grænum geirum sem tengist vel göngu- og hjólreiðastígum. Hér eru mikil tækifæri til að byggja framsýnt hverfi sem hentar ungum sem öldnum og ýtir undir breytingar á samgönguvenjum og notkun virkra ferðamáta.

Breyttar samgönguvenjur
Það þarf að horfa til framtíðar, og ég veit að margir, eins og ég, hafa vanist því að fara nánast allt á bíl. Við sjáum ekki fyrir okkur að fjölskylda eigi bara einn bíl eða jafnvel engan. En staðreyndin er að við þurfum að hugsa öðruvísi ef við ætlum ekki að vera föst í bílaumferð alla daga. Bílum í umferðinni fjölgar að meðaltali um 70 í hverri viku og það þarf engan sérfræðing til að sjá að það verður fljótt ófremdarástand. Borgarlína mun ekki leysa allan vandann, en hún er hluti af lausninni.

Við þurfum að sporna gegn þeirri venju okkar að vera nánast alltaf ein á bíl. Þið getið ímyndað ykkur hvernig ástandið verður eftir 20 ár ef við höldum uppteknum hætti. Fyrir utan lýðheilsuleg áhrif! Unga fólkið hugsar margt hvert öðru vísi en við miðaldra fólkið. Það er t.d. ekki eins algengt og áður var að bílprófið og bíllinn væru komin í hús á 17 ára afmælisdaginn. Það er dýrt að kaupa og reka bíl og þau vita að það er ýmislegt annað hægt að gera við þá fjármuni.
Áætlað er að Borgarlína komi til okkar árið 2033, og samkvæmt samningum um uppbyggingu hennar er það forsenda að vera með þétta byggð íbúða og þjónustu í kringum hana. Blikastaðahverfið er einmitt skipulagt þannig að fólki er gert kleift að fara flestra sinna erinda gangandi eða hjólandi.

Ungt fólk og húsnæðisþarfir 
Sumir upplifa tilhugsun um þéttari byggð á neikvæðan hátt en sannleikurinn er sá að til að uppfylla þörf samfélagsins fyrir íbúðir og fjölbreyttara húsnæði þá verðum við að nýta landið og innviðina betur en gert var áður fyrr. Þetta þýðir ekki sjálfkrafa að lífsgæði fólks verði minni.

Þegar vinnslutillagan er skoðuð sést að hugað er að þáttum eins og skuggavarpi og birtustigi íbúða. Fjölbýlishúsin brotin upp í mismunandi hæðir til þess að létta yfirbragðið. Þannig að það verði ekki eins og einhver múr. Framboð minni íbúða er allt of lítið hér í Mosfellsbæ og því miður staðreynd að margt ungt fólk hefur þurft að flytja héðan og í önnur bæjarfélög þvert á sínar vonir um að stofna heimili í sínum heimabæ.

Í Blikastaðahverfinu verður blönduð byggð þar sem fólk hefur val um að kaupa minni íbúðir í fjölbýli eða vera í sérbýli og íbúar hafa val um að nýta vistvæna ferðamáta og sækja verslun og þjónustu í nærumhverfinu. Það er auðvitað val líka að búa í eldri hverfunum þar sem er stærra húsnæði og lóðir. Eitt hentar ekki öllum og fólk þarf að hafa val.
Það er gott að búa í Mosfellsbæ og það verður áfram gott að búa í Mosfellsbæ.

Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi Framsóknar

Hverjir munu búa á Blikastaðalandi?

Posted on by Aldís Stefánsdóttir

Aldís Stefánsdóttir skrifar 22. janúar 2025 21:00

Lögð hefur verið fram til kynningar deiliskipulagstillaga á vinnslustigi um uppbyggingu á Blikastaðalandi í Mosfellsbæ. Tillagan er líkt og kemur fram í yfirheiti hennar á vinnslustigi en þannig er gengið lengra en lög gera ráð fyrir í lýðræðslegu skipulagsferli. Tillagan kemur fram í kjölfar, og í samræmi við, uppbyggingarsamning sem gerður var milli Mosfellsbæjar og landeiganda Blikastaðalandsins í maí 2022. Til að setja hlutina aðeins í samhengi þá hefur umræða um uppbyggingu á Blikastaðalandi staðið yfir í áratugi. Þetta fallega svæði hefur farið á milli eigenda og oft skapað deilur vegna verðmætis. Rammaskipulag á Blikastöðum var lagt fram upphaflega fyrir 20 árum. En síðan hefur margt – ef ekki flest – breyst.

Uppbygging á Blikastaðalandi er mikilvægur hluti af íbúðaframboði á höfðuborgarsvæðinu sem mikið hefur verið rætt um á síðustu misserum. Á svæðinu er nú gert ráð fyrir því að byggðar verði um 3500 íbúðir þannig að um þriðjungur íbúa í Mosfellsbæ mun búa þar þegar hverfið verður fullbyggt.

Búið er að skipta svæðinu upp í þrjá áfanga og þær tillögur um deiliskipulag fyrsta áfanga sem hafa verið lagðar fram –á vinnslustigi – verða ekki lagðar fram fullunnar fyrr en í fyrsta lagi í haust. Þá mun fara fram hefðbundið samráðsferli samkvæmt skipulagslögum. Þegar skipulag hefur verið samþykkt og gengið frá öllum lausum endum er ljóst að uppbygging á Blikastaðalandi mun taka að minnsta kosti 15 ár.

Það felst mikil ábyrgð í því að brjóta nýtt land undir byggð og líka mikil tækifæri að geta hannað heilt hverfi frá grunni. Hverfi sem mun þjóna íbúum framtíðarinnar. Við þessa vinnu þarf að taka tillit til þarfa íbúa svæðisins eins og þær eru í dag en fyrst og fremst er byggt til framtíðar og leitast við að taka mið af því samfélagi sem við munum búa í eftir 20 ár. Það þarf að tryggja að verkefnið sé eins sjálfbært og auðið er og gangi ekki um of á gæði umhverfis og þjónustu þeirra sem búa í Mosfellsbæ í dag. Það er þó ljóst að umfangið er slíkt að það mun að sjálfsögðu breyta bæjarbragnum og þeirri þjónustu sem hér er að fá – vonandi til hins betra.

Talsvert hefur verið rætt um þéttleika byggðarinnar sem tillagan felur í sér. Það er áskorun að rýna í skipulag og reyna að sjá fyrir sér hvernig götur og hús munu raunverulega líta út fullbyggð og hvernig gæði umhverfisins verður í raun og veru. Eitt er allavega víst en það er að þetta hverfi verður ekki byggt eins og gömlu hverfin í Mosfellsbæ. Enda aðrar forsendur uppi nú, bæði þegar kemur að kostnaði og líka þegar kemur að þörfum íbúa – þörfum íbúa framtíðarinnar – sem munu búa á svæðinu.

Ein leið til að átta sig á því hvort svæði er of þétt eða nógu þétt er að bera það saman við önnur svæði. Það liggur beinast við að bera uppbyggingu á Blikastöðum saman við uppbyggingu á Keldnalandi. Þessi svæði liggja nálægt hvort öðru og munu verða borin saman. Sú tillaga sem unnið er með við skipulag á Keldnalandinu gerir ráð fyrir 5700 íbúðum. Keldnaland er 20% stærra landsvæði en Blikastaðir eða tæpir 117 hektarar. Heildar uppbyggingarmagn á Keldnalandi er þó um 80% meiri.

Förum við úr sveit í borg?

Ungt fólk í dag og kynslóðin sem er að koma inn á vinnumarkaðinn núna er með aðrar hugmyndir og aðrar áherslur en voru uppi þegar eldri hverfi í Mosfellsbæ voru byggð. Hvernig hverfi vill þetta fólk byggja? Ef það á að spyrja einhvern þá ætti að spyrja þau. Ef ég á að setja mig að einhverju leiti inn í þeirra hugarheim þá held ég að einhver myndu að minnsta kosti svara því til að þau vilji einfaldlega eiga kost á því að kaupa sér fasteign og flytja að heiman.

Unga fólkið á höfuðborgarsvæðinu hefur stækkað radíusinn og kemur sér í meira mæli fyrir í nágrannasveitarfélögum eins og Akranesi, Hveragerði og Þorlákshöfn. Það er nákvæmlega það sem fólk fyrir 40 árum gerði þegar það flutti í Mosfellsbæ. Verðmiðinn hefur þar langmest áhrif. Þau eru ekki að flytja úr Mosó á Akranes af því að þar eru meiri rólegheit. Þau fara af því að þau fá meira fyrir peninginn og fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu – sem Mosfellsbær tilheyrir – er of hátt.

Það er ekki hægt að hanna ný hverfi á Blikastaðalandi eða Keldnalandi með þarfir fólks í huga eins og þær voru fyrir 40 árum síðan þegar mikil uppbygging var í Holtum og Teigum. Eða fyrir 30 árum þegar Hlíðar og Tangar voru í uppbyggingu. Þá var land ekki verðlagt með þeim hætti sem það er í dag. Fólk fékk úthlutuðum lóðum og byggði sér hús eða verktakar fengu lóðir og byggðu hús fyrir fólk. Stórar fjölskyldur komu sér fyrir í Mosfellsbæ og hér hefur verið gott að ala upp börn – og vera barn. Þannig verður það að sjálfsögðu áfram. Líka fyrir nýju íbúana á Blikastaðalandi. En þeir hafa aðrar þarfir. Fjölskyldur eru að minnka. Við erum að eignast færri börn og fjölskylda í dag er mun fjölbreyttari eining en fjölskyldan var fyrir 30 árum. Fólk kýs í meira mæli að búa eitt og eins og talsvert hefur verið rætt undanfarið þá er þjóðin að eldast. Þetta býr til þarfir fyrir minni íbúðir þar sem fleiri deila kostnaði fyrir landið og innviðina.

Þá komum við að verðmiðanum. Hvernig fólk á að geta búið á Blikastaðalandi? Ungt fólk sem er að hefja búskap, eldra fólk sem vill minnka við sig, allskonar fólk er það ekki? Þétting byggðarinnar og fjöldi húsa mun hafa mikið um það að segja. Ekki bara vegna fjölbreytni í húsakosti heldur einnig út af verði. Því færri íbúðir sem við byggjum á svæðinu því dýrari verða þær. Það er bara rekstrarleg staðreynd. Það þarf að byggja upp alla innviði og það skiptir máli hvað íbúðirnar eru margar til að greiða fyrir þá innviði.

Byggð á Blikastaðalandi mun að sjálfsögðu ekki hafa áhrif á þéttleika þegar byggðra hverfa í Mosfellsbæ. En umfang verkefnisins gerir það að verkum að þau sem að þessari ákvarðanatöku koma verða að stefna að eins mikilli sjálfbærni þessa hverfis eins og unnt er. Nútímakröfur og framtíðarkröfur gera það að verkum að byggðin þarna verður þéttari en þau hverfi sem þegar eru byggð. Hún verður hinsvegar lágreist og græn og þannig í samhengi við aðra byggð í bænum. Í flestu samhengi myndi ég telja að við eigum áfram eftir að upplifa að Mosfellsbær er sveit í borg – en bæði sveitin og borgin eru að breytast og þurfa að þróast til framtíðar til að við getum boðið börnunum okkar upp á að njóta gæða umhverfisins á sinn hátt – eins og við gerðum á sínum tíma.

Höfundur er bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ.

