Author: Halla Karen Kristjánsdóttir

Willum Þór – fyrir konur

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

Í tíð Willums Þórs Þórssonar sem heilbrigðisráðherra hefur hann unnið markvisst að kvenheilsumálum, sem hafa oft verið vanrækt í heilbrigðisumræðunni. Þrátt fyrir að kvenheilsa sé grundvallaratriði í lýðheilsu hafa þessi mál ekki fengið þá athygli sem þau eiga skilið. Willum hefur því lagt sig fram um að lyfta þessum málaflokki upp samhliða öðrum mikilvægum verkefnum. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið meðal kvenna og rannsóknir sýna að regluleg skimun getur lækkað dánartíðni vegna sjúkdómsins um 20%. Til að styðja betur við forvarnir lækkaði heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, gjald fyrir brjóstaskimun úr rúmlega 6.000 krónum í 500 krónur, sem er sami kostnaður og fyrir leghálsskimun hjá heilsugæslunni. Þessi breyting á að hvetja fleiri konur til þátttöku, en það er áhyggjuefni að þátttaka í skimunum hefur dregist saman, sérstaklega meðal yngri kvenna og innflytjenda.

Nýtt samkomulag um aðgerðir vegna endómetríósu

Willum Þór Þórsson stóð einnig fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands sömdu við Klíníkina um aðgerðir vegna endómetríósu. Hér er um að ræða mikilvægt skref sem hefur bætt líf fjölda kvenna og staðfestir á sama tíma alvarleika sjúkdómsins sem alltof lengi fékk litla sem enga athygli. Endómetríósa, oft kölluð endó, er krónískur og sársaukafullur sjúkdómur sem hrjáir konur og einstaklinga sem fæðast í kvenlíkama. Sjúkdómurinn veldur meðal annars bólgum og innvortis blæðingum og hefur margvísleg áhrif á daglegt líf. Samningurinn veitir þeim sem glíma við þennan þungbæra sjúkdóm aukið aðgengi að nauðsynlegri meðferð. Með þessu er staðfest að endómetríósa er ekki lengur bara „túrverkir“ sem hægt er að harka af sér, heldur alvarlegur sjúkdómur sem þarf að taka alvarlega.

Aukin greiðsluþátttaka í tæknifrjóvgun

Þá hefur Willum lagt til aukna greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgunar. Drög að nýrri reglugerð hafa verið birt í samráðsgátt þar sem gert er ráð fyrir föstum styrkjum í stað hlutfallsbundinnar greiðsluþátttöku. Samkvæmt nýju reglugerðinni munu einstaklingar fá 150.000 kr. í styrk fyrir fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferð og 400.000 kr. fyrir hverja meðferð frá annarri til fjórðu. Þetta er mikil breyting frá núverandi kerfi þar sem greiðsluþátttaka var 5% fyrir fyrstu meðferð og 65% fyrir meðferðir 2-4. Með þessu aukast styrkir fyrir fyrstu meðferð sexfalt og fyrir meðferðir 2-4 um tæpar 90.000 kr. fyrir hverja meðferð. Þessar breytingar gera kostnað við tæknifrjóvgun fyrirsjáanlegri og létta verulega á þeim einstaklingum sem þurfa þessa dýru meðferð. Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi 1. janúar 2025. Willum Þór Þórsson hefur sýnt og sannað að hann gengur í verkin og klárar þau. Við treystum honum til þess að leiða okkur áfram.

Tryggjum Willum á þing!

Heiðdís GeirsdóttirHalla Karen Kristjánsdóttir og Hjördís Guðný Guðmundsdóttirframbjóðendur Framsóknar í Kraganum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2024.

Íbúakönnun vegna nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar að Varmá

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

Íþróttasvæðið okkar að Varmá er mjög dýrmætt og mikilvægt að um það gildi skýr framtíðarsýn.
Því var ákveðið að mynda stýrihóp sem hefði það hlutverk að endurskoða framtíðarsýnina fyrir svæðið, kortleggja íþróttasvæðið að Varmá með tilliti til skipulegra þátta og þarfagreiningar vegna uppbyggingar til næstu 15 ára með áherslu á að styrkja íþróttastarf, bæta útivistaraðstöðu nemenda í aðliggjandi skólum og almennt auka gæði svæðisins fyrir íbúa Mosfellsbæjar.
Þeir sem eru í stýrihópnum eru kjörnir fulltrúar, tveir frá meirihluta og einn frá minnihluta, embættismenn og fulltrúi Aftureldingar ásamt bæjarstjóra.
Fyrsta verkefni stýrihópsins er að vinna að þarfagreiningu fyrir nýja þjónustu- og aðkomubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá.
Nýrri byggingu er ætlað að verða miðpunktur íþróttamiðstöðvarinnar þar sem veitt er ýmiss konar þjónusta með fjölbreyttri aðstöðu fyrir iðkendur, starfsfólk, nemendur og gesti. Mikilvægur liður í þeirri vinnu er könnun meðal hagaðila og íbúa. Könnunin hefur þegar verið send á ýmsa hagaðila svo sem iðkendur og forsjáraðila, starfsfólk Mosfellsbæjar sem vinnur á eða tengt íþróttasvæðinu að Varmá, starfsfólk íþróttafélaganna, þjálfara og sjálfboðaliða. Könnunin er einnig opin öllum íbúum, því að sjálfsögðu viljum við heyra raddir sem flestra íbúa og hvetjum því öll til þátttöku í henni.

