Category: Greinar

Með enga menn og engin vopn?

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

28. nóvember, 2024

Við í Framsókn verðum seint vænd um það að sitja með hendur í skauti. Í 108 ár hefur Framsókn unnið að velferð og framförum okkar allra, óþreytandi og óslítandi sama hvernig á okkur viðrar.
Stjórnarsamstarfið, síðasta misserið áður en Sjálfstæðisflokkurinn ákvað upp á sitt einsdæmi að sprengja ríkisstjórnina, var oft erfitt.
Við héldum þó ótrauð áfram að berjast fyrir okkar hjartans málum, að styrkja fjölskyldur, börnin okkar, heilsuna og öryggi fólks í lífi og starfi enda er sú barátta hryggjarstykkið í hugsjón Framsóknar og þar gefum við engan afslátt. Þetta er okkur mikilvægast.
Að því sögðu verður að segjast að undanfarnar vikur hafa verið okkur þungur róður, óánægja fólks á liðnu stjórnarsamstarfi og ítrekaðar atlögur að flokknum af hálfu stjórnarandstöðunnar þar sem sannleikurinn virðist með öllu virtur að vettugi er erfitt að kyngja og ómögulegt að berjast við í því fjaðrafoki sem á sér stað þessar vikurnar.


En hvað ætlum við að gera?
Við stöndum berskjölduð frammi fyrir alþjóð-
Hálfnakin en þó með þá óbilandi trú að okkar trausta bakland og skynsemi fólks sjái hvað það er sem raunverulega skiptir samfélagið máli.
Við erum eins og sagt er, með fáa menn og engin vopn, en einmitt á slíkum stundum afhjúpast úr hverju maður er gerður og þá skiptir liðsheildin öllu máli.

Framtíðin
Framsókn mun halda áfram að setja fjölskylduna í forgang, bæta lífsgæði okkar allra og hugsa um heildina og sérstaklega velferð þeirra sem minnst mega sín og þurfa á mestri hjálp að halda. Það er okkar leiðarljós. Allt annað kemur samhliða þeim vexti.
Góðar og skilvirkar samgöngur eru nauðsynlegar og skipta okkur miklu máli og okkur Mosfellinga sérstaklega, við þurfum einfaldar og skjótar aðgerðir sem eru vel framkvæmanlegar og fyrir því munum við berjast.
Við viljum frelsi í fæðingarorlofi, að fjölskyldur hafi val um það hvernig þær ráðstafa sínum rétti og afnema allar eyrnamerkingar á þeim ráðahag, að auki viljum við hækka launin og lengja samverutímann upp í 20 mánuði.
Þetta er vel gerlegt og við sem þjóð höfum efni á því að stórbæta kerfið því ávinningurinn er ekki alltaf mældur í krónum og aurum heldur því sem mikilvægast er, andleg heilsa og öryggi barnanna okkar.
Forvarnir skipta að sama skapi gríðarlega miklu máli, að andleg og líkamleg heilsa sé á oddinum í okkar daglega lífi, hvort sem er í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu, á vinnumarkaðinum eða í félags- og tómstundastarfi, að styrkja kerfisbundið okkar heilbrigði og fylgja því eftir um aldur og ævi er besta fjárfesting sem við gerum, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur fyrir allt samfélagið.
Við þurfum lægri skatta, aukna verðmætasköpun svo við höfum efni á þessu öllu saman og það er vel gerlegt og við treystum okkur best í það verkefni. Það bíða okkar verk eins og virkjanir, samgöngubætur, styrking löggæslu og það sem brýnast er, að bæta vinnuumhverfi kennaranna okkar og allra þeirra sem eru að hugsa um börnin okkar. Við getum þetta saman!

Ég segi meiri samvinna, meiri umhyggja,
meiri Framsókn.

