Tag: Mosfellsbær

Snemmtæk úrræði fyrir skólasamfélagið. Hvað er til ráða?

Posted on by Erla Edvardsdóttir og Þorbjörg Sólbjartsdóttir

Á undanförnum árum hefur Mosfellsbær vaxið jafnt og þétt og í dag eru 5 grunnskólar og 9 leikskólar starfræktir í bæjarfélaginu. Sem starfandi kennarar hér í bæ höfum við fundið fyrir vaxandi þörf á sértækum úrræðum af ýmsum toga fyrir börn og ungmenni sem kljást við félagslega einangrun, einhverfu, ADHD taugaþroskaröskun, tengslavanda, þroskaskerðingu, sjálfsskaða, geðraskanir, áhættuhegðun, tölvufíkn og hegðunarvanda. Auk þess sárvantar móttökudeild fyrir nýbúa með annað móðurmál en íslensku, en þeim hefur farið fjölgandi í bæjarfélaginu.

Hugmyndafræðin „skóli án aðgreiningar“ er flott á blaði en hefur ekki verið fylgt inn í skólakerfið með því fjármagni og sérþekkingu sem þarf til. Allt of fá úrræði hafa verið í boði fyrir börn með mikinn vanda og biðin eftir því að komast að hjá sérfræðingum oft allt of löng. Við það skapast mikið álag, bæði innan skólakerfisins og inn á heimilunum. En hvað er til ráða?

Við í Framsókn teljum að með því að koma upp miðlægðri þjónustumiðstöð sem býður upp á margskonar úrræði, sniðnum að þörfum hvers og eins, megi draga verulega úr þessu álagi. Í slíkri þjónustumiðstöð væru starfandi sérfræðingar á sviðum sálfræði, talmeinafræði, atferlistfræði, uppeldisfræði, nýbúafræði og kennsluráðgjafar, svo eitthvað sé nefnt. Þessir sérfæðingar gætu nýst öllum börnum leik-og grunnskólanna, líka yfir sumartímann. Þessir sérfræðingar kæmu inn í skólana eftir þörfum hverju sinni, auk þess sem húsnæði þjónustumiðstöðvarinnar væri nýtt til kennslu og námskeiðahalds. Þjónustumiðstöðinni væri einnig ætlað að veita foreldrum upplýsingar og aðstoð hvað réttindi barna þeirra varðar.

Hið sögufræga hús, Brúarland, væri tilvalið fyrir slíka þjónustumiðstöð, en undanfarin ár hefur húsnæðið verið nýtt til skólahalds og nemendum og starfsfólki liðið afar vel þar.

Með því að byggja upp miðlæga þjónustumiðstöð í Brúarlandi tryggjum við skólakerfinu hér í bæ greiðan aðgang að sérfræðingum og stuðlum að snemmtækri íhlutun sem líta þarf á sem fjárfestingu í framtíðinni, bæði fyrir einstaklinginn, fjölskyldu hans og samfélagið. 

Erla Edvardsdóttir, grunnskólakennari, skipar 6. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ
Þorbjörg Sólbjartsdóttir, grunnskólakennari, skipar 8. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 28. apríl 2022

Ég vil eldast í Mosfellsbæ

Posted on by Aldís Stefánsdóttir og Halla Karen Kristjánsdóttir

Flest viljum við lifa lengi en enginn vill verða gamall. Hvert aldursskeið hefur sinn sjarma og maður þarf stöðugt að minna sig á að njóta þess hlutverks sem maður hefur á
hverjum tíma. Það er jafnframt mikilvægt á öllum þessum aldurskeiðum að við finnum
að við höfum tilgang, finnum að það sé hlustað á okkur, að við skiptum máli og njótum
virðingar.
Þegar kemur að þjónustu hins opinbera við eldra fólk þá eru þarfirnar jafn ólíkar og á
öðrum aldursskeiðum. Við þurfum nefnilega að gæta þess að skilgreina fólk ekki
eingöngu út frá aldri. Þrátt fyrir að fólk sé komið á eftirlaunaaldur þá er fjölbreytni innan
þess hóps af ýmsum toga.
Sumir eru hraustir líkamlega en aðrir ekki, sumir eru mjög vel á sig komnir andlega en
aðrir síður. Sumir eru vel staddir fjárhagslega og aðrir ekki. Sumir eiga mikið bakland í
sínum fjölskyldum og maka en aðrir eru ekki svo lánsamir. Þessar lýsingar geta átt við
um fólk á öllum aldri. Þannig má færa rök fyrir því að aldur sé afstæður.