Greinin birtist á visir.is

Metnaðarfull fjárfestingaráætlun

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

19. desember, 2024

Nýverið samþykkti bæjarstjórn fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2025. Um er að ræða metnaðarfulla rekstrar- og fjárfestingaráætlun.
Fjárfestingarnar endurspegla þann vöxt sem hefur átt sér stað í Mosfellsbæ síðustu árin en auk þess er nauðsynlegt að huga að viðhaldi eldri mannvirkja. Samtals hljómar fjárfestingaráætlun í A- og B-hluta upp á rúma 4 ma. króna. Þar af nema fjárfestingar í skólum og íþróttamannvirkjum um 62%.
Stærstu einstöku fjárfestingarnar eru bygging nýs leikskóla í Helgafellslandi sem verður tekinn í notkun næsta haust og fyrirhuguð uppbygging á Íþróttamiðstöðinni að Varmá. Eins er 220 m.kr. áætlaðar vegna framkvæmda á skólalóðum. Gert er ráð fyrir afgangi af almennum rekstri sveitarfélagsins upp á rúmar 700 milljónir.

Íþróttir fyrir alla
Áfram verður haldið með uppbyggingu á Varmársvæðinu, en í áætluninni er gert ráð fyrir að verja um 800 milljónum í nýjan aðalvöll, hlaupabraut og hönnun á þjónustu- og stúkubyggingu. Eins verður frágangur kláraður á íþróttahúsinu við Helgafellsskóla, sem mun létta á álagi á hin íþróttahúsin.

Því til viðbótar verður um 200 milljónum varið í viðhald á íþróttamiðstöðvum. Mikil fjölgun iðkenda og metnaðarfullt barna- og afreksstarf gerir ríka kröfu um viðunandi aðstöðu og verður að sjálfsögðu séð til þess að svo verði áfram í Mosfellsbæ.

Menning eykur lífsgæði
Núverandi meirihluti hefur haft lýðheilsu- og menningarmál í forgrunni og verða engar breytingar þar á í nýsamþykktri áætlun. Hlégarður verður sem fyrr í umsjá bæjarins og hefur það verkefni gengið vonum framan og mikil ánægja skapast í kringum það.
Á árinu 2025 eru um 300 viðburðir áætlaðir í Hlégarði og er það til marks um hve mikilvægt gott samkomuhús er fyrir bæjarfélag eins og Mosfellsbæ. Tæpar 270 milljónir fara í menningarmál á árinu 2025 og ber þar helst að nefna rekstur bókasafnsins, Í túninu heima og fleiri spennandi viðburði af hálfu bæjarins.

Bærinn í nýju ljósi

Það verður ekki slegið slöku við í endurnýjun á götulýsingu bæjarins, alls verður varið um 70 milljónum í að LED-væða bæinn á árinu 2025. Verkefnið er kostnaðarsamt en sparar sveitarfélaginu til lengri tíma í formi lægri rekstrarkostnaðar. Það er mjög mikilvægt að horfa til lengri tíma í ákvarðanatökum sem þessum og hefur núverandi meirihluti tamið sér það verklag.
Þrátt fyrir metnaðarfulla fjárhagsáætlun þá hefur núverandi meirihluti B-, C- og S-lista lagt mikla áherslu á ábyrga fjármálastjórn og að rekstur bæjarins sé sjálfbær. Það fylgir því mikil ábyrgð að stýra sveitarfélagi og sér í lagi þegar vöxturinn er mikill. Því þarf að huga vel að forgangsröðun verkefna, það gefur auga leið að í því efnahagsumhverfi sem við búum við í dag er aðhald nauðsynlegt.

Fjárhagsáætlunin er aðgengileg á mos.is og hvetjum við bæjarbúa til að kynna sér hana, hægt er að fá mjög góða og myndræna yfirferð á helstu atriðum í greinargerð með fjárhagsáætlun.

Halla Karen Kristjánsdóttir bæjarfulltrúi B-lista
Aldís Stefánsdóttir bæjarfulltrúi B-lista
Sævar Birgisson bæjarfulltrúi B-lista
Örvar Jóhannsson bæjarfulltrúi B-lista

Með enga menn og engin vopn?

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

28. nóvember, 2024

Við í Framsókn verðum seint vænd um það að sitja með hendur í skauti. Í 108 ár hefur Framsókn unnið að velferð og framförum okkar allra, óþreytandi og óslítandi sama hvernig á okkur viðrar.
Stjórnarsamstarfið, síðasta misserið áður en Sjálfstæðisflokkurinn ákvað upp á sitt einsdæmi að sprengja ríkisstjórnina, var oft erfitt.
Við héldum þó ótrauð áfram að berjast fyrir okkar hjartans málum, að styrkja fjölskyldur, börnin okkar, heilsuna og öryggi fólks í lífi og starfi enda er sú barátta hryggjarstykkið í hugsjón Framsóknar og þar gefum við engan afslátt. Þetta er okkur mikilvægast.
Að því sögðu verður að segjast að undanfarnar vikur hafa verið okkur þungur róður, óánægja fólks á liðnu stjórnarsamstarfi og ítrekaðar atlögur að flokknum af hálfu stjórnarandstöðunnar þar sem sannleikurinn virðist með öllu virtur að vettugi er erfitt að kyngja og ómögulegt að berjast við í því fjaðrafoki sem á sér stað þessar vikurnar.


En hvað ætlum við að gera?
Við stöndum berskjölduð frammi fyrir alþjóð-
Hálfnakin en þó með þá óbilandi trú að okkar trausta bakland og skynsemi fólks sjái hvað það er sem raunverulega skiptir samfélagið máli.
Við erum eins og sagt er, með fáa menn og engin vopn, en einmitt á slíkum stundum afhjúpast úr hverju maður er gerður og þá skiptir liðsheildin öllu máli.

Framtíðin
Framsókn mun halda áfram að setja fjölskylduna í forgang, bæta lífsgæði okkar allra og hugsa um heildina og sérstaklega velferð þeirra sem minnst mega sín og þurfa á mestri hjálp að halda. Það er okkar leiðarljós. Allt annað kemur samhliða þeim vexti.
Góðar og skilvirkar samgöngur eru nauðsynlegar og skipta okkur miklu máli og okkur Mosfellinga sérstaklega, við þurfum einfaldar og skjótar aðgerðir sem eru vel framkvæmanlegar og fyrir því munum við berjast.
Við viljum frelsi í fæðingarorlofi, að fjölskyldur hafi val um það hvernig þær ráðstafa sínum rétti og afnema allar eyrnamerkingar á þeim ráðahag, að auki viljum við hækka launin og lengja samverutímann upp í 20 mánuði.
Þetta er vel gerlegt og við sem þjóð höfum efni á því að stórbæta kerfið því ávinningurinn er ekki alltaf mældur í krónum og aurum heldur því sem mikilvægast er, andleg heilsa og öryggi barnanna okkar.
Forvarnir skipta að sama skapi gríðarlega miklu máli, að andleg og líkamleg heilsa sé á oddinum í okkar daglega lífi, hvort sem er í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu, á vinnumarkaðinum eða í félags- og tómstundastarfi, að styrkja kerfisbundið okkar heilbrigði og fylgja því eftir um aldur og ævi er besta fjárfesting sem við gerum, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur fyrir allt samfélagið.
Við þurfum lægri skatta, aukna verðmætasköpun svo við höfum efni á þessu öllu saman og það er vel gerlegt og við treystum okkur best í það verkefni. Það bíða okkar verk eins og virkjanir, samgöngubætur, styrking löggæslu og það sem brýnast er, að bæta vinnuumhverfi kennaranna okkar og allra þeirra sem eru að hugsa um börnin okkar. Við getum þetta saman!

Ég segi meiri samvinna, meiri umhyggja,
meiri Framsókn.

Vala Garðarsdóttir
Mosfellingur og fornleifafræðingur 
Skipar 3. sæti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Menning í aðdraganda jóla

Posted on by Hrafnhildur Gísladóttir

28. nóvember, 2024

Í Mosfellsbæ er mikið um að vera í menningar- og listastarfi í kringum jólin.
Fyrst ber að nefna frábæran jóla-listamarkað í Listasal Mosfellsbæjar, þar sem yfir 50 listamenn sýna og selja list sína. Hugmyndin að þessari samsýningu kom frá íbúa bæjarins og var lögð fyrir menningar og lýðræðisnefnd sem samþykkti að í stað hefðbundinnar listasýningar í desember, yrði prófað að hafa samsýningu margra listamanna, eins konar listaverkajólamarkað.
Óhætt er að segja að vel hefur tekist til með fjölbreytni verka og hvetjum við alla Mosfellinga að gefa sér tíma til að kíkja á þennan markað sem stendur til 20. desember.

Um næstu helgi verða ljósin tendruð á jólatrénu okkar á Miðbæjartorgi með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. Hlégarðs­tún er prýtt jólaljósum, en hugmyndin um Jólagarð við Hlégarð var ein af þeim hugmyndum sem kosnar voru til framkvæmdar í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2021.

Fjölbreyttar uppákomur verða í garðinum á aðventunni og vel þess virði að brjóta upp skammdegið og heimsækja Hlégarðstúnið í aðdraganda jólanna. Einnig verður mikið um að vera í félagsheimilinu okkar, Hlégarði. Þar má nefna jólamarkað, listaskólinn heldur jólatónleika svo eitthvað sé nefnt og að sjálfsögðu mögnuð skötuveisla á Þorláksmessu.

Gaman hefur verið að fylgjast með og fá að taka þátt í að styðja við þær frábæru hugmyndir sem koma frá íbúum í að skapa það blómlega menningar- og listalíf sem er í bænum og hversu vel íbúar mæta og taka þátt í því sem er að gerast í Mosfellbæ. Öflugt menningarlíf gerir mannlífið í Mosó betra.

Hrafnhildur Gísladóttir, 
formaður menningar- og lýðræðisnefndar Mosfellsbæjar

Blönduhlíð formlega opnuð á Farsældartúni 

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

26. nóvember 2024

Í dag var tekið stórt skref að því að gera Farsældartún að þjónustukjarna fyrir börn og ungmenni þegar meðferðarheimilið Blönduhlíð var opnað. Meðferðarheimilið er á vegum Barna- og fjölskyldustofu og er ætlað ungmennum á aldrinum 13-18 ára sem glíma við hegðunar- og fíknivanda og verður viðbót við greiningar- og meðferðardeild Stuðla. Með tilkomu Blönduhlíðar verður hægt að aðgreina betur börn með mismunandi vanda og veita sérhæfðari þjónustu. Börn með þyngri vanda fá áfram greiningu og meðferð á meðferðardeild Stuðla en í Blönduhlíð verður opnara úrræði er finna má á Stuðlum og verður Blönduhlíð ætluð þeim börnum og ungmennum sem glíma við vægari vanda.

Blönduhlíð var formlega opnuð af Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, og Ólöfu Ástu Farestveit, forstjóra Barna- og fjölskyldustofu.

Farsældartún er ánægt með að geta lagt sitt af mörkum til þess að starf með börnum og ungmennum geti orðið markvissara og vonast til þess að starfið í Blönduhlíð verði farsælt.

