6. febrúar, 2025
Rétt fyrir sveitastjórnarkosningar 2022 var undirritaður samningur við landeiganda Blikastaðalands um uppbyggingu á svæðinu.
Á þessum þremur árum sem liðin eru hefur mikil vinna átt sér stað við hönnun og greiningu á umhverfisáhrifum sem byggðin mun hafa fyrir hverfið. Rík áhersla hefur verið lögð á þætti eins og skuggavarp, birtuskilyrði, hljóðvist og loftgæði ásamt umferðargreiningum. Nú stendur yfir kynning á deiliskipulagi 1. áfanga Blikastaðalands á vinnslustigi. Hægt er að senda inn athugasemdir til 10. febrúar.
Íbúðabyggð á milli fells og fjöru
Blikastaðaland er mjög fallegt og veðursælt land þar sem áhersla verður á að flétta saman náttúru og mannvænt bæjarhverfi. Íbúðabyggðin verður tengd með grænum geirum sem tengist vel göngu- og hjólreiðastígum. Hér eru mikil tækifæri til að byggja framsýnt hverfi sem hentar ungum sem öldnum og ýtir undir breytingar á samgönguvenjum og notkun virkra ferðamáta.
Breyttar samgönguvenjur
Það þarf að horfa til framtíðar, og ég veit að margir, eins og ég, hafa vanist því að fara nánast allt á bíl. Við sjáum ekki fyrir okkur að fjölskylda eigi bara einn bíl eða jafnvel engan. En staðreyndin er að við þurfum að hugsa öðruvísi ef við ætlum ekki að vera föst í bílaumferð alla daga. Bílum í umferðinni fjölgar að meðaltali um 70 í hverri viku og það þarf engan sérfræðing til að sjá að það verður fljótt ófremdarástand. Borgarlína mun ekki leysa allan vandann, en hún er hluti af lausninni.
Við þurfum að sporna gegn þeirri venju okkar að vera nánast alltaf ein á bíl. Þið getið ímyndað ykkur hvernig ástandið verður eftir 20 ár ef við höldum uppteknum hætti. Fyrir utan lýðheilsuleg áhrif! Unga fólkið hugsar margt hvert öðru vísi en við miðaldra fólkið. Það er t.d. ekki eins algengt og áður var að bílprófið og bíllinn væru komin í hús á 17 ára afmælisdaginn. Það er dýrt að kaupa og reka bíl og þau vita að það er ýmislegt annað hægt að gera við þá fjármuni.
Áætlað er að Borgarlína komi til okkar árið 2033, og samkvæmt samningum um uppbyggingu hennar er það forsenda að vera með þétta byggð íbúða og þjónustu í kringum hana. Blikastaðahverfið er einmitt skipulagt þannig að fólki er gert kleift að fara flestra sinna erinda gangandi eða hjólandi.
Ungt fólk og húsnæðisþarfir
Sumir upplifa tilhugsun um þéttari byggð á neikvæðan hátt en sannleikurinn er sá að til að uppfylla þörf samfélagsins fyrir íbúðir og fjölbreyttara húsnæði þá verðum við að nýta landið og innviðina betur en gert var áður fyrr. Þetta þýðir ekki sjálfkrafa að lífsgæði fólks verði minni.
Þegar vinnslutillagan er skoðuð sést að hugað er að þáttum eins og skuggavarpi og birtustigi íbúða. Fjölbýlishúsin brotin upp í mismunandi hæðir til þess að létta yfirbragðið. Þannig að það verði ekki eins og einhver múr. Framboð minni íbúða er allt of lítið hér í Mosfellsbæ og því miður staðreynd að margt ungt fólk hefur þurft að flytja héðan og í önnur bæjarfélög þvert á sínar vonir um að stofna heimili í sínum heimabæ.
Í Blikastaðahverfinu verður blönduð byggð þar sem fólk hefur val um að kaupa minni íbúðir í fjölbýli eða vera í sérbýli og íbúar hafa val um að nýta vistvæna ferðamáta og sækja verslun og þjónustu í nærumhverfinu. Það er auðvitað val líka að búa í eldri hverfunum þar sem er stærra húsnæði og lóðir. Eitt hentar ekki öllum og fólk þarf að hafa val.
Það er gott að búa í Mosfellsbæ og það verður áfram gott að búa í Mosfellsbæ.
Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi Framsóknar