Til baka í yfirlit
author Sævar Birgisson
calendar 13 May 2022

Við viljum bara það besta fyrir börnin okkar

Fyrsta skólastig, eða leikskólar, er einhver mikilvægasta þjónusta sem sveitarfélög veita. Í Mosfellsbæ er heimilt að sækja um leikskólavist fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Gott og vel. Það sem er mikilvægast í umsóknarferlinu er að óvissu um hvenær og hvar barnið fái leikskólapláss sé eytt eftir fremsta megni.

Það er nógu stórt verkefni fyrir nýbakaða foreldra að sinna uppeldinu, án þess að þurfa að bæta öðrum áhyggjum ofan á það. Vissulega hafa verið ákveðnir vaxtarverkir í takti við vaxandi íbúafjölda í sveitarfélaginu og því krefjandi verkefni að mæta aukinni þörf í þessum málum. Ekki er hægt að verða við öllum óskum um tiltekinn skóla og getur fæðingarmánuður barns haft mikið að segja í þeim efnum. Aðalatriðið er að við veitum foreldrum hugarró. Við í Framsókn Mosfellsbæ viljum að þjónustan við börn sé veitt um leið og fæðingarorlofi foreldra lýkur, það þarf að sjá til þess að bilið sé brúað.
Það er gríðarlega krefjandi starf að vera starfsmaður á leikskóla og mikil ábyrgð sem felst í því að sjá um börnin okkar á þessum mest mótandi tíma á þeirra ævi. Við sem foreldrar gerum ríkar kröfur á leikskólastarfið, alveg eins og starfsfólkið gerir kröfur á okkur sem foreldra. Það þarf að sjá til þess að búið sé þannig um að við sem sveitarfélag séum einmitt að veita bestu þjónustu sem völ er á, framúrskarandi þjónustu. Hærra hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara er stór þáttur í því að efla góða þjónustu enn frekar. Sem dæmi má nefna að ófaglærðir starfsmenn leikskóla eru oft á tíðum einstaklingar sem vilja sækja sér menntunina en vantar hvatningu til að taka skrefið.
Við hjá Framsókn viljum beita okkur fyrir því að efla það mikilvæga starf sem unnið er í leikskólum sveitarfélagsins, meðal annars með því að mæta því frábæra fólki sem þar starfar og auðvelda því að sækja sér viðeigandi menntun til að styrkja stöðu sína. Eru fjölmargar leiðir færar í þeim efnum. Á sama tíma erum við að bæta þjónustuna og gera vinnustaðina enn eftirsóknarverðari.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur unnið mjög gott starf fyrir farsæld barna og fjölskyldna í landinu. Mikið framfaraskref var stigið þegar Alþingi samþykkti frumvarp til nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þau ganga út á að tryggja aukna samvinnu og samfellu í þjónustu við börn, eitthvað sem mikilvægt er að verði innleitt sem fyrst. Hér í Mosfellsbæ eigum við að vera framúrskarandi þegar kemur að málefnum barna, því við viljum bara það besta fyrir börnin okkar.

Setjum málefni barna í forgang og merkjum X við B á kjördag.
Höfundur er faðir tveggja barna á leikskólaaldri.

Sævar Birgisson
3. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ


Fleiri fréttir

news thumbnail
author

Framsókn í Mosfellsbæ

calendar 8 Apríl 2023

Aðalfundur 2023

news thumbnail
author

Rúnar Þór Guðbrandsson

calendar 13 Maí 2022

Raddir íbúa hafa áhrif

news thumbnail
author

Aldís Stefánsdóttir

calendar 13 Maí 2022

Vöndum vinnubrögðin við stækkun bæjarins