Author: Aldís Stefánsdóttir og Halla Karen Kristjánsdóttir

Ég vil eldast í Mosfellsbæ

Posted on by Aldís Stefánsdóttir og Halla Karen Kristjánsdóttir

Flest viljum við lifa lengi en enginn vill verða gamall. Hvert aldursskeið hefur sinn sjarma og maður þarf stöðugt að minna sig á að njóta þess hlutverks sem maður hefur á
hverjum tíma. Það er jafnframt mikilvægt á öllum þessum aldurskeiðum að við finnum
að við höfum tilgang, finnum að það sé hlustað á okkur, að við skiptum máli og njótum
virðingar.
Þegar kemur að þjónustu hins opinbera við eldra fólk þá eru þarfirnar jafn ólíkar og á
öðrum aldursskeiðum. Við þurfum nefnilega að gæta þess að skilgreina fólk ekki
eingöngu út frá aldri. Þrátt fyrir að fólk sé komið á eftirlaunaaldur þá er fjölbreytni innan
þess hóps af ýmsum toga.
Sumir eru hraustir líkamlega en aðrir ekki, sumir eru mjög vel á sig komnir andlega en
aðrir síður. Sumir eru vel staddir fjárhagslega og aðrir ekki. Sumir eiga mikið bakland í
sínum fjölskyldum og maka en aðrir eru ekki svo lánsamir. Þessar lýsingar geta átt við
um fólk á öllum aldri. Þannig má færa rök fyrir því að aldur sé afstæður.

Aldursvænt samfélag

En hvað er það sem málið snýst um þegar kemur að þjónustu við eldra fólk? Jú þar er
af nægu að taka. Húsnæðismál, heilbrigðisþjónusta, félagslíf, aðstöðumál og kjaramál
svo tekin séu dæmi. Auk þess mætti nefna aðkomu eldra fólks að stjórnkerfinu og
ákvarðanatöku þar.
Framsókn leggur áherslu á að ráðist verði í allsherjar endurskipulagninu á þjónustu við
eldra fólk. Aukin samvinna innan kerfisins yrði leiðarljósið í þeirri vinnu. Afraksturinn þarf
að vera persónumiðuð og sveigjanleg þjónusta. Fólk fengi þannig þá þjónustu sem það
þarf en ekki bara þjónustu sem hentar kerfinu að veita. Innleiða þarf tæknilausnir sem
nú þegar eru til þannig að þjónustan sé skilvirk, hröð og aðgengileg.
Annað lykilatriði sem er nauðsynlegt að nefna í þessu sambandi og þeir þekkja sem að
málum hafa komið er samvinna ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að þjónustu við eldra
fólk. Samskipti um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustuíbúða í gegnum
óhagnaðardrifin leigufélög. Samskipti um heilbrigðisþjónustu sem þarf að veita inni á
heimilum og samskipti um kjör eldra fólks svo eitthvað sé nefnt. Það er mikilvægt að
sveitastjórnarfólk beiti sér stöðugt fyrir því að hægt sé að veita framúrskarandi
nærþjónustu og að þau hafi frumkvæði að uppbyggilegu samtali við ríkið í
málaflokknum.
Framsókn í Mosfellsbæ treystir sér til að vera leiðandi í þeirri kerfisbreytingu sem þarf
að eiga sér stað og lýst hefur verið stuttlega í þessari grein. Við treystum okkur til að hafa frumkvæði, setja okkur inn í málin og vinna ötullega að því að það verði gott að
eldast í Mosfellsbæ. Við treystum okkur til að eiga samstarf við hagsmunasamtök eldra
fólks til að raddir þeirra fái að heyrast og til að þau geti áfram haft áhrif á það hvernig
samfélagið okkar þróast. Við trúum því nefnilega að þjónusta við eldra fólk sé fjárfesting
í framtíðinni.

Ef þú vilt líka vera hreyfiafl í þínu samfélagi settu þá x við B í kosningunum 14. maí.

Halla Karen Kristjánsdóttir, 1. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ
Aldís Stefánsdóttir, 2. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 28. apríl 2022