Könnunin er framkvæmd fyrir stýrihóp­inn um endurskoðun á framtíðarsýn
Verkefninu í heild er skipt upp í þrjá áfanga og má þar fyrst nefna fyrrnefnda endurskoðun á þarfagreiningu fyrir þjónustu- og aðkomubyggingu. Þá er það vinna við heildarskipulag Varmársvæðisins með hliðsjón af uppbyggingarþörf íþróttastarfs og annarri uppbyggingu. Að lokum er það framkvæmd kostnaðarmats valkosta með tilliti til uppbyggingar svæðisins og fjármögnunar íþróttamannvirkja.
Könnunin er hluti af fyrsta verkþætti verkefnisins sem er gert ráð fyrir að verði lokið í apríl næstkomandi, en tímalína verkefnisins í heild nær fram í september 2024.

Hvetjum öll til þátttöku
Könnunin sem er opin öllum á vef Mosfellsbæjar til og með 15. mars 2024 er nafnlaus og svör ekki rekjanleg til einstakra þátttakenda. Það er mikilvægt fyrir stýrihópinn að heyra raddir allra íbúa í tengslum við þessa greiningarvinnu og því hvetjum við öll til að taka þátt í könnuninni og vera hluti af því að móta framtíðarsýn fyrir íþróttasvæðið að Varmá.
Ég vil hrósa starfsfólkinu okkar hjá Mosfellsbæ sem heldur utan um þessa góðu og vönduðu vinnu sem jafnframt er unnin hratt og skipulega. Þetta er með skemmtilegri verkefnum sem ég hef komið nálægt og ég hlakka til að sjá niðurstöður könnunarinnar.
Ég hef miklar væntingar til þessarar vinnu og vil segja við þig: Mundu að þitt álit skiptir máli því þjónustu- og aðkomubygging skiptir fólk á öllum aldri máli þar sem flestir tengjast henni á einn eða annan hátt.

Halla Karen Kristjánsdóttir 
formaður bæjarráðs og formaður stýrihóps um uppbyggingu á Varmársvæðinu

Framtíðarsýn á íþrótta­svæðinu að Varmá

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

Að Varmá koma þúsundir Mosfellinga og gesta á ári hverju til að stunda ýmiss konar íþróttir. Því er mikilvægt að vanda til verka og vera með skýra framtíðarsýn þegar kemur að áframhaldandi uppbyggingu, þar sem aðstaðan er komin að þolmörkum.
Nýr meirihluti fékk verkefnalista frá fyrra kjörtímabili sem er skrifaður inn í skýrslu sem Efla gerði fyrir Mosfellsbæ og gefin var út í mars 2021. Þessi skýrsla er góður grunnur og hægt er að vera sammála flestu sem þar kemur fram. Hinsvegar hefur legið fyrir að vilji er til þess að endurskoða ákveðna þætti.
Sú endurskoðun snýr aðallega að þjónustubyggingu sem átti að ráðast í á árinu 2022. Verkefnið var boðið út vorið 2022 en engin tilboð fengust. Í málefnasamningi nýs meirihluta kom fram vilji til þess að endurskoða þjónustubygginguna. Það var mat okkar sem stöndum að þeim samningi að sú hönnun sem er til staðar og er upprunalega frá árinu 2008, með viðbótum, muni ekki þjóna íþróttastarfsemi bæjarins á þessu svæði þegar til framtíðar er litið.
Við þurfum að hugsa stærra og það er alveg ljóst að til að ráðast í slíka framkvæmd þurfa markmiðin að vera skýr.

Tíminn er vel nýttur
Vinna við að skoða möguleika á uppbyggingu að Varmá og framsetningu á framtíðarsýn svæðisins hófst strax sumarið 2022.
Til þess að láta verkefnið ekki líða fyrir áherslubreytingu meirihlutans, sem liggur aðallega í að endurskoða hönnun þjónustubyggingar, var ráðist í endurnýjun gervigrasvallar og sett upp vökvunarkerfi.
Einnig hefur verið sett fram gróf hönnun á endurnýjun aðalvallar og frjálsíþróttasvæðisins. Þegar sett er gervigras á knattspyrnuvöll breytir það möguleikum á samspili frjálsra íþrótta og knattspyrnu mikið. Af öryggisástæðum er ekki hægt að bjóða upp á æfingar frjálsra íþrótta samtímis leikjum á vellinum. Það er fyrirséð út frá miklum iðkendafjölda í knattspyrnu að mikil notkun verður á aðalvellinum. Lagðar hafa verið til í fjárhagsáætlun framkvæmdir við endurnýjun aðalvallar á árinu 2024 og í beinu framhaldi verður farið í frjálsíþróttasvæðið.