Vala Garðarsdóttir
Mosfellingur og fornleifafræðingur 
Skipar 3. sæti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Menning í aðdraganda jóla

Posted on by Hrafnhildur Gísladóttir

28. nóvember, 2024

Í Mosfellsbæ er mikið um að vera í menningar- og listastarfi í kringum jólin.
Fyrst ber að nefna frábæran jóla-listamarkað í Listasal Mosfellsbæjar, þar sem yfir 50 listamenn sýna og selja list sína. Hugmyndin að þessari samsýningu kom frá íbúa bæjarins og var lögð fyrir menningar og lýðræðisnefnd sem samþykkti að í stað hefðbundinnar listasýningar í desember, yrði prófað að hafa samsýningu margra listamanna, eins konar listaverkajólamarkað.
Óhætt er að segja að vel hefur tekist til með fjölbreytni verka og hvetjum við alla Mosfellinga að gefa sér tíma til að kíkja á þennan markað sem stendur til 20. desember.

Um næstu helgi verða ljósin tendruð á jólatrénu okkar á Miðbæjartorgi með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. Hlégarðs­tún er prýtt jólaljósum, en hugmyndin um Jólagarð við Hlégarð var ein af þeim hugmyndum sem kosnar voru til framkvæmdar í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2021.

Fjölbreyttar uppákomur verða í garðinum á aðventunni og vel þess virði að brjóta upp skammdegið og heimsækja Hlégarðstúnið í aðdraganda jólanna. Einnig verður mikið um að vera í félagsheimilinu okkar, Hlégarði. Þar má nefna jólamarkað, listaskólinn heldur jólatónleika svo eitthvað sé nefnt og að sjálfsögðu mögnuð skötuveisla á Þorláksmessu.

Gaman hefur verið að fylgjast með og fá að taka þátt í að styðja við þær frábæru hugmyndir sem koma frá íbúum í að skapa það blómlega menningar- og listalíf sem er í bænum og hversu vel íbúar mæta og taka þátt í því sem er að gerast í Mosfellbæ. Öflugt menningarlíf gerir mannlífið í Mosó betra.

Hrafnhildur Gísladóttir, 
formaður menningar- og lýðræðisnefndar Mosfellsbæjar

Blönduhlíð formlega opnuð á Farsældartúni 

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

26. nóvember 2024

Í dag var tekið stórt skref að því að gera Farsældartún að þjónustukjarna fyrir börn og ungmenni þegar meðferðarheimilið Blönduhlíð var opnað. Meðferðarheimilið er á vegum Barna- og fjölskyldustofu og er ætlað ungmennum á aldrinum 13-18 ára sem glíma við hegðunar- og fíknivanda og verður viðbót við greiningar- og meðferðardeild Stuðla. Með tilkomu Blönduhlíðar verður hægt að aðgreina betur börn með mismunandi vanda og veita sérhæfðari þjónustu. Börn með þyngri vanda fá áfram greiningu og meðferð á meðferðardeild Stuðla en í Blönduhlíð verður opnara úrræði er finna má á Stuðlum og verður Blönduhlíð ætluð þeim börnum og ungmennum sem glíma við vægari vanda.

Blönduhlíð var formlega opnuð af Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, og Ólöfu Ástu Farestveit, forstjóra Barna- og fjölskyldustofu.

Farsældartún er ánægt með að geta lagt sitt af mörkum til þess að starf með börnum og ungmennum geti orðið markvissara og vonast til þess að starfið í Blönduhlíð verði farsælt.

Frétt á vef mennta- og barnamálaráðuneytisins: Stjórnarráðið | Blönduhlíð – Nýtt meðferðarheimili fyrir ungmenni opnað í Mosfellsbæ

Willum Þór – fyrir konur

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

Í tíð Willums Þórs Þórssonar sem heilbrigðisráðherra hefur hann unnið markvisst að kvenheilsumálum, sem hafa oft verið vanrækt í heilbrigðisumræðunni. Þrátt fyrir að kvenheilsa sé grundvallaratriði í lýðheilsu hafa þessi mál ekki fengið þá athygli sem þau eiga skilið. Willum hefur því lagt sig fram um að lyfta þessum málaflokki upp samhliða öðrum mikilvægum verkefnum. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið meðal kvenna og rannsóknir sýna að regluleg skimun getur lækkað dánartíðni vegna sjúkdómsins um 20%. Til að styðja betur við forvarnir lækkaði heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, gjald fyrir brjóstaskimun úr rúmlega 6.000 krónum í 500 krónur, sem er sami kostnaður og fyrir leghálsskimun hjá heilsugæslunni. Þessi breyting á að hvetja fleiri konur til þátttöku, en það er áhyggjuefni að þátttaka í skimunum hefur dregist saman, sérstaklega meðal yngri kvenna og innflytjenda.

