Til baka í yfirlit
author Halla Karen Kristjánsdóttir
calendar 7 March 2024

Íbúakönnun vegna nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar að Varmá

Íþróttasvæðið okkar að Varmá er mjög dýrmætt og mikilvægt að um það gildi skýr framtíðarsýn.
Því var ákveðið að mynda stýrihóp sem hefði það hlutverk að endurskoða framtíðarsýnina fyrir svæðið, kortleggja íþróttasvæðið að Varmá með tilliti til skipulegra þátta og þarfagreiningar vegna uppbyggingar til næstu 15 ára með áherslu á að styrkja íþróttastarf, bæta útivistaraðstöðu nemenda í aðliggjandi skólum og almennt auka gæði svæðisins fyrir íbúa Mosfellsbæjar.
Þeir sem eru í stýrihópnum eru kjörnir fulltrúar, tveir frá meirihluta og einn frá minnihluta, embættismenn og fulltrúi Aftureldingar ásamt bæjarstjóra.
Fyrsta verkefni stýrihópsins er að vinna að þarfagreiningu fyrir nýja þjónustu- og aðkomubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá.
Nýrri byggingu er ætlað að verða miðpunktur íþróttamiðstöðvarinnar þar sem veitt er ýmiss konar þjónusta með fjölbreyttri aðstöðu fyrir iðkendur, starfsfólk, nemendur og gesti. Mikilvægur liður í þeirri vinnu er könnun meðal hagaðila og íbúa. Könnunin hefur þegar verið send á ýmsa hagaðila svo sem iðkendur og forsjáraðila, starfsfólk Mosfellsbæjar sem vinnur á eða tengt íþróttasvæðinu að Varmá, starfsfólk íþróttafélaganna, þjálfara og sjálfboðaliða. Könnunin er einnig opin öllum íbúum, því að sjálfsögðu viljum við heyra raddir sem flestra íbúa og hvetjum því öll til þátttöku í henni.

Könnunin er framkvæmd fyrir stýrihóp­inn um endurskoðun á framtíðarsýn
Verkefninu í heild er skipt upp í þrjá áfanga og má þar fyrst nefna fyrrnefnda endurskoðun á þarfagreiningu fyrir þjónustu- og aðkomubyggingu. Þá er það vinna við heildarskipulag Varmársvæðisins með hliðsjón af uppbyggingarþörf íþróttastarfs og annarri uppbyggingu. Að lokum er það framkvæmd kostnaðarmats valkosta með tilliti til uppbyggingar svæðisins og fjármögnunar íþróttamannvirkja.
Könnunin er hluti af fyrsta verkþætti verkefnisins sem er gert ráð fyrir að verði lokið í apríl næstkomandi, en tímalína verkefnisins í heild nær fram í september 2024.

Hvetjum öll til þátttöku
Könnunin sem er opin öllum á vef Mosfellsbæjar til og með 15. mars 2024 er nafnlaus og svör ekki rekjanleg til einstakra þátttakenda. Það er mikilvægt fyrir stýrihópinn að heyra raddir allra íbúa í tengslum við þessa greiningarvinnu og því hvetjum við öll til að taka þátt í könnuninni og vera hluti af því að móta framtíðarsýn fyrir íþróttasvæðið að Varmá.
Ég vil hrósa starfsfólkinu okkar hjá Mosfellsbæ sem heldur utan um þessa góðu og vönduðu vinnu sem jafnframt er unnin hratt og skipulega. Þetta er með skemmtilegri verkefnum sem ég hef komið nálægt og ég hlakka til að sjá niðurstöður könnunarinnar.
Ég hef miklar væntingar til þessarar vinnu og vil segja við þig: Mundu að þitt álit skiptir máli því þjónustu- og aðkomubygging skiptir fólk á öllum aldri máli þar sem flestir tengjast henni á einn eða annan hátt.

Halla Karen Kristjánsdóttir 
formaður bæjarráðs og formaður stýrihóps um uppbyggingu á Varmársvæðinu


Fleiri fréttir

news thumbnail
author

Framsókn í Mosfellsbæ

calendar 10 Desember 2024

Íbúa­fund­ur um Far­sæld artún

news thumbnail
author

Framsókn í Mosfellsbæ

calendar 28 Nóvember 2024

Með enga menn og engin vopn?