Frétt á vef mennta- og barnamálaráðuneytisins: Stjórnarráðið | Blönduhlíð – Nýtt meðferðarheimili fyrir ungmenni opnað í Mosfellsbæ

Willum Þór – fyrir konur

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

Í tíð Willums Þórs Þórssonar sem heilbrigðisráðherra hefur hann unnið markvisst að kvenheilsumálum, sem hafa oft verið vanrækt í heilbrigðisumræðunni. Þrátt fyrir að kvenheilsa sé grundvallaratriði í lýðheilsu hafa þessi mál ekki fengið þá athygli sem þau eiga skilið. Willum hefur því lagt sig fram um að lyfta þessum málaflokki upp samhliða öðrum mikilvægum verkefnum. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið meðal kvenna og rannsóknir sýna að regluleg skimun getur lækkað dánartíðni vegna sjúkdómsins um 20%. Til að styðja betur við forvarnir lækkaði heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, gjald fyrir brjóstaskimun úr rúmlega 6.000 krónum í 500 krónur, sem er sami kostnaður og fyrir leghálsskimun hjá heilsugæslunni. Þessi breyting á að hvetja fleiri konur til þátttöku, en það er áhyggjuefni að þátttaka í skimunum hefur dregist saman, sérstaklega meðal yngri kvenna og innflytjenda.

Nýtt samkomulag um aðgerðir vegna endómetríósu

Willum Þór Þórsson stóð einnig fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands sömdu við Klíníkina um aðgerðir vegna endómetríósu. Hér er um að ræða mikilvægt skref sem hefur bætt líf fjölda kvenna og staðfestir á sama tíma alvarleika sjúkdómsins sem alltof lengi fékk litla sem enga athygli. Endómetríósa, oft kölluð endó, er krónískur og sársaukafullur sjúkdómur sem hrjáir konur og einstaklinga sem fæðast í kvenlíkama. Sjúkdómurinn veldur meðal annars bólgum og innvortis blæðingum og hefur margvísleg áhrif á daglegt líf. Samningurinn veitir þeim sem glíma við þennan þungbæra sjúkdóm aukið aðgengi að nauðsynlegri meðferð. Með þessu er staðfest að endómetríósa er ekki lengur bara „túrverkir“ sem hægt er að harka af sér, heldur alvarlegur sjúkdómur sem þarf að taka alvarlega.

Aukin greiðsluþátttaka í tæknifrjóvgun

Þá hefur Willum lagt til aukna greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgunar. Drög að nýrri reglugerð hafa verið birt í samráðsgátt þar sem gert er ráð fyrir föstum styrkjum í stað hlutfallsbundinnar greiðsluþátttöku. Samkvæmt nýju reglugerðinni munu einstaklingar fá 150.000 kr. í styrk fyrir fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferð og 400.000 kr. fyrir hverja meðferð frá annarri til fjórðu. Þetta er mikil breyting frá núverandi kerfi þar sem greiðsluþátttaka var 5% fyrir fyrstu meðferð og 65% fyrir meðferðir 2-4. Með þessu aukast styrkir fyrir fyrstu meðferð sexfalt og fyrir meðferðir 2-4 um tæpar 90.000 kr. fyrir hverja meðferð. Þessar breytingar gera kostnað við tæknifrjóvgun fyrirsjáanlegri og létta verulega á þeim einstaklingum sem þurfa þessa dýru meðferð. Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi 1. janúar 2025. Willum Þór Þórsson hefur sýnt og sannað að hann gengur í verkin og klárar þau. Við treystum honum til þess að leiða okkur áfram.

Tryggjum Willum á þing!

Heiðdís GeirsdóttirHalla Karen Kristjánsdóttir og Hjördís Guðný Guðmundsdóttirframbjóðendur Framsóknar í Kraganum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2024.

Framsókn til forsætis

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

Íslend­ing­ar! Nú þurf­um við að hugsa okk­ar ráð!

Hver verður nú for­sæt­is­ráðherra fari kosn­ing­arn­ar á versta veg? Hvaða ein­stak­ling­ur og flokk­ur er lík­leg­ur til að geta leitt hér þriggja flokka stjórn, svo ekki sé talað um fjög­urra flokka stjórn? Stillið nú upp for­mönn­um flokk­anna og spyrjið ykk­ur sjálf hver þeirra sé lík­leg­ast­ur.
Ég ef­ast ekki um að þar er Sig­urður Ingi Jó­hanns­son fremst­ur meðal jafn­ingja. Hann sýndi það vel 2016 þegar Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son varð að segja af sér, þá féll allt strax í ljúfa löð og þjóðin kunni að meta störf Sig­urðar Inga. Með hon­um sækja fram ráðherr­ar sem hver og einn hef­ur getið sér gott orð.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, vara­formaður flokks­ins, hef­ur farið fyr­ir mik­illi sókn í menn­ingu og list­um. Lilja hef­ur verið talsmaður ís­lenskr­ar tungu og komið henni inn í gervi­greind og gogg­ul. Lilja stóð í stafni í Seðlabank­an­um þegar þjóðinni var bjargað af gjaldþrots­barmi 2013- 2016.

Will­um Þór Þórs­son er óum­deild­ur einn öfl­ug­asti heil­brigðisráðherra þess­ar­ar ald­ar. Hvar sem ég fer fær hann hrós lækna og heil­brigðis­starfs­fólks sem lausnamiðaður og að hann hafi komið mörg­um mál­um í höfn í starfi sínu, og fólkið vill sjá hann áfram í starfi heil­brigðisráðherra.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason hef­ur reynst íþrótta­hreyf­ing­unni öfl­ug­ur ráðherra og tekið að sér viðkvæm­asta og mik­il­væg­asta mála­flokk­inn, blessuð börn­in, og ekki síst þau sem eiga við erfiðleika að búa.

Halla Hrund klíf­ur tinda

Halla Hrund Loga­dótt­ir er nýr stjórn­mála­maður og magnaður talsmaður hug­sjóna og gilda sem snerta við hverj­um þeim sem hlust­ar á boðskap henn­ar. Hún tal­ar fyr­ir auðlind­um Íslands af meiri virðingu en flest­ir aðrir. Hún vill ekki vind­myll­ur á ann­an hvern hól. Hún tal­ar um land­búnað og bænd­ur af þrótti og ósk­ar þess að lands­menn beri sömu virðingu fyr­ir afurðum land­búnaðar­ins, skyr­inu, lamb­inu, ull­ar­vör­un­um og græn­met­inu, og Frakk­ar gera fyr­ir sín­um vör­um. Hún tal­ar fyr­ir land­vernd, grænni orku og nýt­ingu auðlind­anna af skyn­semi. Marg­ir flokk­ar hafa valið sér fræg and­lit en við fram­sókn­ar­menn setj­um fram konu sem klíf­ur tinda.

Fram­sókn­ar­menn og friðflytj­end­ur! Nú skul­um við efla þann flokk sem oft­ast hef­ur reynst best þegar þjóðin hef­ur staðið á sundr­ung­ar­barmi. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn býður upp á lausn­ir í hús­næðismál­um unga fólks­ins, lækkaðan mat­ar­skatt, lægri vexti og að við kjós­um verðbólg­una burtu. Við vilj­um hvorki Trump­ista né sósíal­ískt þjóðfé­lag. Við vilj­um búa í sam­vinnu- og jafnaðarmanna­sam­fé­lagi þar sem at­vinna og at­vinnu­líf blómstr­ar. Send­um sund­ur­lynd­is­fjand­ann á fer­tugt dýpi og kjós­um með land­inu okk­ar og tæki­fær­un­um. Þegar öllu er á botn­inn hvolft er það Fram­sókn sem er besti kost­ur­inn.

Guðni Ágústssonfyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. nóvember 2024.

Til minnis -­ ekki gleyma að gefa af þér

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

19. september, 2024

Fátt hefur betri áhrif á okkar líðan og andlega og félagslega heilsu en að umgangast fjölskyldu og vini sem hafa góð áhrif á okkur. Fólk sem er styðjandi, hvetjandi, jákvætt og sýnir okkur skilning og hefur trú á okkur.
Það er merkilegt að á okkar tímum þegar tækifærin og tæknin er mikil að þá sé á sama tíma mjög mikil félagsleg einangrun. Oft er talað um að hún sé algengari hjá eldra fólki en það er svo sannarlega ekki einungis þar, heldur á öllum aldursstigum, og sorglegt að heyra að félagsleg einangrun sé að færast niður aldursstigann allt niður í ung börn. Þess vegna er mikilvægt að allir minni sig á það að huga vel að náunganum, hvetja aðra áfram, brosa og vera vingjarnlegur.

Samvera skiptir máli
Gefum okkur tíma til þess að eiga margar og góðar samverustundir og hafa það gaman saman. Í Mosfellsbæ erum við með öflugt íþrótta- og tómstundastarf og nefni ég öflugt starf Aftureldingar, geggjaðan golfvöll og frábært starf þar, hestamannafélagið Hörð sem er til fyrirmyndar, frábært skátastarf og mjög öfluga björgunarsveit, Kyndil.
Já, bæjarfélagið okkar Mosfellsbær býður upp á mikið úrval af fjölbreyttri og skemmtilegri afþreyingu, svo sem sundlaugaferðir í góðu sundlaugarnar okkar, hér er fullt af góðum stikuðum gönguleiðum á fellin okkar og nágrenni.
Það eru hjólastígar sem og góðir samgöngustígar, skemmtilegir leikvellir og skólalóðir sem er verið að bæta í samvinnu við nemendur og starfsfólk. Það eru battavellir, körfuboltavellir, Stekkjarflötin góða og svo Ævintýragarðurinn með allan sinn sjarma. Í vetur var líka gerður samningur við Sporið um að leggja skíðagöngubrautir hér víðsvegar um bæinn sem voru mikið notaðar enda ekki leiðinlegt að hafa skíðabraut í bakgarðinum sínum.
Félag eldri borgara er líka með mjög fjölbreytt íþrótta- og tómsundastarf. Maður getur hreinlega hlakkað til að eldast og fá að taka þátt í því fjölbreytta starfi.

Það sem er alveg glænýtt og var að bætast við er fjallahjólabrautin sem kölluð er „Flækjan“. Hún var formlega opnuð á bæjarhátíðinni Í túninu heima og hefur heldur betur slegið í gegn. Brautin er staðsett í Ævintýragarðinum í Mosfellsbæ. Þessi skemmtilega tæknibraut er um eins kílómetra löng og hentar bæði byrjendum sem og lengra komnum. Þessi vinna er samstarfsverkefni Mosfellsbæjar, Heilsueflandi samfélags, Icebike Adventures og hjóladeildar Aftureldingar.
Magne Kvam frá Icebike Adventures hannaði og lagði brautina ásamt sjálfboðaliðum og stökkpallana smíðaði Sindri Hauksson en ungir iðkendur í hjóladeild Aftureldingar eiga heiðurinn af nafngiftinni.
Einnig var frisbígolfvöllur Mosfellsbæjar endurvígður eftir breytingar en framkvæmdir við hann hafa staðið yfir í sumar. Búið er að færa til brautir og leggja heilsárspalla þannig að nú er hægt að spila þessa fjölskylduvænu íþrótt allt árið um kring.

Forvarnir, lýðheilsa og farsæld
Meirihlutinn í bæjarstjórn leggur afar mikla áherslu á hvers kyns forvarnir og lýðheilsu og teljum við að fjölbreytt afþreying í bænum okkar skili ánægju, gleði og enn betri andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu.
Samvera og góð samskipti eru lykillinn að farsæld auk þess sem bros og dillandi hlátur gerir svo mikið fyrir alla, alveg sama á hvaða aldri manneskjan er. Gleðin skipar nefnilega óneitanlega stóran sess í vellíðan okkar.
Það er þó mikilvægt að við hjálpumst öll að við að skapa samfélag sem byggir á góðum gildum og fallegum bæjarbrag. Látum gott af okkur leiða til barnanna okkar, fjölskyldu, nágranna og vina og búum saman til félagslega töfra.

