Author: Sævar Birgisson

Við viljum bara það besta fyrir börnin okkar

Posted on by Sævar Birgisson

Fyrsta skólastig, eða leikskólar, er einhver mikilvægasta þjónusta sem sveitarfélög veita. Í Mosfellsbæ er heimilt að sækja um leikskólavist fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Gott og vel. Það sem er mikilvægast í umsóknarferlinu er að óvissu um hvenær og hvar barnið fái leikskólapláss sé eytt eftir fremsta megni.

Það er nógu stórt verkefni fyrir nýbakaða foreldra að sinna uppeldinu, án þess að þurfa að bæta öðrum áhyggjum ofan á það. Vissulega hafa verið ákveðnir vaxtarverkir í takti við vaxandi íbúafjölda í sveitarfélaginu og því krefjandi verkefni að mæta aukinni þörf í þessum málum. Ekki er hægt að verða við öllum óskum um tiltekinn skóla og getur fæðingarmánuður barns haft mikið að segja í þeim efnum. Aðalatriðið er að við veitum foreldrum hugarró. Við í Framsókn Mosfellsbæ viljum að þjónustan við börn sé veitt um leið og fæðingarorlofi foreldra lýkur, það þarf að sjá til þess að bilið sé brúað.
Það er gríðarlega krefjandi starf að vera starfsmaður á leikskóla og mikil ábyrgð sem felst í því að sjá um börnin okkar á þessum mest mótandi tíma á þeirra ævi. Við sem foreldrar gerum ríkar kröfur á leikskólastarfið, alveg eins og starfsfólkið gerir kröfur á okkur sem foreldra. Það þarf að sjá til þess að búið sé þannig um að við sem sveitarfélag séum einmitt að veita bestu þjónustu sem völ er á, framúrskarandi þjónustu. Hærra hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara er stór þáttur í því að efla góða þjónustu enn frekar. Sem dæmi má nefna að ófaglærðir starfsmenn leikskóla eru oft á tíðum einstaklingar sem vilja sækja sér menntunina en vantar hvatningu til að taka skrefið.
Við hjá Framsókn viljum beita okkur fyrir því að efla það mikilvæga starf sem unnið er í leikskólum sveitarfélagsins, meðal annars með því að mæta því frábæra fólki sem þar starfar og auðvelda því að sækja sér viðeigandi menntun til að styrkja stöðu sína. Eru fjölmargar leiðir færar í þeim efnum. Á sama tíma erum við að bæta þjónustuna og gera vinnustaðina enn eftirsóknarverðari.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur unnið mjög gott starf fyrir farsæld barna og fjölskyldna í landinu. Mikið framfaraskref var stigið þegar Alþingi samþykkti frumvarp til nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þau ganga út á að tryggja aukna samvinnu og samfellu í þjónustu við börn, eitthvað sem mikilvægt er að verði innleitt sem fyrst. Hér í Mosfellsbæ eigum við að vera framúrskarandi þegar kemur að málefnum barna, því við viljum bara það besta fyrir börnin okkar.

Setjum málefni barna í forgang og merkjum X við B á kjördag.
Höfundur er faðir tveggja barna á leikskólaaldri.

Sævar Birgisson
3. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Tökum samtalið

Posted on by Sævar Birgisson

Sem íbúar í bæjarfélagi þá höfum við öll skoðanir á einhverjum málefnum er varða bæinn okkar. Hvort sem það tengist skipulaginu á nýjum stíg í hverfinu eða útdeilingu á leikskólaplássi fyrir barnið þitt. Ef þú sem íbúi hefur skoðun sem þú telur að geti komið að gagni þá skaltu láta í þér heyra. Eins frá sjónarhóli þess frábæra fólks sem starfa hjá sveitarfélaginu og sinna daglegri starfsemi í bænum okkar má gera ráð fyrir að þau hafi skoðanir á ýmsu sem hægt væri að gera betur. Það sama gildir um aðra hagsmunaaðila sem sjá tækifæri til úrbóta. Látið rödd ykkar heyrast.

Við viljum að á okkur sé hlustað og að við upplifum okkur sem mikilvæg. Við búum öll saman í bæjarfélaginu og viljum auðvitað að okkur og öðrum íbúum líði vel og allir þrífist eins og best verður á kosið. Við þurfum að eiga samskipti og stuðla að því að þau séu uppbyggileg og jákvæð og til þess fallin að gera bæinn okkar að enn betri stað til að búa á.

Þegar kemur að góðri stjórnun, samstarfi og samvinnu almennt eru markviss og uppbyggileg samskipti lykilatriði. Í sumum málum getur það beinlínis hamlað framþróun að hunsa eða leitast ekki eftir skoðunum hagsmunaaðila. það getur oft á tíðum fært mál í verri farveg og jafnvel sett þau aftur á byrjunarreit. Það er til að mynda ekki skynsamleg ákvörðun að leggja hjólastíg og reiðstíg hlið við hlið, það er ekkert sjálfsagt mál að allir sjái vandamálið við það en þeir sem stunda hestamennsku væru fljótir að benda á það væri ekki ákjósanlegt.

Bæjarfulltrúar starfa jú í umboði kjósenda, sem eru íbúar bæjarins. Þeim ber því skylda til að vinna ætíð með hagsmuni íbúa að leiðarjósi. Til þess að það geti gengið sem best þurfum við að vera dugleg að taka samtalið.

Sævar Birgisson
3. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 7. apríl 2022.