Til baka í yfirlit
author Örvar Jóhannsson
calendar 28 April 2022

Ný Framsókn fyrir Mosfellsbæ

14. maí n.k. göngum við til kosninga og fáum tækifæri til að nýta mikilvægustu mannréttindi sem við höfum, réttinn til að velja sjálf það fólk sem kemur til með að stýra málefnum samfélagsins okkar til næstu 4 ára. Ég gaf kost á mér til að taka sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum og var treyst fyrir 4. sæti listans.
Ég er 38 ára, bý ásamt eiginkonu minni og 3 börnum í Helgafellshverfinu, þar höfum við búið síðan árið 2019.  Ég er fæddur og uppalinn á Seyðisfirði og bjó þar óslitið þar til við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ.  Okkur hefur hvergi liðið betur en einmitt hér.  Ég brenn fyrir það að hér búum við sem best að börnunum okkar, auk ýmissa annarra þátta sem ég og við í Framsókn munum kynna á næstu vikum.
Í nútíma sveitarfélögum verður ákall bæjarbúa og krafan um það að þjónustan sé veitt um leið og eftir henni er kallað sífellt háværari.  Stærsti þjónustuveitandi flestra einstaklinga er vafalítið, lögheimilissveitarfélag hvers og eins.  Það er því mikilvægt að til að mæta ákalli og kröfum bæjarbúa að sveitarfélagið sé stöðugt á tánum þegar kemur að nýtingu tæknilausna og þróunar í samskiptamiðlum við þá vinnu.
Í þessu sambandi tel ég mikilvægt að ávallt sé tryggt að vefsíða sveitarfélagsins sé góð og aðgengileg upplýsingaveita. Innra svæði vefsins fyrir íbúa, þ.e. „Mínar síður“, sé gagnvirkt svæði þar sem íbúar geta nálgast í rauntíma allar upplýsingar um þá þjónustu sem innskráður íbúi greiðir af til sveitarfélagsins. Ekki ósvipað því sem sjá má við kaup á lyfjum skv. lyfseðli, þar sem kemur fram annars vegar hlutur sjúklings af kostnaðinum og hins vegar hluti sjúkrasamlags.
Í ábendingakerfinu sem á vefnum er, fengist við innsendingu úthlutað málsnúmeri þar sem á hverjum tíma er hægt að nálgast upplýsingar um stöðu málsins í stjórnkerfinu, þ.e. ekki eingöngu stöðu eins og móttekið, í vinnslu, o.s.frv. heldur ítarlegri eftir atvikum, t.d. á borði hvaða nefndar, þjónustusviðs eða jafnvel ákveðins starfsmanns sveitarfélagsins málið er.
Ég tel mikilvægt að í þjónustu sveitarfélagsins við íbúa, sé stöðugt fylgst með tækniþróun til að þjónusta á hverjum tíma sé ávallt með því besta sem völ er á. Slíkri þróun fylgja vissulega alltaf einhver útgjöld, en líklegt er að til lengri tíma felist í raun sparnaður í því að endurnýja kerfin örar frekar en að vera stöðugt að greiða af og viðhalda eldri, oft á tíðum óskilvirkum kerfum, sem þrátt fyrir að hafa talist góð og gagnvirk á sínum tíma, eru einfaldlega börn síns tíma.
Ég er reiðubúinn til að leggja mitt af mörkum næstu fjögur árin til að gera okkar yndislega bæ enn betri. Ég er ávallt reiðubúinn að taka samtalið um hugmyndir og útfærslur úr öllum áttum og vinna að góðum málum sama frá hverjum þau koma.

Við á lista Framsóknar í Mosfellsbæ óskum eftir því að þú hugsir til okkar í kosningunum
þann 14. maí og setjir X við B á kjördag.

Örvar Jóhannsson,
skipar 4. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 28. apríl 2022


Fleiri fréttir

news thumbnail
author

Framsókn í Mosfellsbæ

calendar 8 Apríl 2023

Aðalfundur 2023

news thumbnail
news thumbnail
author

Rúnar Þór Guðbrandsson

calendar 13 Maí 2022

Raddir íbúa hafa áhrif