Halla Karen Kristjánsdóttir, 
formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar

Við getum gert betur

Posted on by Aldís Stefánsdóttir

19. september, 2024

Sú staðreynd að börnin okkar séu ekki örugg – hvorki í sínu nærumhverfi eða á opinberum viðburðum er hliðrun á þeim raunveruleika sem við höfum búið við í íslensku samfélagi.
Síðustu vikur hefur verið áþreifanleg sorg í samfélaginu og hluttekning með þeim sem eiga um sárt að binda vegna dauðsfalls ungrar stúlku sem varð fyrir hnífstunguárás á Menningarnótt í Reykjavík. Ofbeldið í samfélaginu er að aukast og við verðum að bregðast við.
Við sjáum vísbendingar í talsvert auknum fjölda tilkynninga til barnaverndar um ofbeldi og notkun vímuefna. Niðurstöður kannana benda einnig til þess að börnum og ungmennum líði ekki vel og þau leita í auknum mæli eftir óheilbrigðum lausnum við þeirri vanlíðan.
Í kjölfar gríðarlega vel heppnaðrar bæjarhátíðar – þrátt fyrir leiðinlegt veður og skugga ofbeldis – er mikilvægt að við stöldrum við og veltum fyrir okkur hvort það þurfi að gera breytingar. Mikið hefur borið á unglingadrykkju og vanda sem því tengist á allra síðustu árum. Í túninu heima er ætlað að gefa bæjarbúum tækifæri til að njóta þess besta sem bæjarfélagið okkar býður upp á. Menningu, náttúru og ekki síst samveru vina, nágranna og fjölskyldna. Hátíðinni er ekki ætlað að skapa kjöraðstæður fyrir eftirlitslausa unglingadrykkju og ofbeldishegðun.
Aukum áherslu á forvarnir
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur veitt þessu athygli og leggur áherslu á að farið verði í markvissar forvarnaraðgerðir með það að markmiði að koma í veg fyrir aukna neyslu áfengis og vímefna í hópi barna og unglinga. Einnig að mæta umræðunni um ofbeldi og vopnaburð með fræðslu og þátttöku alls samfélagsins.

Mosfellsbær er gott samfélag og við viljum halda áfram að þróa það til framtíðar. Kjörnir fulltrúar og starfsfólk fræðslu- og velferðarsviðs, starfsfólk skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðvarinnar Bólsins ásamt íþróttaþjálfurum og öðrum hópum sem tengjast daglegri umgjörð barna hafa svo sannarlega gert sitt besta til að skapa öruggt umhverfi fyrir börnin okkar og munu halda því áfram. En nú þarf meira til. Það skiptir allt máli. Orðræðan í samfélaginu skiptir máli. Hvernig við tjáum okkur við hvert annað og um hvert annað. Að við innleiðum farsæld í okkar samfélag með þeim hætti að ekkert barn verði skilið eftir. Við höfum alla burði til þess. Við erum auðugt samfélag af svo mörgu og sérstaklega af mannauði.
Við getum gert betur og við verðum að gera betur.

Aldís Stefánsdóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ

Fjárfestum í lýðheilsu – aðstaða fyrir alla

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

Mosfellsbær er landmikið sveitarfélag með nær óþrjótandi möguleikum á að njóta útivistar. Hér eru græn svæði frá fjöru til fjalla.
Áhersla fólks og áhugi á að það séu byggð upp útivistarsvæði og aðstaða til hreyfingar í nærumhverfi þess hefur líka aukist mikið með árunum. Það er orðinn sjálfsagður hlutur að flest íþrótta- og tómstundafélög eigi svæði, fasteignir og annað er tiheyrir þeirra sérsviði og samfélagsleg sátt virðist vera um að verja hluta af okkar sameiginlegu sjóðum í að byggja það upp.
Á síðasta ári fóru rúm 9% af skatttekjum Mosfellsbæjar til íþrótta- og æskulýðsmála en það eru um 1,7 milljarðar króna. Fyrir þetta fjármagn rekum við meðal annars sundlaugar og íþróttamannvirki, styrkjum íþrótta- og tómstundastarf og rekum félagsmiðstöð. Auk þess var varið um 260 milljónum til fjárfestinga í aðstöðu á árinu 2023 og áætlað er að fjárfesta fyrir um 990 milljónir á þessu ári í íþrótta- og tómstundamannvirkjum.

Breytingar kalla á samtal
Það er að mörgu að huga þegar svæði eru skipulögð og sér í lagi þegar breytingar eru gerðar. Þá þarf að huga að hagsmunum oft ólíkra hópa. Það er nú einmitt tilfellið í þeim hugmyndum sem uppi eru um að gera breytingar á Hlíðavelli.

Mosfellsbær hefur gert samkomulag við Golfklúbb Mosfellsbæjar um að stækka völlinn til að hægt sé að gera breytingar á honum. Breytingarnar ganga aðallega út á að snúa vellinum þannig að frekara öryggis sé gætt á göngu-, hjóla- og reiðstígum í kringum völlinn.
Samkomulagið er tilkomið vegna hættu sem hefur skapast við nýja byggð við Súluhöfða og nálægð húsa við völlinn. Öryggi þessara íbúa í og við sín heimili er lykilforsendan fyrir því að bæjarstjórn samþykkti einróma í desember að ráðast í þetta verkefni með Golfklúbbi Mosfellsbæjar.
Skipulagsmál eru í eðli sínu lýðræðislegasta ferli stjórnsýslunnar. Þegar skipulagið fyrir þetta svæði liggur fyrir þá munu hagaðilar eins og Hestamannafélagið Hörður og íbúar í nágrenninu fá tækifæri til að rýna það og koma með athugasemdir.
Það verður enginn afsláttur gefinn af því þrátt fyrir vilja bæjarstjórnar og Golfklúbbsins til að ráðast í þessar breytingar. Svona breytingar þýða þó alltaf málamiðlanir og að sætta ólík sjónarmið.

Nýtum strandlengjuna saman
Við þurfum að ganga um þessar auðlindir okkar sem felast í grænum svæðum, útsýni og ósnertri náttúru af virðingu og það verður ekki ráðist í framkvæmdir á nýjum svæðum nema að vel ígrunduðu máli og að teknu tilliti til allra sjónarmiða.
Í mörg ár hefur útivistarfólk, hvort sem það eru golfarar, hestamenn, gangandi, hlaupandi eða hjólandi, notið þess að nýta strandlengjuna saman sem útivistarparadís. Það þurfum við að gera áfram en það þarf auðvitað að vera í fyrirrúmi tillitssemi og aðgát hjá okkur öllum sem nýtum þetta svæði og sýna samstöðu svo allir geti notið þess.

Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs
Sævar Birgisson, varaformaður skipulagsnefndar

Uppbygging á Varmársvæði

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

Okkar kæra Varmársvæði hefur þjónað bæjarbúum og fleirum einstaklega vel í gegnum árin, flestir íbúar nýta sér þá frábæru aðstöðu sem þar er að finna á einn eða annan hátt.
Svæðið er sannarlega mikilvæg lífæð okkar samfélags. Íbúum er stöðugt að fjölga og iðkendum sem stunda íþróttir að Varmá einnig, það kallar því á áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu svo aðstaðan geti staðist nútíma kröfur.

Nýr aðalvöllur
Framkvæmdirnar á aðalvellinum að Varmá hafa eflaust ekki farið framhjá neinum, enda stórar vélar þar að störfum. Unnið er hörðum höndum að því að skipta um jarðveg á hinum sögufræga aðalvelli, í framhaldinu þarf að fergja áður en hægt verður að hefjast handa við að leggja á nýtt gervigras á knattspyrnuvöllinn.
Í næstu áföngum þar á eftir mun svo nýr frjálsíþróttavöllur líta dagsins ljós, við hlið knattspyrnuvallarins, með 200 metra hlaupabraut sem mun geta nýst öllum

bæjarbúum vel. Að auki verður jarðvegurinn undir framtíðar stúkubyggingu undirbúinn. Það er því verið að taka stór skref í átt að enn betri aðalvelli að Varmá.

Sparkvöllur við Varmárskóla
Á skólalóðinni við Varmárskóla er fyrsti hluti endurbóta á skólalóðinni hafinn sem felur í sér að koma upp nýjum upphituðum sparkvelli ásamt stálrimlagirðingu umhverfis völlinn, hellulögn og ljósastaurum.
Kallað var eftir hugmyndum frá nemendum Varmárskóla þegar hugmyndavinna við nýja skólalóð hófst og voru flestir sem óskuðu eftir sparkvelli.

Hjólabraut í Ævintýragarðinum
Í Ævintýragarðinum eru framkvæmdir hafnar við nýja fjallahjólabraut sem gert er ráð fyrir að verði tilbúin í júní. Brautin verður mikil lyftistöng fyrir hjólreiðafólk og kærkomin viðbót. Þá verður farið í að uppfæra frisbígolfvöllinn í sumar, færa til nokkrar brautir og leggja heilsárspalla.

Núverandi meirihluti hefur lagt mikið upp úr því að eiga gott samráð með hagsmunaaðilum við uppbyggingu á Varmársvæðinu, það er mikilvægt að vandað sé til verka og verkefnið unnið faglega, með hagsmuni allra að leiðarljósi.
Til að styðja við næstu skref sem þarf að taka við uppbyggingu Varmársvæðis var unnin skýrsla um þarfagreiningu þjónustu- og aðkomubyggingar að Varmá. Mun hún hjálpa til við að ná enn betur utan um framtíðarsýn fyrir svæðið og þá uppbyggingu mannvirkja sem framundan er.
Það eru því mörg spennandi verkefni í gangi og á döfinni á Varmársvæðinu sem munu vafalítið efla íþróttastarf í Mosfellsbæ enn frekar.

Erla Edvardsdóttir formaður íþrótta- og tómstundanefndar
Sævar Birgisson varaformaður íþrótta- og tómstundanefndar

Menningin blómstrar í Mosfellsbæ

Posted on by Hrafnhildur Gísladóttir

Það eru forréttindi að fá að taka þátt í að gera bæinn okkar blómlegri með menningarviðburðum.
Nú er mars, mánuður Menningar í Mosó, nýliðinn og það var nóg um að vera. Þar má nefna tónleika sem kvennakórarnir Stöllurnar úr Mosfellsbæ og Sóldís úr Skagafirði héldu saman í Hlégarði, en þar voru flutt lög Magnús­ar Ei­ríks­son­ar. Á degi Listaskólans var öllum velkomið að kíkja við þar sem ljúfir tónar hljómuðu úr öllum rýmum. Þvílíkir hæfileikar hjá unga tónlistarfólkinu okkar.
Í leikhúsinu okkar var einnig opið hús þar sem nú er verið að sýna Línu Langsokk. Enn og aftur toppar Leikfélag Mosfellssveitar sig með frábærri sýningu. Í Álafosskvosinni var myndlistakonan Ólöf með opið hús alla sunnudaga í mars, gaman var að heimsækja hana og Kvosina. Þetta eru bara nokkrir viðburðir af mörgum þetta árið og verður gaman að fylgjast með þessu verkefni þróast og stækka á næstu árum.

Menning auðgar mannlífið og gefur okkur tækifæri til að hittast og njóta saman. Það er mikilvægt að lyfta upp á yfirborðið því fjölbreytta menningarstarfi sem fram fer í Mosfellsbæ, gera mosfellska menningu sýnilega og aðgengilega og þar hefur mikilvægi Hlégarðs komið vel í ljós.