Nýtt samkomulag um aðgerðir vegna endómetríósu

Willum Þór Þórsson stóð einnig fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands sömdu við Klíníkina um aðgerðir vegna endómetríósu. Hér er um að ræða mikilvægt skref sem hefur bætt líf fjölda kvenna og staðfestir á sama tíma alvarleika sjúkdómsins sem alltof lengi fékk litla sem enga athygli. Endómetríósa, oft kölluð endó, er krónískur og sársaukafullur sjúkdómur sem hrjáir konur og einstaklinga sem fæðast í kvenlíkama. Sjúkdómurinn veldur meðal annars bólgum og innvortis blæðingum og hefur margvísleg áhrif á daglegt líf. Samningurinn veitir þeim sem glíma við þennan þungbæra sjúkdóm aukið aðgengi að nauðsynlegri meðferð. Með þessu er staðfest að endómetríósa er ekki lengur bara „túrverkir“ sem hægt er að harka af sér, heldur alvarlegur sjúkdómur sem þarf að taka alvarlega.

Aukin greiðsluþátttaka í tæknifrjóvgun

Þá hefur Willum lagt til aukna greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgunar. Drög að nýrri reglugerð hafa verið birt í samráðsgátt þar sem gert er ráð fyrir föstum styrkjum í stað hlutfallsbundinnar greiðsluþátttöku. Samkvæmt nýju reglugerðinni munu einstaklingar fá 150.000 kr. í styrk fyrir fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferð og 400.000 kr. fyrir hverja meðferð frá annarri til fjórðu. Þetta er mikil breyting frá núverandi kerfi þar sem greiðsluþátttaka var 5% fyrir fyrstu meðferð og 65% fyrir meðferðir 2-4. Með þessu aukast styrkir fyrir fyrstu meðferð sexfalt og fyrir meðferðir 2-4 um tæpar 90.000 kr. fyrir hverja meðferð. Þessar breytingar gera kostnað við tæknifrjóvgun fyrirsjáanlegri og létta verulega á þeim einstaklingum sem þurfa þessa dýru meðferð. Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi 1. janúar 2025. Willum Þór Þórsson hefur sýnt og sannað að hann gengur í verkin og klárar þau. Við treystum honum til þess að leiða okkur áfram.

Tryggjum Willum á þing!

Heiðdís GeirsdóttirHalla Karen Kristjánsdóttir og Hjördís Guðný Guðmundsdóttirframbjóðendur Framsóknar í Kraganum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2024.

Framsókn til forsætis

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

Íslend­ing­ar! Nú þurf­um við að hugsa okk­ar ráð!

Hver verður nú for­sæt­is­ráðherra fari kosn­ing­arn­ar á versta veg? Hvaða ein­stak­ling­ur og flokk­ur er lík­leg­ur til að geta leitt hér þriggja flokka stjórn, svo ekki sé talað um fjög­urra flokka stjórn? Stillið nú upp for­mönn­um flokk­anna og spyrjið ykk­ur sjálf hver þeirra sé lík­leg­ast­ur.
Ég ef­ast ekki um að þar er Sig­urður Ingi Jó­hanns­son fremst­ur meðal jafn­ingja. Hann sýndi það vel 2016 þegar Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son varð að segja af sér, þá féll allt strax í ljúfa löð og þjóðin kunni að meta störf Sig­urðar Inga. Með hon­um sækja fram ráðherr­ar sem hver og einn hef­ur getið sér gott orð.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, vara­formaður flokks­ins, hef­ur farið fyr­ir mik­illi sókn í menn­ingu og list­um. Lilja hef­ur verið talsmaður ís­lenskr­ar tungu og komið henni inn í gervi­greind og gogg­ul. Lilja stóð í stafni í Seðlabank­an­um þegar þjóðinni var bjargað af gjaldþrots­barmi 2013- 2016.