Aldursvænt samfélag

En hvað er það sem málið snýst um þegar kemur að þjónustu við eldra fólk? Jú þar er
af nægu að taka. Húsnæðismál, heilbrigðisþjónusta, félagslíf, aðstöðumál og kjaramál
svo tekin séu dæmi. Auk þess mætti nefna aðkomu eldra fólks að stjórnkerfinu og
ákvarðanatöku þar.
Framsókn leggur áherslu á að ráðist verði í allsherjar endurskipulagninu á þjónustu við
eldra fólk. Aukin samvinna innan kerfisins yrði leiðarljósið í þeirri vinnu. Afraksturinn þarf
að vera persónumiðuð og sveigjanleg þjónusta. Fólk fengi þannig þá þjónustu sem það
þarf en ekki bara þjónustu sem hentar kerfinu að veita. Innleiða þarf tæknilausnir sem
nú þegar eru til þannig að þjónustan sé skilvirk, hröð og aðgengileg.
Annað lykilatriði sem er nauðsynlegt að nefna í þessu sambandi og þeir þekkja sem að
málum hafa komið er samvinna ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að þjónustu við eldra
fólk. Samskipti um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustuíbúða í gegnum
óhagnaðardrifin leigufélög. Samskipti um heilbrigðisþjónustu sem þarf að veita inni á
heimilum og samskipti um kjör eldra fólks svo eitthvað sé nefnt. Það er mikilvægt að
sveitastjórnarfólk beiti sér stöðugt fyrir því að hægt sé að veita framúrskarandi
nærþjónustu og að þau hafi frumkvæði að uppbyggilegu samtali við ríkið í
málaflokknum.
Framsókn í Mosfellsbæ treystir sér til að vera leiðandi í þeirri kerfisbreytingu sem þarf
að eiga sér stað og lýst hefur verið stuttlega í þessari grein. Við treystum okkur til að hafa frumkvæði, setja okkur inn í málin og vinna ötullega að því að það verði gott að
eldast í Mosfellsbæ. Við treystum okkur til að eiga samstarf við hagsmunasamtök eldra
fólks til að raddir þeirra fái að heyrast og til að þau geti áfram haft áhrif á það hvernig
samfélagið okkar þróast. Við trúum því nefnilega að þjónusta við eldra fólk sé fjárfesting
í framtíðinni.

Ef þú vilt líka vera hreyfiafl í þínu samfélagi settu þá x við B í kosningunum 14. maí.

Halla Karen Kristjánsdóttir, 1. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ
Aldís Stefánsdóttir, 2. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 28. apríl 2022

Ný Framsókn fyrir Mosfellsbæ

Posted on by Örvar Jóhannsson

14. maí n.k. göngum við til kosninga og fáum tækifæri til að nýta mikilvægustu mannréttindi sem við höfum, réttinn til að velja sjálf það fólk sem kemur til með að stýra málefnum samfélagsins okkar til næstu 4 ára. Ég gaf kost á mér til að taka sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum og var treyst fyrir 4. sæti listans.
Ég er 38 ára, bý ásamt eiginkonu minni og 3 börnum í Helgafellshverfinu, þar höfum við búið síðan árið 2019.  Ég er fæddur og uppalinn á Seyðisfirði og bjó þar óslitið þar til við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ.  Okkur hefur hvergi liðið betur en einmitt hér.  Ég brenn fyrir það að hér búum við sem best að börnunum okkar, auk ýmissa annarra þátta sem ég og við í Framsókn munum kynna á næstu vikum.
Í nútíma sveitarfélögum verður ákall bæjarbúa og krafan um það að þjónustan sé veitt um leið og eftir henni er kallað sífellt háværari.  Stærsti þjónustuveitandi flestra einstaklinga er vafalítið, lögheimilissveitarfélag hvers og eins.  Það er því mikilvægt að til að mæta ákalli og kröfum bæjarbúa að sveitarfélagið sé stöðugt á tánum þegar kemur að nýtingu tæknilausna og þróunar í samskiptamiðlum við þá vinnu.
Í þessu sambandi tel ég mikilvægt að ávallt sé tryggt að vefsíða sveitarfélagsins sé góð og aðgengileg upplýsingaveita. Innra svæði vefsins fyrir íbúa, þ.e. „Mínar síður“, sé gagnvirkt svæði þar sem íbúar geta nálgast í rauntíma allar upplýsingar um þá þjónustu sem innskráður íbúi greiðir af til sveitarfélagsins. Ekki ósvipað því sem sjá má við kaup á lyfjum skv. lyfseðli, þar sem kemur fram annars vegar hlutur sjúklings af kostnaðinum og hins vegar hluti sjúkrasamlags.
Í ábendingakerfinu sem á vefnum er, fengist við innsendingu úthlutað málsnúmeri þar sem á hverjum tíma er hægt að nálgast upplýsingar um stöðu málsins í stjórnkerfinu, þ.e. ekki eingöngu stöðu eins og móttekið, í vinnslu, o.s.frv. heldur ítarlegri eftir atvikum, t.d. á borði hvaða nefndar, þjónustusviðs eða jafnvel ákveðins starfsmanns sveitarfélagsins málið er.
Ég tel mikilvægt að í þjónustu sveitarfélagsins við íbúa, sé stöðugt fylgst með tækniþróun til að þjónusta á hverjum tíma sé ávallt með því besta sem völ er á. Slíkri þróun fylgja vissulega alltaf einhver útgjöld, en líklegt er að til lengri tíma felist í raun sparnaður í því að endurnýja kerfin örar frekar en að vera stöðugt að greiða af og viðhalda eldri, oft á tíðum óskilvirkum kerfum, sem þrátt fyrir að hafa talist góð og gagnvirk á sínum tíma, eru einfaldlega börn síns tíma.
Ég er reiðubúinn til að leggja mitt af mörkum næstu fjögur árin til að gera okkar yndislega bæ enn betri. Ég er ávallt reiðubúinn að taka samtalið um hugmyndir og útfærslur úr öllum áttum og vinna að góðum málum sama frá hverjum þau koma.