Hlégarður spilaði stórt hlutverk í Menningu í mars og var um margt að velja. Það er dásamlegt að fylgjast með hvernig félagsheimili okkar Mosfellinga hefur lifnað við og blómstrað undanfarin misseri.
Einn af þeim viðburðum sem hefur fengið hvað bestar viðtökur í dagskrá Menningar í mars eru sögukvöldin í Hlégarði. Í fyrra var fullt hús og í ár fylltist húsið á fimm mínútum af söguþyrstum Mosfellingum. Það eru margir sem koma að því að láta svona viðburð ganga upp og vil ég þakka öllum þeim fyrir sem lögðu hönd á plóg. Það er magnað hvað hægt er að gera þegar áhugasamt fólk tekur sig saman.

Að lokum vil ég segja frá því að nú er hafin vinna við nýtt verkefni þar sem kortlögð hafa verið rými í Mosfellsbæ þar sem hægt verður að halda litlar sýningar í óformlegum sýningarrýmum. Í framhaldinu verður bæjarbúum boðið upp á að sækja um að halda sýningar í hinum ýmsu rýmum eins og til dæmis Hlégarði, Kjarnanum og Lágafellslaug svo eitthvað sé nefnt.
Þetta verkefni var sett af stað til að gefa þeim sem eru að vinna að listsköpun í Mosfellsbæ fjölbreyttari tækifæri til að sýna verk sín. Þegar þeirri vinnu er lokið verður verkefnið kynnt nánar ásamt upplýsingum um hvar og hvernig skráningar beiðna um sýningarrými verða mótteknar og afgreiddar.

Hrafnhildur Gísladóttir
formaður menningar- og lýðræðisnefndar

Íbúakönnun vegna nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar að Varmá

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

Íþróttasvæðið okkar að Varmá er mjög dýrmætt og mikilvægt að um það gildi skýr framtíðarsýn.
Því var ákveðið að mynda stýrihóp sem hefði það hlutverk að endurskoða framtíðarsýnina fyrir svæðið, kortleggja íþróttasvæðið að Varmá með tilliti til skipulegra þátta og þarfagreiningar vegna uppbyggingar til næstu 15 ára með áherslu á að styrkja íþróttastarf, bæta útivistaraðstöðu nemenda í aðliggjandi skólum og almennt auka gæði svæðisins fyrir íbúa Mosfellsbæjar.
Þeir sem eru í stýrihópnum eru kjörnir fulltrúar, tveir frá meirihluta og einn frá minnihluta, embættismenn og fulltrúi Aftureldingar ásamt bæjarstjóra.
Fyrsta verkefni stýrihópsins er að vinna að þarfagreiningu fyrir nýja þjónustu- og aðkomubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá.
Nýrri byggingu er ætlað að verða miðpunktur íþróttamiðstöðvarinnar þar sem veitt er ýmiss konar þjónusta með fjölbreyttri aðstöðu fyrir iðkendur, starfsfólk, nemendur og gesti. Mikilvægur liður í þeirri vinnu er könnun meðal hagaðila og íbúa. Könnunin hefur þegar verið send á ýmsa hagaðila svo sem iðkendur og forsjáraðila, starfsfólk Mosfellsbæjar sem vinnur á eða tengt íþróttasvæðinu að Varmá, starfsfólk íþróttafélaganna, þjálfara og sjálfboðaliða. Könnunin er einnig opin öllum íbúum, því að sjálfsögðu viljum við heyra raddir sem flestra íbúa og hvetjum því öll til þátttöku í henni.

Könnunin er framkvæmd fyrir stýrihóp­inn um endurskoðun á framtíðarsýn
Verkefninu í heild er skipt upp í þrjá áfanga og má þar fyrst nefna fyrrnefnda endurskoðun á þarfagreiningu fyrir þjónustu- og aðkomubyggingu. Þá er það vinna við heildarskipulag Varmársvæðisins með hliðsjón af uppbyggingarþörf íþróttastarfs og annarri uppbyggingu. Að lokum er það framkvæmd kostnaðarmats valkosta með tilliti til uppbyggingar svæðisins og fjármögnunar íþróttamannvirkja.
Könnunin er hluti af fyrsta verkþætti verkefnisins sem er gert ráð fyrir að verði lokið í apríl næstkomandi, en tímalína verkefnisins í heild nær fram í september 2024.

Hvetjum öll til þátttöku
Könnunin sem er opin öllum á vef Mosfellsbæjar til og með 15. mars 2024 er nafnlaus og svör ekki rekjanleg til einstakra þátttakenda. Það er mikilvægt fyrir stýrihópinn að heyra raddir allra íbúa í tengslum við þessa greiningarvinnu og því hvetjum við öll til að taka þátt í könnuninni og vera hluti af því að móta framtíðarsýn fyrir íþróttasvæðið að Varmá.
Ég vil hrósa starfsfólkinu okkar hjá Mosfellsbæ sem heldur utan um þessa góðu og vönduðu vinnu sem jafnframt er unnin hratt og skipulega. Þetta er með skemmtilegri verkefnum sem ég hef komið nálægt og ég hlakka til að sjá niðurstöður könnunarinnar.
Ég hef miklar væntingar til þessarar vinnu og vil segja við þig: Mundu að þitt álit skiptir máli því þjónustu- og aðkomubygging skiptir fólk á öllum aldri máli þar sem flestir tengjast henni á einn eða annan hátt.

Halla Karen Kristjánsdóttir 
formaður bæjarráðs og formaður stýrihóps um uppbyggingu á Varmársvæðinu

Framtíðarsýn á íþrótta­svæðinu að Varmá

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

Að Varmá koma þúsundir Mosfellinga og gesta á ári hverju til að stunda ýmiss konar íþróttir. Því er mikilvægt að vanda til verka og vera með skýra framtíðarsýn þegar kemur að áframhaldandi uppbyggingu, þar sem aðstaðan er komin að þolmörkum.
Nýr meirihluti fékk verkefnalista frá fyrra kjörtímabili sem er skrifaður inn í skýrslu sem Efla gerði fyrir Mosfellsbæ og gefin var út í mars 2021. Þessi skýrsla er góður grunnur og hægt er að vera sammála flestu sem þar kemur fram. Hinsvegar hefur legið fyrir að vilji er til þess að endurskoða ákveðna þætti.
Sú endurskoðun snýr aðallega að þjónustubyggingu sem átti að ráðast í á árinu 2022. Verkefnið var boðið út vorið 2022 en engin tilboð fengust. Í málefnasamningi nýs meirihluta kom fram vilji til þess að endurskoða þjónustubygginguna. Það var mat okkar sem stöndum að þeim samningi að sú hönnun sem er til staðar og er upprunalega frá árinu 2008, með viðbótum, muni ekki þjóna íþróttastarfsemi bæjarins á þessu svæði þegar til framtíðar er litið.
Við þurfum að hugsa stærra og það er alveg ljóst að til að ráðast í slíka framkvæmd þurfa markmiðin að vera skýr.

Tíminn er vel nýttur
Vinna við að skoða möguleika á uppbyggingu að Varmá og framsetningu á framtíðarsýn svæðisins hófst strax sumarið 2022.
Til þess að láta verkefnið ekki líða fyrir áherslubreytingu meirihlutans, sem liggur aðallega í að endurskoða hönnun þjónustubyggingar, var ráðist í endurnýjun gervigrasvallar og sett upp vökvunarkerfi.
Einnig hefur verið sett fram gróf hönnun á endurnýjun aðalvallar og frjálsíþróttasvæðisins. Þegar sett er gervigras á knattspyrnuvöll breytir það möguleikum á samspili frjálsra íþrótta og knattspyrnu mikið. Af öryggisástæðum er ekki hægt að bjóða upp á æfingar frjálsra íþrótta samtímis leikjum á vellinum. Það er fyrirséð út frá miklum iðkendafjölda í knattspyrnu að mikil notkun verður á aðalvellinum. Lagðar hafa verið til í fjárhagsáætlun framkvæmdir við endurnýjun aðalvallar á árinu 2024 og í beinu framhaldi verður farið í frjálsíþróttasvæðið.

Samhugur í Mosfellingum
Við höfum mikinn skilning á metnaði þeirra fjölmörgu aðila sem halda úti íþróttastarfi að Varmá og við deilum honum. Við höfum líka mikinn skilning á þeirri óvissu sem getur skapast þegar nýir aðilar koma að málum.
Til að eyða allri óvissu þá viljum við taka skýrt fram að við erum sammála þeim verkefnum sem talin eru upp í áðurnefndri skýrslu Eflu. En við viljum tryggja að fjármagninu sé vel varið og að byggt verið af metnaði og til framtíðar. Það er ljóst að til að svo geti orðið þarf að breyta forgangsröðun verkefna. Við vonumst til að geta unnið að þessum málum í sátt við þá hagaðila sem starfa á svæðinu.
Settur verður saman hópur til að stilla upp endurskoðaðri framtíðarsýn fyrir svæðið sem tekur tillit til þeirrar vinnu sem þegar hefur verið unnin og bætir við hana. Enn fremur er hópnum ætlað að leita að og koma með tillögur að tekjuöflun fyrir uppbygginguna, þar sem það er ljóst að þjónustubygging til framtíðar verður dýrari en sú sem lagt var upp með í skýrslu Eflu.
En fyrir næstu þrjú árin hafa verið settir 2,5 milljarðar í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Þó að þetta sé mikið fjármagn, þá er fjárþörfin meiri og það er eitt af þeim mikilvægu verkefnum sem eru fram undan að afla tekna fyrir sveitarfélagið til að setja í aðstöðumál við Varmá. Við ætlum okkur stóra hluti og höfum metnað og vilja til að bæta íþróttasvæðið að Varmá fyrir alla bæjarbúa.

Halla Karen Kristjánsdóttir 
formaður bæjarráðs

Óvissu eytt um rekstur Skálatúns

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

Á dögunum voru undirritaðir samningar varðandi framtíðaráform á Skálatúni.
Samningarnir marka tímamót bæði fyrir rekstur heimilisins sem þar hefur verið rekið í áratugi en einnig fyrir framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Mosfellsbær mun nú taka við rekstri Skálatúns. Það þýðir meðal annars að starfsfólk Skálatúns verður framvegis hluti af starfsliði Mosfellsbæjar. Samningarnir tryggja að íbúar Skálatúns geti áfram búið þar en mörg þeirra hafa haft búsetu á Skálatúni frá barnæsku. Þar með er búið að eyða þeirri óvissu sem verið hefur um rekstur heimilisins um nokkurt skeið.
Um er að ræða talsvert flókna samninga þar sem margir koma að. Á síðustu árum hafa verið gerðar nokkrar atlögur að því að leysa málin sem snúast bæði um erfitt rekstrarumhverfi í málaflokki fatlaðs fólks en einnig um áratugalanga sögu heimilisins að Skálatúni.
Það er því mikill léttir fyrir alla hlutaðeigandi að komin sé niðurstaða í málið. Að okkar mati eiga allir sem komu að þessum samningum miklar þakkir skilið og það var lykilatriði að bæjarstjórnin stæði einhuga á bakvið samningana.

En þó langar okkur að nefna sérstaklega framlag mennta- og barnamálaráðherra og bæjarstjóra Mosfellsbæjar sem leiddu þessa vinnu af mikilli hugsjón og auðmýkt gagnvart öllum hlutaðeigandi.

Verkefni án hliðstæðu
Varðandi framtíðaráform á svæðinu þá var einnig skrifað undir viljayfirlýsingu milli Mosfellsbæjar og mennta- og barnamálaráðuneytis um uppbyggingu á starfsemi á svæðinu sem verður í þágu barna og ungmenna.
Þetta þýðir að á Skálatúnsreitnum er ætlunin að byggja upp aðstöðu fyrir stofnanir og samtök sem vinna í þágu barna, svokallaða Barnadeiglu. Þetta er uppbyggingarverkefni án hliðstæðu hér í Mosfellsbæ. Um er að ræða sérstakan þjónustukjarna sem á að halda utan um þær stofnanir sem koma að þjónustu við börn af öllu landinu.