Will­um Þór Þórs­son er óum­deild­ur einn öfl­ug­asti heil­brigðisráðherra þess­ar­ar ald­ar. Hvar sem ég fer fær hann hrós lækna og heil­brigðis­starfs­fólks sem lausnamiðaður og að hann hafi komið mörg­um mál­um í höfn í starfi sínu, og fólkið vill sjá hann áfram í starfi heil­brigðisráðherra.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason hef­ur reynst íþrótta­hreyf­ing­unni öfl­ug­ur ráðherra og tekið að sér viðkvæm­asta og mik­il­væg­asta mála­flokk­inn, blessuð börn­in, og ekki síst þau sem eiga við erfiðleika að búa.

Halla Hrund klíf­ur tinda

Halla Hrund Loga­dótt­ir er nýr stjórn­mála­maður og magnaður talsmaður hug­sjóna og gilda sem snerta við hverj­um þeim sem hlust­ar á boðskap henn­ar. Hún tal­ar fyr­ir auðlind­um Íslands af meiri virðingu en flest­ir aðrir. Hún vill ekki vind­myll­ur á ann­an hvern hól. Hún tal­ar um land­búnað og bænd­ur af þrótti og ósk­ar þess að lands­menn beri sömu virðingu fyr­ir afurðum land­búnaðar­ins, skyr­inu, lamb­inu, ull­ar­vör­un­um og græn­met­inu, og Frakk­ar gera fyr­ir sín­um vör­um. Hún tal­ar fyr­ir land­vernd, grænni orku og nýt­ingu auðlind­anna af skyn­semi. Marg­ir flokk­ar hafa valið sér fræg and­lit en við fram­sókn­ar­menn setj­um fram konu sem klíf­ur tinda.

Fram­sókn­ar­menn og friðflytj­end­ur! Nú skul­um við efla þann flokk sem oft­ast hef­ur reynst best þegar þjóðin hef­ur staðið á sundr­ung­ar­barmi. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn býður upp á lausn­ir í hús­næðismál­um unga fólks­ins, lækkaðan mat­ar­skatt, lægri vexti og að við kjós­um verðbólg­una burtu. Við vilj­um hvorki Trump­ista né sósíal­ískt þjóðfé­lag. Við vilj­um búa í sam­vinnu- og jafnaðarmanna­sam­fé­lagi þar sem at­vinna og at­vinnu­líf blómstr­ar. Send­um sund­ur­lynd­is­fjand­ann á fer­tugt dýpi og kjós­um með land­inu okk­ar og tæki­fær­un­um. Þegar öllu er á botn­inn hvolft er það Fram­sókn sem er besti kost­ur­inn.

Guðni Ágústssonfyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. nóvember 2024.

Fjárfestum í lýðheilsu – aðstaða fyrir alla

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

Mosfellsbær er landmikið sveitarfélag með nær óþrjótandi möguleikum á að njóta útivistar. Hér eru græn svæði frá fjöru til fjalla.
Áhersla fólks og áhugi á að það séu byggð upp útivistarsvæði og aðstaða til hreyfingar í nærumhverfi þess hefur líka aukist mikið með árunum. Það er orðinn sjálfsagður hlutur að flest íþrótta- og tómstundafélög eigi svæði, fasteignir og annað er tiheyrir þeirra sérsviði og samfélagsleg sátt virðist vera um að verja hluta af okkar sameiginlegu sjóðum í að byggja það upp.
Á síðasta ári fóru rúm 9% af skatttekjum Mosfellsbæjar til íþrótta- og æskulýðsmála en það eru um 1,7 milljarðar króna. Fyrir þetta fjármagn rekum við meðal annars sundlaugar og íþróttamannvirki, styrkjum íþrótta- og tómstundastarf og rekum félagsmiðstöð. Auk þess var varið um 260 milljónum til fjárfestinga í aðstöðu á árinu 2023 og áætlað er að fjárfesta fyrir um 990 milljónir á þessu ári í íþrótta- og tómstundamannvirkjum.

Breytingar kalla á samtal
Það er að mörgu að huga þegar svæði eru skipulögð og sér í lagi þegar breytingar eru gerðar. Þá þarf að huga að hagsmunum oft ólíkra hópa. Það er nú einmitt tilfellið í þeim hugmyndum sem uppi eru um að gera breytingar á Hlíðavelli.