Við á lista Framsóknar í Mosfellsbæ óskum eftir því að þú hugsir til okkar í kosningunum
þann 14. maí og setjir X við B á kjördag.

Örvar Jóhannsson,
skipar 4. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 28. apríl 2022

Hálfa leið eða alla leið ?

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

Mosfellsbær er Heilsueflandi samfélag og hefur verið leiðandi í þróun verkefnisins sem hefur verið innleitt víða um land.
Framsókn í Mosfellsbæ vill leggja áherslu á áframhaldandi forystu, innleiðingu og rekstur verkefnisins og þannig setja lýðheilsu í forgrunn við alla ákvarðanatöku á vegum bæjarins. Við viljum ekki láta staðar numið við fallegt plagg, heldur þarf að fylgja því eftir með fjármagni og aðgerðum. 
Íþrótta- og tómstundastarf hefur verið og  verður mál málanna næstu árin.
Af hverju ? Jú það eru allir orðnir sammála um hversu mikið gildi heilbrigt íþróttastarf og tómstundir eru. Í samfélagi þar sem er mikill hraði og áreiti verður sífellt mikilvægara að leita leiða til að spyrna gegn streitu, kvíða og vanlíðan með öflugu framboði af leiðum til hreyfingar og samveru.
Framsókn í Mosfellsbæ vill hugsa stórt. Við viljum búa til sameiginlega framtíðarsýn
og vinna markvisst að því að hún verði að veruleika.

Við höfum allt til þess að vera fyrirmyndar Heilsubærinn Mosfellsbær og það á að vera
eftirsóknarvert að vera hér bæði fyrir íbúa og gesti. Bærinn okkar á að vera í fremstu röð
þegar kemur að heilsueflingu fyrir alla.   
Mosfellsbær nýtur gríðarlegra forréttinda. Hér er ósnortin náttúra í bakgarðinum, fjöll, dalir, lækir og vötn. Ein af  perlum okkar er Varmársvæðið sem er allsherjar íþrótta og
útivistaparadís. En það er ekki nóg að vera með íþróttaaðstöðu það þarf að hlúa að henni og sinna viðhaldi. Þegar kemur að framkvæmdum þarf að hugsa stórt og uppbygging íþróttamannvirkja á að vera metnaðarfull og þannig úr garði gerð að hún svari þörfum starfseminnar sem þar fer fram til framtíðar. Þannig verður hagur allra bæjarbúa hafður í fyrirrúmi.

Hvað er það sem nærir þig?