Fjöldi starfa flyst í Mosfellsbæ
Hugmyndin er að skapa aðstöðu sem er til þess fallin að efla samstarf og auðvelda aðgengi með því að hafa alla þessa þjónustu á einum stað. Þetta mun hafa í för með sér gríðarlega atvinnuuppbyggingu í Mosfellsbæ og fjölda starfa sem mun flytjast í bæinn.

Orð eru til alls fyrst og það er mikilvægt að vera með framtíðarsýn og metnaðarfull áform fyrir bæinn okkar. Hvort sem um er að ræða atvinnuuppbyggingu eða þjónustu við fatlað fólk. Í framhaldi af þessum ákvörðunum er mikilvægt að halda áfram að vanda sig og hafa hagsmuni íbúanna að leiðarljósi við þessar breytingar. En við erum vongóð um að uppbygging sé fram undan enda býður þetta landsvæði upp á mikil tækifæri til þess að búa til magnaða umgjörð sem snýr að því að auka samtal og samvinnu þvert á kerfi og stofnanir í þágu barna og ungmenna á landinu öllu.

Halla Karen Kristjánsdóttir, Aldís Stefánsdóttir, Sævar Birgisson og Örvar Jóhannsson.
Bæjarfulltrúar Framsóknar í Mosfellsbæ.

Við viljum bara það besta fyrir börnin okkar

Posted on by Sævar Birgisson

Fyrsta skólastig, eða leikskólar, er einhver mikilvægasta þjónusta sem sveitarfélög veita. Í Mosfellsbæ er heimilt að sækja um leikskólavist fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Gott og vel. Það sem er mikilvægast í umsóknarferlinu er að óvissu um hvenær og hvar barnið fái leikskólapláss sé eytt eftir fremsta megni.

Það er nógu stórt verkefni fyrir nýbakaða foreldra að sinna uppeldinu, án þess að þurfa að bæta öðrum áhyggjum ofan á það. Vissulega hafa verið ákveðnir vaxtarverkir í takti við vaxandi íbúafjölda í sveitarfélaginu og því krefjandi verkefni að mæta aukinni þörf í þessum málum. Ekki er hægt að verða við öllum óskum um tiltekinn skóla og getur fæðingarmánuður barns haft mikið að segja í þeim efnum. Aðalatriðið er að við veitum foreldrum hugarró. Við í Framsókn Mosfellsbæ viljum að þjónustan við börn sé veitt um leið og fæðingarorlofi foreldra lýkur, það þarf að sjá til þess að bilið sé brúað.
Það er gríðarlega krefjandi starf að vera starfsmaður á leikskóla og mikil ábyrgð sem felst í því að sjá um börnin okkar á þessum mest mótandi tíma á þeirra ævi. Við sem foreldrar gerum ríkar kröfur á leikskólastarfið, alveg eins og starfsfólkið gerir kröfur á okkur sem foreldra. Það þarf að sjá til þess að búið sé þannig um að við sem sveitarfélag séum einmitt að veita bestu þjónustu sem völ er á, framúrskarandi þjónustu. Hærra hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara er stór þáttur í því að efla góða þjónustu enn frekar. Sem dæmi má nefna að ófaglærðir starfsmenn leikskóla eru oft á tíðum einstaklingar sem vilja sækja sér menntunina en vantar hvatningu til að taka skrefið.
Við hjá Framsókn viljum beita okkur fyrir því að efla það mikilvæga starf sem unnið er í leikskólum sveitarfélagsins, meðal annars með því að mæta því frábæra fólki sem þar starfar og auðvelda því að sækja sér viðeigandi menntun til að styrkja stöðu sína. Eru fjölmargar leiðir færar í þeim efnum. Á sama tíma erum við að bæta þjónustuna og gera vinnustaðina enn eftirsóknarverðari.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur unnið mjög gott starf fyrir farsæld barna og fjölskyldna í landinu. Mikið framfaraskref var stigið þegar Alþingi samþykkti frumvarp til nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þau ganga út á að tryggja aukna samvinnu og samfellu í þjónustu við börn, eitthvað sem mikilvægt er að verði innleitt sem fyrst. Hér í Mosfellsbæ eigum við að vera framúrskarandi þegar kemur að málefnum barna, því við viljum bara það besta fyrir börnin okkar.

Setjum málefni barna í forgang og merkjum X við B á kjördag.
Höfundur er faðir tveggja barna á leikskólaaldri.

Sævar Birgisson
3. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Raddir íbúa hafa áhrif

Posted on by Rúnar Þór Guðbrandsson

Í baráttunni við lyktar- og sjónmengun frá starfsemi Sorpu hafa íbúar í Leirvogstungu náð miklum árangri með stöðugu aðhaldi. Það sýnir að raddir íbúa hafa áhrif og skipta máli.
Að sama skapi hafa kjörnir fulltrúar sýnt máttleysi gagnvart yfirgangi Reykjavíkur og hlutleysi annarra eigenda byggðasamlagsins. Eigendur SORPU eru öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Í rúman áratug hafa íbúasamtök Leirvogstungu átt hátt í hundrað fundi með fulltrúum Mosfellsbæjar og Sorpu um starfsemi þeirra í Álfsnesi. Árið 2013 var svo gert eigendasamkomulag. Í því fólst í stuttu máli eftirfarandi:

  • Fullkominni gas- og jarðgerðarstöð með lokuðu ferli yrði komið upp í Álfsnesi með samþykki Mosfellsbæjar og íbúasamtaka Leirvogstungu og urðun hætt í Álfsnesi.
  • Brennsla á lyktarsterkum úrgangi færi í Kölku á Suðurnesjum (Suðurnesjamenn og eigendur Sorpu hafa ekki náð samkomulagi um það vegna ósamstöðu).
  • Urðun á óvirkum úrgangi (að mestu lyktarlaus) yrði á Suðurlandi (Sunnlendingar bökkuðu út úr þessu eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Sorpa setti þvingunaraðgerðir á þá en síðan hafa þeir flutt sitt sorp utan með skipum).

Sveitarstjórnir vilja ýta þessu frá sér og enginn virðist vilja þetta í „sinn bakgarð“. Vandamálið liggur því þar og yfirgangur Reykjavíkur verið algjör og öðrum sveitarfélögum finnst bara fínt að Reykjavík sjái um þetta því þetta trufli enga nema Mosfellinga. Staðan í dag er sú að Gas- og jarðgerðarstöðin er klár og hefur hafið starfsemi. Umdeilt er hversu vel hafi tekist til. Athugasemdum íbúa um lokað ferli (þrær yfirbyggðar) og staðsetningu var þó mætt.

Urðun átti að vera lokið en er á framlengdum fresti þar sem samstarfssveitarfélögin hafa ekki viljað axla ábyrgð og finna starfseminni staðsetningu. Framlengdur frestur rennur út í lok árs 2023. Allar líkur eru á því að hefja verði útflutning á sorpi að þeim tíma liðnum komist sveitarfélögin ekki að samkomulagi. Til að hægt sé að hefja urðun á óvirkum úrgangi er nauðsynlegt að byggja sorpbrennslustöð því núverandi geta Kolku í Suðurnesjabæ er takmörkuð og ekki hefur náðst samstaða um stækkun hennar.
Vinnuhópur sem skilaði skýrslu um áramót komst að þeirri niðurstöðu að hagkvæmast væri að byggja sorpbrennslustöðina í Álfsnesi. Þetta munum við aldrei geta sætt okkur við. Aðgerðarleysi og samstöðuleysi samstarfs sveitarfélaganna í Sorpu er búið að setja urðunarmálin í algjört óefni.

Það skiptir því gríðarlega miklu máli fyrir Mosfellinga að raddir íbúa heyrist áfram í þessu máli. Það hefur vissulega skilað okkur árangri. En það skiptir ekki síður máli að í nýrri bæjarstjórn verði fólk sem mun beita sér fyrir því að þetta stóra umhverfisslys verði ekki í bakgarðinum okkar.

Við í Framsókn erum einhuga í því að koma málefnum Sorpu í réttan farveg.
Munið X við B á kjördag.

Rúnar Þór Guðbrandsson, í stjórn íbúasamtaka Leirvogstungu og skipar 10. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ.

Vöndum vinnubrögðin við stækkun bæjarins

Posted on by Aldís Stefánsdóttir

Framsókn í Mosfellsbæ styður áframhaldandi uppbyggingu á íbúðarhúsnæði fyrir alla aldurs- og tekjuhópa. Annað væri óábyrgt miðað við stöðuna á húsnæðismarkaðnum í dag. Sú staða hefur áhrif á flest heimili meðal annars í gegnum vaxandi verðbólgu.
Margir finna fyrir skorti á húsnæði og þá sérstaklega unga fólkið en einnig þeir sem eldri eru. Húsum þar sem ungmenni fá aðstöðu í bílskúrnum hjá foreldrum sínum fjölgar enn í Mosfellsbæ og húsaleiga er gríðarlega há.

Fréttir af fyrirhugaðri uppbyggingu í Blikastaðalandi eru því löngu tímabærar. EN það er ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir. Þessi uppbygging mun hafa gríðarleg áhrif á núverandi íbúa Mosfellsbæjar. Það vita þau sem hafa búið hér á síðustu tveimur áratugum. Á þeim tíma hefur íbúafjöldinn tvöfaldast. Sú fjölgun hefur ekki verið án vaxtaverkja og við þurfum að læra af þeirri reynslu.

Við þurfum að horfa á þróun og rekstur bæjarins í samhengi. Það er ekki skynsamlegt að líta til stakra málaflokka og halda að rekstur á einum lið hafi ekki áhrif á annan. Ekkert frekar en í rekstri fyrirtækja eða heimila.
Staðan er sú að á sama tíma og núverandi bæjarstjórn hefur skuldbundið verðandi fulltrúa varðandi uppbyggingu á Blikastaðalandi, sem er gríðarlega stórt verkefni, stöndum við frammi fyrir stórum áskorunum á öðrum sviðum. Það eru samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu sem skipta okkur Mosfellinga miklu máli. Einnig munum við glíma við eftirköst heimsfaraldurs, endurskipuleggja málaflokk eldra fólks, taka á móti flóttafólki og efla starfsemi leik- og grunnskóla með hagsmuni barna að leiðarljósi svo eitthvað sé nefnt.
Að auki eigum við inni samtal um þróun á atvinnustarfsemi í Mosfellsbæ sem hefur ekki verið í forgrunni heldur mætt afgangi sem sést á stefnu- og áhugaleysi bæjaryfirvalda.

Þessi verkefni verða ekki leyst farsællega nema með samvinnu, samtali við íbúa, trausti og forgangsröðun. Þau verða heldur ekki leyst farsællega nema með því að styrkja stjórnsýsluna til að gera henni kleift að sinna sínum verkefnum.
Það er stjórnmálanna að leggja til framtíðarsýn og gera langtímaáætlanir. Fólki í stjórnmálum ber skylda til að gera það á gagnsæjan hátt og þannig að lýðræðið sé virt. Upplýsingagjöfin og samtalið á að fara stöðugt fram en ekki bara rétt fyrir kosningar. Það á heldur ekki að koma íbúum né kjörnum fulltrúum á óvart þegar verið er að gera stóra samninga um uppbyggingu í sveitarfélaginu. Það eru ekki vinnubrögð sem við getum boðið upp á.