Mosfellsbær hefur gert samkomulag við Golfklúbb Mosfellsbæjar um að stækka völlinn til að hægt sé að gera breytingar á honum. Breytingarnar ganga aðallega út á að snúa vellinum þannig að frekara öryggis sé gætt á göngu-, hjóla- og reiðstígum í kringum völlinn.
Samkomulagið er tilkomið vegna hættu sem hefur skapast við nýja byggð við Súluhöfða og nálægð húsa við völlinn. Öryggi þessara íbúa í og við sín heimili er lykilforsendan fyrir því að bæjarstjórn samþykkti einróma í desember að ráðast í þetta verkefni með Golfklúbbi Mosfellsbæjar.
Skipulagsmál eru í eðli sínu lýðræðislegasta ferli stjórnsýslunnar. Þegar skipulagið fyrir þetta svæði liggur fyrir þá munu hagaðilar eins og Hestamannafélagið Hörður og íbúar í nágrenninu fá tækifæri til að rýna það og koma með athugasemdir.
Það verður enginn afsláttur gefinn af því þrátt fyrir vilja bæjarstjórnar og Golfklúbbsins til að ráðast í þessar breytingar. Svona breytingar þýða þó alltaf málamiðlanir og að sætta ólík sjónarmið.

Nýtum strandlengjuna saman
Við þurfum að ganga um þessar auðlindir okkar sem felast í grænum svæðum, útsýni og ósnertri náttúru af virðingu og það verður ekki ráðist í framkvæmdir á nýjum svæðum nema að vel ígrunduðu máli og að teknu tilliti til allra sjónarmiða.
Í mörg ár hefur útivistarfólk, hvort sem það eru golfarar, hestamenn, gangandi, hlaupandi eða hjólandi, notið þess að nýta strandlengjuna saman sem útivistarparadís. Það þurfum við að gera áfram en það þarf auðvitað að vera í fyrirrúmi tillitssemi og aðgát hjá okkur öllum sem nýtum þetta svæði og sýna samstöðu svo allir geti notið þess.

Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs
Sævar Birgisson, varaformaður skipulagsnefndar

Uppbygging á Varmársvæði

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

Okkar kæra Varmársvæði hefur þjónað bæjarbúum og fleirum einstaklega vel í gegnum árin, flestir íbúar nýta sér þá frábæru aðstöðu sem þar er að finna á einn eða annan hátt.
Svæðið er sannarlega mikilvæg lífæð okkar samfélags. Íbúum er stöðugt að fjölga og iðkendum sem stunda íþróttir að Varmá einnig, það kallar því á áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu svo aðstaðan geti staðist nútíma kröfur.

Nýr aðalvöllur
Framkvæmdirnar á aðalvellinum að Varmá hafa eflaust ekki farið framhjá neinum, enda stórar vélar þar að störfum. Unnið er hörðum höndum að því að skipta um jarðveg á hinum sögufræga aðalvelli, í framhaldinu þarf að fergja áður en hægt verður að hefjast handa við að leggja á nýtt gervigras á knattspyrnuvöllinn.
Í næstu áföngum þar á eftir mun svo nýr frjálsíþróttavöllur líta dagsins ljós, við hlið knattspyrnuvallarins, með 200 metra hlaupabraut sem mun geta nýst öllum

bæjarbúum vel. Að auki verður jarðvegurinn undir framtíðar stúkubyggingu undirbúinn. Það er því verið að taka stór skref í átt að enn betri aðalvelli að Varmá.

Sparkvöllur við Varmárskóla
Á skólalóðinni við Varmárskóla er fyrsti hluti endurbóta á skólalóðinni hafinn sem felur í sér að koma upp nýjum upphituðum sparkvelli ásamt stálrimlagirðingu umhverfis völlinn, hellulögn og ljósastaurum.
Kallað var eftir hugmyndum frá nemendum Varmárskóla þegar hugmyndavinna við nýja skólalóð hófst og voru flestir sem óskuðu eftir sparkvelli.

Hjólabraut í Ævintýragarðinum
Í Ævintýragarðinum eru framkvæmdir hafnar við nýja fjallahjólabraut sem gert er ráð fyrir að verði tilbúin í júní. Brautin verður mikil lyftistöng fyrir hjólreiðafólk og kærkomin viðbót. Þá verður farið í að uppfæra frisbígolfvöllinn í sumar, færa til nokkrar brautir og leggja heilsárspalla.