Jú svörin eru væntanlega eins misjöfn og þau eru mörg.  Því það sem nærir þig, nærir ekkert endilega aðra. Það er eins með börnin okkar og okkur sjálf það hafa ekki allir áhuga á sömu íþróttagreininni eða bara að æfa íþróttir yfir höfuð. Sumir finna hjartað slá hjá Aftureldingu, aðrir brenna fyrir jaðaríþróttum enn aðrir velja að fara í tómstundir eins og t.d. skáta, vera í tónlistaskólanum eða í kórstarfi.
Framsókn í Mosfellsbæ vill að stofnað verði til samráðsvettvangs allra þeirra sem koma að hreyfingu og tómstundum hjá bæjarfélaginu. Vegna þess að það er mikilvægt að auka samtalið og samvinnuna. Þannig aukum við líkurnar á því að forsvarsmenn félaga verði frekar meðvitaðir um hvað er helst á dagskrá í bænum og geti hjálpast að við að efla kynningu á því góða starfi sem fer fram hér í bæjarfélaginu okkar.  Því öll erum við að vinna að sama markmiðinu sem er að efla einstaklinginn andlega, líkamlega og félagslega.

Öflug sókn í íþrótta og tómstundastarfi er besta forvörn sem við getum veitt börnunum
okkar. Við foreldrarnir sem og afar og ömmur megum samt ekki gleyma hlutverki okkar.  Við erum fyrirmyndir. Eins og málshátturinn segir:
„Það sem þú gerir hljómar svo hátt að það sem þú segir heyrist ekki“ 

Halla Karen Kristjánsdóttir,
íþróttakennari og oddviti Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 7. apríl 2022

Tökum samtalið

Posted on by Sævar Birgisson

Sem íbúar í bæjarfélagi þá höfum við öll skoðanir á einhverjum málefnum er varða bæinn okkar. Hvort sem það tengist skipulaginu á nýjum stíg í hverfinu eða útdeilingu á leikskólaplássi fyrir barnið þitt. Ef þú sem íbúi hefur skoðun sem þú telur að geti komið að gagni þá skaltu láta í þér heyra. Eins frá sjónarhóli þess frábæra fólks sem starfa hjá sveitarfélaginu og sinna daglegri starfsemi í bænum okkar má gera ráð fyrir að þau hafi skoðanir á ýmsu sem hægt væri að gera betur. Það sama gildir um aðra hagsmunaaðila sem sjá tækifæri til úrbóta. Látið rödd ykkar heyrast.

Við viljum að á okkur sé hlustað og að við upplifum okkur sem mikilvæg. Við búum öll saman í bæjarfélaginu og viljum auðvitað að okkur og öðrum íbúum líði vel og allir þrífist eins og best verður á kosið. Við þurfum að eiga samskipti og stuðla að því að þau séu uppbyggileg og jákvæð og til þess fallin að gera bæinn okkar að enn betri stað til að búa á.

Þegar kemur að góðri stjórnun, samstarfi og samvinnu almennt eru markviss og uppbyggileg samskipti lykilatriði. Í sumum málum getur það beinlínis hamlað framþróun að hunsa eða leitast ekki eftir skoðunum hagsmunaaðila. það getur oft á tíðum fært mál í verri farveg og jafnvel sett þau aftur á byrjunarreit. Það er til að mynda ekki skynsamleg ákvörðun að leggja hjólastíg og reiðstíg hlið við hlið, það er ekkert sjálfsagt mál að allir sjái vandamálið við það en þeir sem stunda hestamennsku væru fljótir að benda á það væri ekki ákjósanlegt.

Bæjarfulltrúar starfa jú í umboði kjósenda, sem eru íbúar bæjarins. Þeim ber því skylda til að vinna ætíð með hagsmuni íbúa að leiðarjósi. Til þess að það geti gengið sem best þurfum við að vera dugleg að taka samtalið.

Sævar Birgisson
3. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 7. apríl 2022.

Af því að það skiptir máli

Posted on by Aldís Stefánsdóttir

Tilvera okkar er full af áreiti og álitaefnum. Til dæmis hvort maður eigi að bjóða sig fram til setu í sveitarstjórn eða ekki.
Það eru ótrúlega margar ástæður fyrir því að gera það ekki. Trúið mér, ég er búin að fara yfir þær allar. En á endanum varð niðurstaðan sú að ég vil leggja mitt af mörkum. Mér finnst skipta máli hverjir stjórna og hvernig er stjórnað. Það er pláss við borðið fyrir fjölbreyttar skoðanir og það er mikilvægt að nýjar raddir fái að heyrast.

Við búum í samfélagi sem hefur alla burði til að geta þróast með kröfum nútímans og svarað kalli framtíðarinnar.
Þjónusta sveitarfélaga er gríðarlega mikilvæg og snertir hvert einasta heimili. Þegar þjónusta er þróuð, skipulögð og veitt, skiptir mestu máli að hlusta á þá sem þiggja hana og enn fremur þá sem veita hana. Ég tel að reynsla mín og þekking á starfsemi sveitarfélagsins geri mig að góðum hlustanda.