Framsókn í Mosfellsbæ leggur áherslu á heiðarleg og gagnsæ vinnubrögð. Virkt samtal við hagsmunahópa og öflugt nefndarstarf í nefndum og ráðum bæjarins. Við viljum hugsa stórt og við viljum hugsa til lengri tíma.
Hvernig sveitarfélag verður Mosfellsbær í framtíðinni? Hvaða áherslur þarf að leggja í uppbyggingu bæjarins sem gerir hann aðlaðandi og ákjósanlegan til búsetu til framtíðar bæði fyrir börnin okkar og okkur sjálf á efri árum? Svarið við þessum spurningum liggur hjá okkur sem búum hér í dag og látum okkur málin varða. Hlutverk kjörinna fulltrúa er að hafa hugrekki til að hlusta og koma hlutunum í verk.

Munið X við B á kjördag

Aldís Stefánsdóttir

  1. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Snemmtæk úrræði fyrir skólasamfélagið. Hvað er til ráða?

Posted on by Erla Edvardsdóttir og Þorbjörg Sólbjartsdóttir

Á undanförnum árum hefur Mosfellsbær vaxið jafnt og þétt og í dag eru 5 grunnskólar og 9 leikskólar starfræktir í bæjarfélaginu. Sem starfandi kennarar hér í bæ höfum við fundið fyrir vaxandi þörf á sértækum úrræðum af ýmsum toga fyrir börn og ungmenni sem kljást við félagslega einangrun, einhverfu, ADHD taugaþroskaröskun, tengslavanda, þroskaskerðingu, sjálfsskaða, geðraskanir, áhættuhegðun, tölvufíkn og hegðunarvanda. Auk þess sárvantar móttökudeild fyrir nýbúa með annað móðurmál en íslensku, en þeim hefur farið fjölgandi í bæjarfélaginu.

Hugmyndafræðin „skóli án aðgreiningar“ er flott á blaði en hefur ekki verið fylgt inn í skólakerfið með því fjármagni og sérþekkingu sem þarf til. Allt of fá úrræði hafa verið í boði fyrir börn með mikinn vanda og biðin eftir því að komast að hjá sérfræðingum oft allt of löng. Við það skapast mikið álag, bæði innan skólakerfisins og inn á heimilunum. En hvað er til ráða?

Við í Framsókn teljum að með því að koma upp miðlægðri þjónustumiðstöð sem býður upp á margskonar úrræði, sniðnum að þörfum hvers og eins, megi draga verulega úr þessu álagi. Í slíkri þjónustumiðstöð væru starfandi sérfræðingar á sviðum sálfræði, talmeinafræði, atferlistfræði, uppeldisfræði, nýbúafræði og kennsluráðgjafar, svo eitthvað sé nefnt. Þessir sérfæðingar gætu nýst öllum börnum leik-og grunnskólanna, líka yfir sumartímann. Þessir sérfræðingar kæmu inn í skólana eftir þörfum hverju sinni, auk þess sem húsnæði þjónustumiðstöðvarinnar væri nýtt til kennslu og námskeiðahalds. Þjónustumiðstöðinni væri einnig ætlað að veita foreldrum upplýsingar og aðstoð hvað réttindi barna þeirra varðar.

Hið sögufræga hús, Brúarland, væri tilvalið fyrir slíka þjónustumiðstöð, en undanfarin ár hefur húsnæðið verið nýtt til skólahalds og nemendum og starfsfólki liðið afar vel þar.

Með því að byggja upp miðlæga þjónustumiðstöð í Brúarlandi tryggjum við skólakerfinu hér í bæ greiðan aðgang að sérfræðingum og stuðlum að snemmtækri íhlutun sem líta þarf á sem fjárfestingu í framtíðinni, bæði fyrir einstaklinginn, fjölskyldu hans og samfélagið. 

Erla Edvardsdóttir, grunnskólakennari, skipar 6. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ
Þorbjörg Sólbjartsdóttir, grunnskólakennari, skipar 8. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 28. apríl 2022

Ég vil eldast í Mosfellsbæ

Posted on by Aldís Stefánsdóttir og Halla Karen Kristjánsdóttir

Flest viljum við lifa lengi en enginn vill verða gamall. Hvert aldursskeið hefur sinn sjarma og maður þarf stöðugt að minna sig á að njóta þess hlutverks sem maður hefur á
hverjum tíma. Það er jafnframt mikilvægt á öllum þessum aldurskeiðum að við finnum
að við höfum tilgang, finnum að það sé hlustað á okkur, að við skiptum máli og njótum
virðingar.
Þegar kemur að þjónustu hins opinbera við eldra fólk þá eru þarfirnar jafn ólíkar og á
öðrum aldursskeiðum. Við þurfum nefnilega að gæta þess að skilgreina fólk ekki
eingöngu út frá aldri. Þrátt fyrir að fólk sé komið á eftirlaunaaldur þá er fjölbreytni innan
þess hóps af ýmsum toga.
Sumir eru hraustir líkamlega en aðrir ekki, sumir eru mjög vel á sig komnir andlega en
aðrir síður. Sumir eru vel staddir fjárhagslega og aðrir ekki. Sumir eiga mikið bakland í
sínum fjölskyldum og maka en aðrir eru ekki svo lánsamir. Þessar lýsingar geta átt við
um fólk á öllum aldri. Þannig má færa rök fyrir því að aldur sé afstæður.

Aldursvænt samfélag

En hvað er það sem málið snýst um þegar kemur að þjónustu við eldra fólk? Jú þar er
af nægu að taka. Húsnæðismál, heilbrigðisþjónusta, félagslíf, aðstöðumál og kjaramál
svo tekin séu dæmi. Auk þess mætti nefna aðkomu eldra fólks að stjórnkerfinu og
ákvarðanatöku þar.
Framsókn leggur áherslu á að ráðist verði í allsherjar endurskipulagninu á þjónustu við
eldra fólk. Aukin samvinna innan kerfisins yrði leiðarljósið í þeirri vinnu. Afraksturinn þarf
að vera persónumiðuð og sveigjanleg þjónusta. Fólk fengi þannig þá þjónustu sem það
þarf en ekki bara þjónustu sem hentar kerfinu að veita. Innleiða þarf tæknilausnir sem
nú þegar eru til þannig að þjónustan sé skilvirk, hröð og aðgengileg.
Annað lykilatriði sem er nauðsynlegt að nefna í þessu sambandi og þeir þekkja sem að
málum hafa komið er samvinna ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að þjónustu við eldra
fólk. Samskipti um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustuíbúða í gegnum
óhagnaðardrifin leigufélög. Samskipti um heilbrigðisþjónustu sem þarf að veita inni á
heimilum og samskipti um kjör eldra fólks svo eitthvað sé nefnt. Það er mikilvægt að
sveitastjórnarfólk beiti sér stöðugt fyrir því að hægt sé að veita framúrskarandi
nærþjónustu og að þau hafi frumkvæði að uppbyggilegu samtali við ríkið í
málaflokknum.
Framsókn í Mosfellsbæ treystir sér til að vera leiðandi í þeirri kerfisbreytingu sem þarf
að eiga sér stað og lýst hefur verið stuttlega í þessari grein. Við treystum okkur til að hafa frumkvæði, setja okkur inn í málin og vinna ötullega að því að það verði gott að
eldast í Mosfellsbæ. Við treystum okkur til að eiga samstarf við hagsmunasamtök eldra
fólks til að raddir þeirra fái að heyrast og til að þau geti áfram haft áhrif á það hvernig
samfélagið okkar þróast. Við trúum því nefnilega að þjónusta við eldra fólk sé fjárfesting
í framtíðinni.

Ef þú vilt líka vera hreyfiafl í þínu samfélagi settu þá x við B í kosningunum 14. maí.

Halla Karen Kristjánsdóttir, 1. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ
Aldís Stefánsdóttir, 2. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 28. apríl 2022

Ný Framsókn fyrir Mosfellsbæ

Posted on by Örvar Jóhannsson

14. maí n.k. göngum við til kosninga og fáum tækifæri til að nýta mikilvægustu mannréttindi sem við höfum, réttinn til að velja sjálf það fólk sem kemur til með að stýra málefnum samfélagsins okkar til næstu 4 ára. Ég gaf kost á mér til að taka sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum og var treyst fyrir 4. sæti listans.
Ég er 38 ára, bý ásamt eiginkonu minni og 3 börnum í Helgafellshverfinu, þar höfum við búið síðan árið 2019.  Ég er fæddur og uppalinn á Seyðisfirði og bjó þar óslitið þar til við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ.  Okkur hefur hvergi liðið betur en einmitt hér.  Ég brenn fyrir það að hér búum við sem best að börnunum okkar, auk ýmissa annarra þátta sem ég og við í Framsókn munum kynna á næstu vikum.
Í nútíma sveitarfélögum verður ákall bæjarbúa og krafan um það að þjónustan sé veitt um leið og eftir henni er kallað sífellt háværari.  Stærsti þjónustuveitandi flestra einstaklinga er vafalítið, lögheimilissveitarfélag hvers og eins.  Það er því mikilvægt að til að mæta ákalli og kröfum bæjarbúa að sveitarfélagið sé stöðugt á tánum þegar kemur að nýtingu tæknilausna og þróunar í samskiptamiðlum við þá vinnu.
Í þessu sambandi tel ég mikilvægt að ávallt sé tryggt að vefsíða sveitarfélagsins sé góð og aðgengileg upplýsingaveita. Innra svæði vefsins fyrir íbúa, þ.e. „Mínar síður“, sé gagnvirkt svæði þar sem íbúar geta nálgast í rauntíma allar upplýsingar um þá þjónustu sem innskráður íbúi greiðir af til sveitarfélagsins. Ekki ósvipað því sem sjá má við kaup á lyfjum skv. lyfseðli, þar sem kemur fram annars vegar hlutur sjúklings af kostnaðinum og hins vegar hluti sjúkrasamlags.
Í ábendingakerfinu sem á vefnum er, fengist við innsendingu úthlutað málsnúmeri þar sem á hverjum tíma er hægt að nálgast upplýsingar um stöðu málsins í stjórnkerfinu, þ.e. ekki eingöngu stöðu eins og móttekið, í vinnslu, o.s.frv. heldur ítarlegri eftir atvikum, t.d. á borði hvaða nefndar, þjónustusviðs eða jafnvel ákveðins starfsmanns sveitarfélagsins málið er.
Ég tel mikilvægt að í þjónustu sveitarfélagsins við íbúa, sé stöðugt fylgst með tækniþróun til að þjónusta á hverjum tíma sé ávallt með því besta sem völ er á. Slíkri þróun fylgja vissulega alltaf einhver útgjöld, en líklegt er að til lengri tíma felist í raun sparnaður í því að endurnýja kerfin örar frekar en að vera stöðugt að greiða af og viðhalda eldri, oft á tíðum óskilvirkum kerfum, sem þrátt fyrir að hafa talist góð og gagnvirk á sínum tíma, eru einfaldlega börn síns tíma.
Ég er reiðubúinn til að leggja mitt af mörkum næstu fjögur árin til að gera okkar yndislega bæ enn betri. Ég er ávallt reiðubúinn að taka samtalið um hugmyndir og útfærslur úr öllum áttum og vinna að góðum málum sama frá hverjum þau koma.

Við á lista Framsóknar í Mosfellsbæ óskum eftir því að þú hugsir til okkar í kosningunum
þann 14. maí og setjir X við B á kjördag.

Örvar Jóhannsson,
skipar 4. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 28. apríl 2022

Hálfa leið eða alla leið ?