Núverandi meirihluti hefur lagt mikið upp úr því að eiga gott samráð með hagsmunaaðilum við uppbyggingu á Varmársvæðinu, það er mikilvægt að vandað sé til verka og verkefnið unnið faglega, með hagsmuni allra að leiðarljósi.
Til að styðja við næstu skref sem þarf að taka við uppbyggingu Varmársvæðis var unnin skýrsla um þarfagreiningu þjónustu- og aðkomubyggingar að Varmá. Mun hún hjálpa til við að ná enn betur utan um framtíðarsýn fyrir svæðið og þá uppbyggingu mannvirkja sem framundan er.
Það eru því mörg spennandi verkefni í gangi og á döfinni á Varmársvæðinu sem munu vafalítið efla íþróttastarf í Mosfellsbæ enn frekar.

Erla Edvardsdóttir formaður íþrótta- og tómstundanefndar
Sævar Birgisson varaformaður íþrótta- og tómstundanefndar

Menningin blómstrar í Mosfellsbæ

Posted on by Hrafnhildur Gísladóttir

Það eru forréttindi að fá að taka þátt í að gera bæinn okkar blómlegri með menningarviðburðum.
Nú er mars, mánuður Menningar í Mosó, nýliðinn og það var nóg um að vera. Þar má nefna tónleika sem kvennakórarnir Stöllurnar úr Mosfellsbæ og Sóldís úr Skagafirði héldu saman í Hlégarði, en þar voru flutt lög Magnús­ar Ei­ríks­son­ar. Á degi Listaskólans var öllum velkomið að kíkja við þar sem ljúfir tónar hljómuðu úr öllum rýmum. Þvílíkir hæfileikar hjá unga tónlistarfólkinu okkar.
Í leikhúsinu okkar var einnig opið hús þar sem nú er verið að sýna Línu Langsokk. Enn og aftur toppar Leikfélag Mosfellssveitar sig með frábærri sýningu. Í Álafosskvosinni var myndlistakonan Ólöf með opið hús alla sunnudaga í mars, gaman var að heimsækja hana og Kvosina. Þetta eru bara nokkrir viðburðir af mörgum þetta árið og verður gaman að fylgjast með þessu verkefni þróast og stækka á næstu árum.

Menning auðgar mannlífið og gefur okkur tækifæri til að hittast og njóta saman. Það er mikilvægt að lyfta upp á yfirborðið því fjölbreytta menningarstarfi sem fram fer í Mosfellsbæ, gera mosfellska menningu sýnilega og aðgengilega og þar hefur mikilvægi Hlégarðs komið vel í ljós.

Hlégarður spilaði stórt hlutverk í Menningu í mars og var um margt að velja. Það er dásamlegt að fylgjast með hvernig félagsheimili okkar Mosfellinga hefur lifnað við og blómstrað undanfarin misseri.
Einn af þeim viðburðum sem hefur fengið hvað bestar viðtökur í dagskrá Menningar í mars eru sögukvöldin í Hlégarði. Í fyrra var fullt hús og í ár fylltist húsið á fimm mínútum af söguþyrstum Mosfellingum. Það eru margir sem koma að því að láta svona viðburð ganga upp og vil ég þakka öllum þeim fyrir sem lögðu hönd á plóg. Það er magnað hvað hægt er að gera þegar áhugasamt fólk tekur sig saman.

Að lokum vil ég segja frá því að nú er hafin vinna við nýtt verkefni þar sem kortlögð hafa verið rými í Mosfellsbæ þar sem hægt verður að halda litlar sýningar í óformlegum sýningarrýmum. Í framhaldinu verður bæjarbúum boðið upp á að sækja um að halda sýningar í hinum ýmsu rýmum eins og til dæmis Hlégarði, Kjarnanum og Lágafellslaug svo eitthvað sé nefnt.
Þetta verkefni var sett af stað til að gefa þeim sem eru að vinna að listsköpun í Mosfellsbæ fjölbreyttari tækifæri til að sýna verk sín. Þegar þeirri vinnu er lokið verður verkefnið kynnt nánar ásamt upplýsingum um hvar og hvernig skráningar beiðna um sýningarrými verða mótteknar og afgreiddar.