En það er ekki nóg að hlusta og hafa skoðanir. Það þarf líka að hafa reynslu og þekkingu til að greina aðalatriði frá aukaatriðum, kunna að afla sér upplýsinga og síðast en ekki síst að hafa nægilegan styrk til að geta tekið góðar ákvarðanir. Ég trúi því að áralöng reynsla í krefjandi verkefnum á vinnumarkaði geri mig hæfa til ákvarðanatöku.

Mosfellsbær hefur allt til að bera til að vera fyrirmyndar sveitarfélag. Það er mikilvægt að við leyfum okkur að hugsa stórt og hugsa lengra. Okkar bíða áskoranir við að byggja upp Mosfellsbæ framtíðarinnar.

Eftirköst heimsfaraldursins, móttaka og aðlögun innflytjenda, áhrif loftslagsbreytinga, breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, frekari uppbygging íbúðarhúsnæðis, fjölgun íbúa og efling innviða. Þetta eru áskoranir sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir, bæði til lengri og skemmri tíma. Það er af nægu að taka.

Ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum og hlakka mikið til að heyra hvað brennur á íbúum í bænum. En svona verkefni vinnur enginn einn. Það skiptir máli að vera í góðum hópi fólks og eiga góða að.
Framsókn í Mosfellsbæ er fjölbreyttur og hæfileikaríkur hópur fólks sem brennur fyrir því að auka velferð í samfélaginu okkar og treystir sér til að hlusta á íbúa og taka góðar ákvarðanir.

Þetta verður eitthvað!

Samtalið gerir Mosfellsbæ að betri bæ

Posted on by Hilmar T Guðmundsson

Fólk talar saman af ýmsum ástæðum. Við deilum upplýsingum til að gera okkur lífið auðveldara, eflum félagsleg tengsl okkar við aðra og samtalið gerir okkur kleyft að hafa áhrif á hvernig aðrir upplifa okkur.

Löngunin í að hafa samskipti er forrituð í okkur öll. Við getum bara ekki þagað endalaust. Við tölum um veðrið og hvað á að vera í matinn í kvöld en mest þó um það sem aðrir eru að tala um.

Samtöl okkar á milli tryggja að við skiljum hvort annað, við erum stödd á sömu plánetu. Við hefjum yfirleitt samræður til að efla félagsleg tengsl og einnig af einskærri forvitni. Þetta á líka við á netinu. Fólk uppfærir stöðu sína til að skapa tengsl, jafnvel þegar fólk er landfræðilega fjarlægt. Stöðuuppfærslur innihalda oft félagslegar ábendingar eða spurninga og fólk bregst oft við með því að “líka við” eða skrifa athugasemdir. Ekki vegna þess að því líkar við efnið heldur vegna þess að það vill senda frá sér einföld skilaboð til að ýta undir áhuga þinn á málefninu. Í mörgum tilfellum er svo samtalið sem kemur í kjölfar stöðuuppfærslu mun mikilvægara eða skemmtilegra en stöðuuppfærslan sjálf.

Þó að fólk tali saman til að gera líf sitt auðveldara, til að mynda félagsleg tengsl og til að hjálpa öðrum, eru flest samtöl okkar eins konar markaðssetning á okkur sjálfum. Við upphefjum okkur sjálf með því að segja frá persónulegri upplifun okkar eða jafnvel slúðra um hver sé að gera hvað með hverjum. Yfirleitt er aðeins örlítill hluti gagnrýni eða neikvæðni. Langflest þessara samtala eru jákvæð þar sem við erum alltaf að passa upp á okkar ímynd.

Sjálfsmynd okkar mótast stöðugt af samtölunum sem við eigum við aðra. Hvort sem þú vilt eða ekki er gildum okkar og skoðunum deilt áfram, út frá fyrri samtölum við fjölskyldu, vini og frá fólkinu sem þú hittir, jafnvel örstutt á förnum vegi eða þú rekst á á rafrænni götu.

Gerum Mosfellsbæ betri með því að tala saman. Heilsumst út á götu, köstum kveðju á aðra í heita pottinum, gefum jákvæða strauma á netmiðlum. Tökum þátt í samtalinu en virðum skoðanir annara og veljum að taka það samtal sem okkur líður best með. Geymum gargið og hávaðann innra með okkur á meðan við vinnum úr því og eyðum síðan orkunni sem myndast í eitthvað jákvætt.

Höfundur er í 9 sæti á framboðslista Framsóknar í Mosfellsbæ.

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 17. mars 2022