Til baka í yfirlit
author Hilmar T Guðmundsson
calendar 22 March 2022

Samtalið gerir Mosfellsbæ að betri bæ

Fólk talar saman af ýmsum ástæðum. Við deilum upplýsingum til að gera okkur lífið auðveldara, eflum félagsleg tengsl okkar við aðra og samtalið gerir okkur kleyft að hafa áhrif á hvernig aðrir upplifa okkur.

Löngunin í að hafa samskipti er forrituð í okkur öll. Við getum bara ekki þagað endalaust. Við tölum um veðrið og hvað á að vera í matinn í kvöld en mest þó um það sem aðrir eru að tala um.

Samtöl okkar á milli tryggja að við skiljum hvort annað, við erum stödd á sömu plánetu. Við hefjum yfirleitt samræður til að efla félagsleg tengsl og einnig af einskærri forvitni. Þetta á líka við á netinu. Fólk uppfærir stöðu sína til að skapa tengsl, jafnvel þegar fólk er landfræðilega fjarlægt. Stöðuuppfærslur innihalda oft félagslegar ábendingar eða spurninga og fólk bregst oft við með því að “líka við” eða skrifa athugasemdir. Ekki vegna þess að því líkar við efnið heldur vegna þess að það vill senda frá sér einföld skilaboð til að ýta undir áhuga þinn á málefninu. Í mörgum tilfellum er svo samtalið sem kemur í kjölfar stöðuuppfærslu mun mikilvægara eða skemmtilegra en stöðuuppfærslan sjálf.

Þó að fólk tali saman til að gera líf sitt auðveldara, til að mynda félagsleg tengsl og til að hjálpa öðrum, eru flest samtöl okkar eins konar markaðssetning á okkur sjálfum. Við upphefjum okkur sjálf með því að segja frá persónulegri upplifun okkar eða jafnvel slúðra um hver sé að gera hvað með hverjum. Yfirleitt er aðeins örlítill hluti gagnrýni eða neikvæðni. Langflest þessara samtala eru jákvæð þar sem við erum alltaf að passa upp á okkar ímynd.

Sjálfsmynd okkar mótast stöðugt af samtölunum sem við eigum við aðra. Hvort sem þú vilt eða ekki er gildum okkar og skoðunum deilt áfram, út frá fyrri samtölum við fjölskyldu, vini og frá fólkinu sem þú hittir, jafnvel örstutt á förnum vegi eða þú rekst á á rafrænni götu.

Gerum Mosfellsbæ betri með því að tala saman. Heilsumst út á götu, köstum kveðju á aðra í heita pottinum, gefum jákvæða strauma á netmiðlum. Tökum þátt í samtalinu en virðum skoðanir annara og veljum að taka það samtal sem okkur líður best með. Geymum gargið og hávaðann innra með okkur á meðan við vinnum úr því og eyðum síðan orkunni sem myndast í eitthvað jákvætt.

Höfundur er í 9 sæti á framboðslista Framsóknar í Mosfellsbæ.

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 17. mars 2022


Fleiri fréttir

news thumbnail
author

Framsókn í Mosfellsbæ

calendar 8 Apríl 2023

Aðalfundur 2023

news thumbnail
news thumbnail
author

Rúnar Þór Guðbrandsson

calendar 13 Maí 2022

Raddir íbúa hafa áhrif