Hrafnhildur Gísladóttir
formaður menningar- og lýðræðisnefndar

Íbúakönnun vegna nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar að Varmá

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

Íþróttasvæðið okkar að Varmá er mjög dýrmætt og mikilvægt að um það gildi skýr framtíðarsýn.
Því var ákveðið að mynda stýrihóp sem hefði það hlutverk að endurskoða framtíðarsýnina fyrir svæðið, kortleggja íþróttasvæðið að Varmá með tilliti til skipulegra þátta og þarfagreiningar vegna uppbyggingar til næstu 15 ára með áherslu á að styrkja íþróttastarf, bæta útivistaraðstöðu nemenda í aðliggjandi skólum og almennt auka gæði svæðisins fyrir íbúa Mosfellsbæjar.
Þeir sem eru í stýrihópnum eru kjörnir fulltrúar, tveir frá meirihluta og einn frá minnihluta, embættismenn og fulltrúi Aftureldingar ásamt bæjarstjóra.
Fyrsta verkefni stýrihópsins er að vinna að þarfagreiningu fyrir nýja þjónustu- og aðkomubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá.
Nýrri byggingu er ætlað að verða miðpunktur íþróttamiðstöðvarinnar þar sem veitt er ýmiss konar þjónusta með fjölbreyttri aðstöðu fyrir iðkendur, starfsfólk, nemendur og gesti. Mikilvægur liður í þeirri vinnu er könnun meðal hagaðila og íbúa. Könnunin hefur þegar verið send á ýmsa hagaðila svo sem iðkendur og forsjáraðila, starfsfólk Mosfellsbæjar sem vinnur á eða tengt íþróttasvæðinu að Varmá, starfsfólk íþróttafélaganna, þjálfara og sjálfboðaliða. Könnunin er einnig opin öllum íbúum, því að sjálfsögðu viljum við heyra raddir sem flestra íbúa og hvetjum því öll til þátttöku í henni.

Könnunin er framkvæmd fyrir stýrihóp­inn um endurskoðun á framtíðarsýn
Verkefninu í heild er skipt upp í þrjá áfanga og má þar fyrst nefna fyrrnefnda endurskoðun á þarfagreiningu fyrir þjónustu- og aðkomubyggingu. Þá er það vinna við heildarskipulag Varmársvæðisins með hliðsjón af uppbyggingarþörf íþróttastarfs og annarri uppbyggingu. Að lokum er það framkvæmd kostnaðarmats valkosta með tilliti til uppbyggingar svæðisins og fjármögnunar íþróttamannvirkja.
Könnunin er hluti af fyrsta verkþætti verkefnisins sem er gert ráð fyrir að verði lokið í apríl næstkomandi, en tímalína verkefnisins í heild nær fram í september 2024.

Hvetjum öll til þátttöku
Könnunin sem er opin öllum á vef Mosfellsbæjar til og með 15. mars 2024 er nafnlaus og svör ekki rekjanleg til einstakra þátttakenda. Það er mikilvægt fyrir stýrihópinn að heyra raddir allra íbúa í tengslum við þessa greiningarvinnu og því hvetjum við öll til að taka þátt í könnuninni og vera hluti af því að móta framtíðarsýn fyrir íþróttasvæðið að Varmá.
Ég vil hrósa starfsfólkinu okkar hjá Mosfellsbæ sem heldur utan um þessa góðu og vönduðu vinnu sem jafnframt er unnin hratt og skipulega. Þetta er með skemmtilegri verkefnum sem ég hef komið nálægt og ég hlakka til að sjá niðurstöður könnunarinnar.
Ég hef miklar væntingar til þessarar vinnu og vil segja við þig: Mundu að þitt álit skiptir máli því þjónustu- og aðkomubygging skiptir fólk á öllum aldri máli þar sem flestir tengjast henni á einn eða annan hátt.

