Til baka í yfirlit
author Erla Edvardsdóttir og Þorbjörg Sólbjartsdóttir
calendar 28 April 2022

Snemmtæk úrræði fyrir skólasamfélagið. Hvað er til ráða?

Á undanförnum árum hefur Mosfellsbær vaxið jafnt og þétt og í dag eru 5 grunnskólar og 9 leikskólar starfræktir í bæjarfélaginu. Sem starfandi kennarar hér í bæ höfum við fundið fyrir vaxandi þörf á sértækum úrræðum af ýmsum toga fyrir börn og ungmenni sem kljást við félagslega einangrun, einhverfu, ADHD taugaþroskaröskun, tengslavanda, þroskaskerðingu, sjálfsskaða, geðraskanir, áhættuhegðun, tölvufíkn og hegðunarvanda. Auk þess sárvantar móttökudeild fyrir nýbúa með annað móðurmál en íslensku, en þeim hefur farið fjölgandi í bæjarfélaginu.

Hugmyndafræðin „skóli án aðgreiningar“ er flott á blaði en hefur ekki verið fylgt inn í skólakerfið með því fjármagni og sérþekkingu sem þarf til. Allt of fá úrræði hafa verið í boði fyrir börn með mikinn vanda og biðin eftir því að komast að hjá sérfræðingum oft allt of löng. Við það skapast mikið álag, bæði innan skólakerfisins og inn á heimilunum. En hvað er til ráða?

Við í Framsókn teljum að með því að koma upp miðlægðri þjónustumiðstöð sem býður upp á margskonar úrræði, sniðnum að þörfum hvers og eins, megi draga verulega úr þessu álagi. Í slíkri þjónustumiðstöð væru starfandi sérfræðingar á sviðum sálfræði, talmeinafræði, atferlistfræði, uppeldisfræði, nýbúafræði og kennsluráðgjafar, svo eitthvað sé nefnt. Þessir sérfæðingar gætu nýst öllum börnum leik-og grunnskólanna, líka yfir sumartímann. Þessir sérfræðingar kæmu inn í skólana eftir þörfum hverju sinni, auk þess sem húsnæði þjónustumiðstöðvarinnar væri nýtt til kennslu og námskeiðahalds. Þjónustumiðstöðinni væri einnig ætlað að veita foreldrum upplýsingar og aðstoð hvað réttindi barna þeirra varðar.

Hið sögufræga hús, Brúarland, væri tilvalið fyrir slíka þjónustumiðstöð, en undanfarin ár hefur húsnæðið verið nýtt til skólahalds og nemendum og starfsfólki liðið afar vel þar.

Með því að byggja upp miðlæga þjónustumiðstöð í Brúarlandi tryggjum við skólakerfinu hér í bæ greiðan aðgang að sérfræðingum og stuðlum að snemmtækri íhlutun sem líta þarf á sem fjárfestingu í framtíðinni, bæði fyrir einstaklinginn, fjölskyldu hans og samfélagið. 

Erla Edvardsdóttir, grunnskólakennari, skipar 6. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ
Þorbjörg Sólbjartsdóttir, grunnskólakennari, skipar 8. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 28. apríl 2022


Fleiri fréttir

news thumbnail
author

Framsókn í Mosfellsbæ

calendar 8 Apríl 2023

Aðalfundur 2023

news thumbnail
news thumbnail
author

Rúnar Þór Guðbrandsson

calendar 13 Maí 2022

Raddir íbúa hafa áhrif