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

Mosfellsbær er Heilsueflandi samfélag og hefur verið leiðandi í þróun verkefnisins sem hefur verið innleitt víða um land.
Framsókn í Mosfellsbæ vill leggja áherslu á áframhaldandi forystu, innleiðingu og rekstur verkefnisins og þannig setja lýðheilsu í forgrunn við alla ákvarðanatöku á vegum bæjarins. Við viljum ekki láta staðar numið við fallegt plagg, heldur þarf að fylgja því eftir með fjármagni og aðgerðum. 
Íþrótta- og tómstundastarf hefur verið og  verður mál málanna næstu árin.
Af hverju ? Jú það eru allir orðnir sammála um hversu mikið gildi heilbrigt íþróttastarf og tómstundir eru. Í samfélagi þar sem er mikill hraði og áreiti verður sífellt mikilvægara að leita leiða til að spyrna gegn streitu, kvíða og vanlíðan með öflugu framboði af leiðum til hreyfingar og samveru.
Framsókn í Mosfellsbæ vill hugsa stórt. Við viljum búa til sameiginlega framtíðarsýn
og vinna markvisst að því að hún verði að veruleika.

Við höfum allt til þess að vera fyrirmyndar Heilsubærinn Mosfellsbær og það á að vera
eftirsóknarvert að vera hér bæði fyrir íbúa og gesti. Bærinn okkar á að vera í fremstu röð
þegar kemur að heilsueflingu fyrir alla.   
Mosfellsbær nýtur gríðarlegra forréttinda. Hér er ósnortin náttúra í bakgarðinum, fjöll, dalir, lækir og vötn. Ein af  perlum okkar er Varmársvæðið sem er allsherjar íþrótta og
útivistaparadís. En það er ekki nóg að vera með íþróttaaðstöðu það þarf að hlúa að henni og sinna viðhaldi. Þegar kemur að framkvæmdum þarf að hugsa stórt og uppbygging íþróttamannvirkja á að vera metnaðarfull og þannig úr garði gerð að hún svari þörfum starfseminnar sem þar fer fram til framtíðar. Þannig verður hagur allra bæjarbúa hafður í fyrirrúmi.

Hvað er það sem nærir þig?

Jú svörin eru væntanlega eins misjöfn og þau eru mörg.  Því það sem nærir þig, nærir ekkert endilega aðra. Það er eins með börnin okkar og okkur sjálf það hafa ekki allir áhuga á sömu íþróttagreininni eða bara að æfa íþróttir yfir höfuð. Sumir finna hjartað slá hjá Aftureldingu, aðrir brenna fyrir jaðaríþróttum enn aðrir velja að fara í tómstundir eins og t.d. skáta, vera í tónlistaskólanum eða í kórstarfi.
Framsókn í Mosfellsbæ vill að stofnað verði til samráðsvettvangs allra þeirra sem koma að hreyfingu og tómstundum hjá bæjarfélaginu. Vegna þess að það er mikilvægt að auka samtalið og samvinnuna. Þannig aukum við líkurnar á því að forsvarsmenn félaga verði frekar meðvitaðir um hvað er helst á dagskrá í bænum og geti hjálpast að við að efla kynningu á því góða starfi sem fer fram hér í bæjarfélaginu okkar.  Því öll erum við að vinna að sama markmiðinu sem er að efla einstaklinginn andlega, líkamlega og félagslega.

Öflug sókn í íþrótta og tómstundastarfi er besta forvörn sem við getum veitt börnunum
okkar. Við foreldrarnir sem og afar og ömmur megum samt ekki gleyma hlutverki okkar.  Við erum fyrirmyndir. Eins og málshátturinn segir:
„Það sem þú gerir hljómar svo hátt að það sem þú segir heyrist ekki“ 

Halla Karen Kristjánsdóttir,
íþróttakennari og oddviti Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 7. apríl 2022

Tökum samtalið

Posted on by Sævar Birgisson

Sem íbúar í bæjarfélagi þá höfum við öll skoðanir á einhverjum málefnum er varða bæinn okkar. Hvort sem það tengist skipulaginu á nýjum stíg í hverfinu eða útdeilingu á leikskólaplássi fyrir barnið þitt. Ef þú sem íbúi hefur skoðun sem þú telur að geti komið að gagni þá skaltu láta í þér heyra. Eins frá sjónarhóli þess frábæra fólks sem starfa hjá sveitarfélaginu og sinna daglegri starfsemi í bænum okkar má gera ráð fyrir að þau hafi skoðanir á ýmsu sem hægt væri að gera betur. Það sama gildir um aðra hagsmunaaðila sem sjá tækifæri til úrbóta. Látið rödd ykkar heyrast.

Við viljum að á okkur sé hlustað og að við upplifum okkur sem mikilvæg. Við búum öll saman í bæjarfélaginu og viljum auðvitað að okkur og öðrum íbúum líði vel og allir þrífist eins og best verður á kosið. Við þurfum að eiga samskipti og stuðla að því að þau séu uppbyggileg og jákvæð og til þess fallin að gera bæinn okkar að enn betri stað til að búa á.

Þegar kemur að góðri stjórnun, samstarfi og samvinnu almennt eru markviss og uppbyggileg samskipti lykilatriði. Í sumum málum getur það beinlínis hamlað framþróun að hunsa eða leitast ekki eftir skoðunum hagsmunaaðila. það getur oft á tíðum fært mál í verri farveg og jafnvel sett þau aftur á byrjunarreit. Það er til að mynda ekki skynsamleg ákvörðun að leggja hjólastíg og reiðstíg hlið við hlið, það er ekkert sjálfsagt mál að allir sjái vandamálið við það en þeir sem stunda hestamennsku væru fljótir að benda á það væri ekki ákjósanlegt.

Bæjarfulltrúar starfa jú í umboði kjósenda, sem eru íbúar bæjarins. Þeim ber því skylda til að vinna ætíð með hagsmuni íbúa að leiðarjósi. Til þess að það geti gengið sem best þurfum við að vera dugleg að taka samtalið.

Sævar Birgisson
3. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 7. apríl 2022.

Af því að það skiptir máli

Posted on by Aldís Stefánsdóttir

Tilvera okkar er full af áreiti og álitaefnum. Til dæmis hvort maður eigi að bjóða sig fram til setu í sveitarstjórn eða ekki.
Það eru ótrúlega margar ástæður fyrir því að gera það ekki. Trúið mér, ég er búin að fara yfir þær allar. En á endanum varð niðurstaðan sú að ég vil leggja mitt af mörkum. Mér finnst skipta máli hverjir stjórna og hvernig er stjórnað. Það er pláss við borðið fyrir fjölbreyttar skoðanir og það er mikilvægt að nýjar raddir fái að heyrast.

Við búum í samfélagi sem hefur alla burði til að geta þróast með kröfum nútímans og svarað kalli framtíðarinnar.
Þjónusta sveitarfélaga er gríðarlega mikilvæg og snertir hvert einasta heimili. Þegar þjónusta er þróuð, skipulögð og veitt, skiptir mestu máli að hlusta á þá sem þiggja hana og enn fremur þá sem veita hana. Ég tel að reynsla mín og þekking á starfsemi sveitarfélagsins geri mig að góðum hlustanda.

En það er ekki nóg að hlusta og hafa skoðanir. Það þarf líka að hafa reynslu og þekkingu til að greina aðalatriði frá aukaatriðum, kunna að afla sér upplýsinga og síðast en ekki síst að hafa nægilegan styrk til að geta tekið góðar ákvarðanir. Ég trúi því að áralöng reynsla í krefjandi verkefnum á vinnumarkaði geri mig hæfa til ákvarðanatöku.

Mosfellsbær hefur allt til að bera til að vera fyrirmyndar sveitarfélag. Það er mikilvægt að við leyfum okkur að hugsa stórt og hugsa lengra. Okkar bíða áskoranir við að byggja upp Mosfellsbæ framtíðarinnar.

Eftirköst heimsfaraldursins, móttaka og aðlögun innflytjenda, áhrif loftslagsbreytinga, breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, frekari uppbygging íbúðarhúsnæðis, fjölgun íbúa og efling innviða. Þetta eru áskoranir sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir, bæði til lengri og skemmri tíma. Það er af nægu að taka.

Ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum og hlakka mikið til að heyra hvað brennur á íbúum í bænum. En svona verkefni vinnur enginn einn. Það skiptir máli að vera í góðum hópi fólks og eiga góða að.
Framsókn í Mosfellsbæ er fjölbreyttur og hæfileikaríkur hópur fólks sem brennur fyrir því að auka velferð í samfélaginu okkar og treystir sér til að hlusta á íbúa og taka góðar ákvarðanir.

Þetta verður eitthvað!

Samtalið gerir Mosfellsbæ að betri bæ

Posted on by Hilmar T Guðmundsson

Fólk talar saman af ýmsum ástæðum. Við deilum upplýsingum til að gera okkur lífið auðveldara, eflum félagsleg tengsl okkar við aðra og samtalið gerir okkur kleyft að hafa áhrif á hvernig aðrir upplifa okkur.

Löngunin í að hafa samskipti er forrituð í okkur öll. Við getum bara ekki þagað endalaust. Við tölum um veðrið og hvað á að vera í matinn í kvöld en mest þó um það sem aðrir eru að tala um.

Samtöl okkar á milli tryggja að við skiljum hvort annað, við erum stödd á sömu plánetu. Við hefjum yfirleitt samræður til að efla félagsleg tengsl og einnig af einskærri forvitni. Þetta á líka við á netinu. Fólk uppfærir stöðu sína til að skapa tengsl, jafnvel þegar fólk er landfræðilega fjarlægt. Stöðuuppfærslur innihalda oft félagslegar ábendingar eða spurninga og fólk bregst oft við með því að “líka við” eða skrifa athugasemdir. Ekki vegna þess að því líkar við efnið heldur vegna þess að það vill senda frá sér einföld skilaboð til að ýta undir áhuga þinn á málefninu. Í mörgum tilfellum er svo samtalið sem kemur í kjölfar stöðuuppfærslu mun mikilvægara eða skemmtilegra en stöðuuppfærslan sjálf.

Þó að fólk tali saman til að gera líf sitt auðveldara, til að mynda félagsleg tengsl og til að hjálpa öðrum, eru flest samtöl okkar eins konar markaðssetning á okkur sjálfum. Við upphefjum okkur sjálf með því að segja frá persónulegri upplifun okkar eða jafnvel slúðra um hver sé að gera hvað með hverjum. Yfirleitt er aðeins örlítill hluti gagnrýni eða neikvæðni. Langflest þessara samtala eru jákvæð þar sem við erum alltaf að passa upp á okkar ímynd.

Sjálfsmynd okkar mótast stöðugt af samtölunum sem við eigum við aðra. Hvort sem þú vilt eða ekki er gildum okkar og skoðunum deilt áfram, út frá fyrri samtölum við fjölskyldu, vini og frá fólkinu sem þú hittir, jafnvel örstutt á förnum vegi eða þú rekst á á rafrænni götu.

Gerum Mosfellsbæ betri með því að tala saman. Heilsumst út á götu, köstum kveðju á aðra í heita pottinum, gefum jákvæða strauma á netmiðlum. Tökum þátt í samtalinu en virðum skoðanir annara og veljum að taka það samtal sem okkur líður best með. Geymum gargið og hávaðann innra með okkur á meðan við vinnum úr því og eyðum síðan orkunni sem myndast í eitthvað jákvætt.

Höfundur er í 9 sæti á framboðslista Framsóknar í Mosfellsbæ.

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 17. mars 2022