Til baka í yfirlit
author Framsókn í Mosfellsbæ
calendar 28 November 2024

Með enga menn og engin vopn?

28. nóvember, 2024

Við í Framsókn verðum seint vænd um það að sitja með hendur í skauti. Í 108 ár hefur Framsókn unnið að velferð og framförum okkar allra, óþreytandi og óslítandi sama hvernig á okkur viðrar.
Stjórnarsamstarfið, síðasta misserið áður en Sjálfstæðisflokkurinn ákvað upp á sitt einsdæmi að sprengja ríkisstjórnina, var oft erfitt.
Við héldum þó ótrauð áfram að berjast fyrir okkar hjartans málum, að styrkja fjölskyldur, börnin okkar, heilsuna og öryggi fólks í lífi og starfi enda er sú barátta hryggjarstykkið í hugsjón Framsóknar og þar gefum við engan afslátt. Þetta er okkur mikilvægast.
Að því sögðu verður að segjast að undanfarnar vikur hafa verið okkur þungur róður, óánægja fólks á liðnu stjórnarsamstarfi og ítrekaðar atlögur að flokknum af hálfu stjórnarandstöðunnar þar sem sannleikurinn virðist með öllu virtur að vettugi er erfitt að kyngja og ómögulegt að berjast við í því fjaðrafoki sem á sér stað þessar vikurnar.


En hvað ætlum við að gera?
Við stöndum berskjölduð frammi fyrir alþjóð-
Hálfnakin en þó með þá óbilandi trú að okkar trausta bakland og skynsemi fólks sjái hvað það er sem raunverulega skiptir samfélagið máli.
Við erum eins og sagt er, með fáa menn og engin vopn, en einmitt á slíkum stundum afhjúpast úr hverju maður er gerður og þá skiptir liðsheildin öllu máli.

Framtíðin
Framsókn mun halda áfram að setja fjölskylduna í forgang, bæta lífsgæði okkar allra og hugsa um heildina og sérstaklega velferð þeirra sem minnst mega sín og þurfa á mestri hjálp að halda. Það er okkar leiðarljós. Allt annað kemur samhliða þeim vexti.
Góðar og skilvirkar samgöngur eru nauðsynlegar og skipta okkur miklu máli og okkur Mosfellinga sérstaklega, við þurfum einfaldar og skjótar aðgerðir sem eru vel framkvæmanlegar og fyrir því munum við berjast.
Við viljum frelsi í fæðingarorlofi, að fjölskyldur hafi val um það hvernig þær ráðstafa sínum rétti og afnema allar eyrnamerkingar á þeim ráðahag, að auki viljum við hækka launin og lengja samverutímann upp í 20 mánuði.
Þetta er vel gerlegt og við sem þjóð höfum efni á því að stórbæta kerfið því ávinningurinn er ekki alltaf mældur í krónum og aurum heldur því sem mikilvægast er, andleg heilsa og öryggi barnanna okkar.
Forvarnir skipta að sama skapi gríðarlega miklu máli, að andleg og líkamleg heilsa sé á oddinum í okkar daglega lífi, hvort sem er í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu, á vinnumarkaðinum eða í félags- og tómstundastarfi, að styrkja kerfisbundið okkar heilbrigði og fylgja því eftir um aldur og ævi er besta fjárfesting sem við gerum, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur fyrir allt samfélagið.
Við þurfum lægri skatta, aukna verðmætasköpun svo við höfum efni á þessu öllu saman og það er vel gerlegt og við treystum okkur best í það verkefni. Það bíða okkar verk eins og virkjanir, samgöngubætur, styrking löggæslu og það sem brýnast er, að bæta vinnuumhverfi kennaranna okkar og allra þeirra sem eru að hugsa um börnin okkar. Við getum þetta saman!

Ég segi meiri samvinna, meiri umhyggja,
meiri Framsókn.

Vala Garðarsdóttir
Mosfellingur og fornleifafræðingur 
Skipar 3. sæti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.


Fleiri fréttir

news thumbnail
author

Framsókn í Mosfellsbæ

calendar 10 Desember 2024

Íbúa­fund­ur um Far­sæld artún

news thumbnail
author

Framsókn í Mosfellsbæ

calendar 28 Nóvember 2024

Samningar byggja á samvinnu