Lög félagsins

I. KAFLI – Inngangur

1. gr.

Félagið heitir Framsóknarfélag Mosfellsbæjar.  Starfssvæði félagsins er Mosfellsbær og Kjósarhreppur  í Suðvesturkjördæmi.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að hafa umsjón með og frumkvæði að félagsstarfi framsóknarmanna á starfssvæði félagsins og vinna að því að hafa áhrif á málefni Mosfellsbæjar og Kjósarhrepps í samræmi við stefnuskrá Framsóknarflokksins.

3. gr.

Félagar í Framsóknarfélagi Mosfellsbæjar eru þeir félagsmenn í Framsóknarflokknum sem á starfssvæði félagsins eða hafa óskað sérstaklega eftir inngöngu í félagið.


II. KAFLI -Aðalfundur

4. gr.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum Framsóknarfélags Mosfellsbæjar.
Aðalfund skal halda árlega og eigi síðar en 15. maí.  Reikningsárið er almanaksárið

5. gr.

Boða skal til aðalfundar með 10 daga fyrirvara með auglýsingu, tölvupósti eða á annan óvéfengjanlegan hátt.  Í fundarboði skal getið dagskrár.  Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.  Seturétt á aðalfundi hafa með fullum atkvæðisrétti, allir þeir sem hafa skráð sig í félagið 2 vikum fyrir aðalfund samkvæmt félagatali á skrifstofu flokksins.

6. gr.

Á aðalfundi skal kjósa í eftirfarandi embætti úr hópi félagsmanna:

  • formann félagsins
  • tvo aðalmenn í stjórn og tvo til vara
  • tvo skoðunarmenn reikninga
  • fulltrúa félagsins á kjördæmisþing Suðvesturkjördæmis, en aðalfundur getur falið stjórn að ganga frá vali á fulltrúum félagsins á kjördæmisþing.

Á aðalfundi skal taka fyrir ársreikning síðasta reikningsárs, yfirfarinn af félagskjörnum skoðunarmönnum, einnig skal leggja fram skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár.

7. gr.

Að loknum aðalfundi skal stjórn félagsins senda Kjördæmissambandi framsóknarmanna í Suðvesturkjördæminu, KFSV, skýrslu um starf félagsins á liðnu starfsári og upplýsingar um skipun stjórnar þess.


III. KAFLI – Stjórn Félagsins.

8. gr.

Stjórn félagsins skipa formaður og tveir meðstjórnendur kosnir á aðalfundi.
Stjórn félagsins sér um daglega starfsemi félagsins og vinnur að framkvæmd þeirra samþykkta sem gerðar eru á fundum þess.

9. gr.

Á fyrsta fundi sínum skal stjórnin skipta með sér verkum og kjósa úr sínum röðum ritara og gjaldkera félagsins.


IV. KAFLI – Sveitarstjórnarkosningar.

10. gr.

Framsóknarfélag Mosfellsbæjar skal bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga í samvinnu við önnur framsóknarfélög á félagssvæðinu og/eða önnur félög/samtök sem félagið samþykkir að bjóða fram með.

11. gr.

Ákvarðanir um framboð til sveitarstjórnarkosninga, s.s. aðferð við val á frambjóðendum á lista flokksins og endanleg skipan framboðslistans, skal fara að reglum í 5. kafla laga Framsóknarflokksins, og leggja fyrir almennan félagsfund.


V. Kafli – Almenn Ákvæði.

12. gr.

Ef ekki er annað tekið fram í lögum þessum skal einfaldur meirihluti ráða ákvörðun innan félagsins.

13. gr.

Kjósa skal aðal- og varafulltrúa Framsóknarfélags Mosfellsbæjar á flokksþing Framsóknarflokksins á almennum félagsfundi eða aðalfundi.  Félagsfundur eða aðalfundur getur falið stjórn að ganga frá vali á fulltrúum félagsins á flokksþing.

14. gr.

Við val í trúnaðarstörf á vegum Framsóknarfélags Mosfellsbæjar, svo sem við kosningu stjórnarmanna, kosningu fulltrúa félagsins á kjördæmisþing og flokksþing og við skipan framboðslista til sveitarstjórnarkosninga skal hlutur hvors kyns ekki vera lægri en 40% nema þegar gagnsæjar og augljósar ástæður eru því til fyrirstöðu.

15. gr.

Tillögur að lagabreytingum skulu berast til stjórnar félagsins eigi síðar en 2 sólarhringum fyrir aðalfund.

16. gr.

Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi og þarf til þess 2/3 greiddra atkvæða.  Breytingar á lögum þessum öðlast ekki gildi fyrr en að fenginni staðfestingu stjórnar KFSV.

17. gr.

Lög þessi öðlast gildi þegar stjórn KFSV hefur staðfest þau skv. grein 3.4. í lögum Framsóknarflokksins.

 

Lög samþykkt á aðalfundi félagsins þann 17.08.2021