Halla Karen Kristjánsdóttir 
formaður bæjarráðs og formaður stýrihóps um uppbyggingu á Varmársvæðinu

Framtíðarsýn á íþrótta­svæðinu að Varmá

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

Að Varmá koma þúsundir Mosfellinga og gesta á ári hverju til að stunda ýmiss konar íþróttir. Því er mikilvægt að vanda til verka og vera með skýra framtíðarsýn þegar kemur að áframhaldandi uppbyggingu, þar sem aðstaðan er komin að þolmörkum.
Nýr meirihluti fékk verkefnalista frá fyrra kjörtímabili sem er skrifaður inn í skýrslu sem Efla gerði fyrir Mosfellsbæ og gefin var út í mars 2021. Þessi skýrsla er góður grunnur og hægt er að vera sammála flestu sem þar kemur fram. Hinsvegar hefur legið fyrir að vilji er til þess að endurskoða ákveðna þætti.
Sú endurskoðun snýr aðallega að þjónustubyggingu sem átti að ráðast í á árinu 2022. Verkefnið var boðið út vorið 2022 en engin tilboð fengust. Í málefnasamningi nýs meirihluta kom fram vilji til þess að endurskoða þjónustubygginguna. Það var mat okkar sem stöndum að þeim samningi að sú hönnun sem er til staðar og er upprunalega frá árinu 2008, með viðbótum, muni ekki þjóna íþróttastarfsemi bæjarins á þessu svæði þegar til framtíðar er litið.
Við þurfum að hugsa stærra og það er alveg ljóst að til að ráðast í slíka framkvæmd þurfa markmiðin að vera skýr.

Tíminn er vel nýttur
Vinna við að skoða möguleika á uppbyggingu að Varmá og framsetningu á framtíðarsýn svæðisins hófst strax sumarið 2022.
Til þess að láta verkefnið ekki líða fyrir áherslubreytingu meirihlutans, sem liggur aðallega í að endurskoða hönnun þjónustubyggingar, var ráðist í endurnýjun gervigrasvallar og sett upp vökvunarkerfi.
Einnig hefur verið sett fram gróf hönnun á endurnýjun aðalvallar og frjálsíþróttasvæðisins. Þegar sett er gervigras á knattspyrnuvöll breytir það möguleikum á samspili frjálsra íþrótta og knattspyrnu mikið. Af öryggisástæðum er ekki hægt að bjóða upp á æfingar frjálsra íþrótta samtímis leikjum á vellinum. Það er fyrirséð út frá miklum iðkendafjölda í knattspyrnu að mikil notkun verður á aðalvellinum. Lagðar hafa verið til í fjárhagsáætlun framkvæmdir við endurnýjun aðalvallar á árinu 2024 og í beinu framhaldi verður farið í frjálsíþróttasvæðið.

Samhugur í Mosfellingum
Við höfum mikinn skilning á metnaði þeirra fjölmörgu aðila sem halda úti íþróttastarfi að Varmá og við deilum honum. Við höfum líka mikinn skilning á þeirri óvissu sem getur skapast þegar nýir aðilar koma að málum.
Til að eyða allri óvissu þá viljum við taka skýrt fram að við erum sammála þeim verkefnum sem talin eru upp í áðurnefndri skýrslu Eflu. En við viljum tryggja að fjármagninu sé vel varið og að byggt verið af metnaði og til framtíðar. Það er ljóst að til að svo geti orðið þarf að breyta forgangsröðun verkefna. Við vonumst til að geta unnið að þessum málum í sátt við þá hagaðila sem starfa á svæðinu.
Settur verður saman hópur til að stilla upp endurskoðaðri framtíðarsýn fyrir svæðið sem tekur tillit til þeirrar vinnu sem þegar hefur verið unnin og bætir við hana. Enn fremur er hópnum ætlað að leita að og koma með tillögur að tekjuöflun fyrir uppbygginguna, þar sem það er ljóst að þjónustubygging til framtíðar verður dýrari en sú sem lagt var upp með í skýrslu Eflu.
En fyrir næstu þrjú árin hafa verið settir 2,5 milljarðar í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Þó að þetta sé mikið fjármagn, þá er fjárþörfin meiri og það er eitt af þeim mikilvægu verkefnum sem eru fram undan að afla tekna fyrir sveitarfélagið til að setja í aðstöðumál við Varmá. Við ætlum okkur stóra hluti og höfum metnað og vilja til að bæta íþróttasvæðið að Varmá fyrir alla bæjarbúa.

Halla Karen Kristjánsdóttir 
formaður bæjarráðs