Samhugur í Mosfellingum
Við höfum mikinn skilning á metnaði þeirra fjölmörgu aðila sem halda úti íþróttastarfi að Varmá og við deilum honum. Við höfum líka mikinn skilning á þeirri óvissu sem getur skapast þegar nýir aðilar koma að málum.
Til að eyða allri óvissu þá viljum við taka skýrt fram að við erum sammála þeim verkefnum sem talin eru upp í áðurnefndri skýrslu Eflu. En við viljum tryggja að fjármagninu sé vel varið og að byggt verið af metnaði og til framtíðar. Það er ljóst að til að svo geti orðið þarf að breyta forgangsröðun verkefna. Við vonumst til að geta unnið að þessum málum í sátt við þá hagaðila sem starfa á svæðinu.
Settur verður saman hópur til að stilla upp endurskoðaðri framtíðarsýn fyrir svæðið sem tekur tillit til þeirrar vinnu sem þegar hefur verið unnin og bætir við hana. Enn fremur er hópnum ætlað að leita að og koma með tillögur að tekjuöflun fyrir uppbygginguna, þar sem það er ljóst að þjónustubygging til framtíðar verður dýrari en sú sem lagt var upp með í skýrslu Eflu.
En fyrir næstu þrjú árin hafa verið settir 2,5 milljarðar í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Þó að þetta sé mikið fjármagn, þá er fjárþörfin meiri og það er eitt af þeim mikilvægu verkefnum sem eru fram undan að afla tekna fyrir sveitarfélagið til að setja í aðstöðumál við Varmá. Við ætlum okkur stóra hluti og höfum metnað og vilja til að bæta íþróttasvæðið að Varmá fyrir alla bæjarbúa.

Halla Karen Kristjánsdóttir 
formaður bæjarráðs

Hálfa leið eða alla leið ?

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

Mosfellsbær er Heilsueflandi samfélag og hefur verið leiðandi í þróun verkefnisins sem hefur verið innleitt víða um land.
Framsókn í Mosfellsbæ vill leggja áherslu á áframhaldandi forystu, innleiðingu og rekstur verkefnisins og þannig setja lýðheilsu í forgrunn við alla ákvarðanatöku á vegum bæjarins. Við viljum ekki láta staðar numið við fallegt plagg, heldur þarf að fylgja því eftir með fjármagni og aðgerðum. 
Íþrótta- og tómstundastarf hefur verið og  verður mál málanna næstu árin.
Af hverju ? Jú það eru allir orðnir sammála um hversu mikið gildi heilbrigt íþróttastarf og tómstundir eru. Í samfélagi þar sem er mikill hraði og áreiti verður sífellt mikilvægara að leita leiða til að spyrna gegn streitu, kvíða og vanlíðan með öflugu framboði af leiðum til hreyfingar og samveru.
Framsókn í Mosfellsbæ vill hugsa stórt. Við viljum búa til sameiginlega framtíðarsýn
og vinna markvisst að því að hún verði að veruleika.

Við höfum allt til þess að vera fyrirmyndar Heilsubærinn Mosfellsbær og það á að vera
eftirsóknarvert að vera hér bæði fyrir íbúa og gesti. Bærinn okkar á að vera í fremstu röð
þegar kemur að heilsueflingu fyrir alla.   
Mosfellsbær nýtur gríðarlegra forréttinda. Hér er ósnortin náttúra í bakgarðinum, fjöll, dalir, lækir og vötn. Ein af  perlum okkar er Varmársvæðið sem er allsherjar íþrótta og
útivistaparadís. En það er ekki nóg að vera með íþróttaaðstöðu það þarf að hlúa að henni og sinna viðhaldi. Þegar kemur að framkvæmdum þarf að hugsa stórt og uppbygging íþróttamannvirkja á að vera metnaðarfull og þannig úr garði gerð að hún svari þörfum starfseminnar sem þar fer fram til framtíðar. Þannig verður hagur allra bæjarbúa hafður í fyrirrúmi.

Hvað er það sem nærir þig?

Jú svörin eru væntanlega eins misjöfn og þau eru mörg.  Því það sem nærir þig, nærir ekkert endilega aðra. Það er eins með börnin okkar og okkur sjálf það hafa ekki allir áhuga á sömu íþróttagreininni eða bara að æfa íþróttir yfir höfuð. Sumir finna hjartað slá hjá Aftureldingu, aðrir brenna fyrir jaðaríþróttum enn aðrir velja að fara í tómstundir eins og t.d. skáta, vera í tónlistaskólanum eða í kórstarfi.
Framsókn í Mosfellsbæ vill að stofnað verði til samráðsvettvangs allra þeirra sem koma að hreyfingu og tómstundum hjá bæjarfélaginu. Vegna þess að það er mikilvægt að auka samtalið og samvinnuna. Þannig aukum við líkurnar á því að forsvarsmenn félaga verði frekar meðvitaðir um hvað er helst á dagskrá í bænum og geti hjálpast að við að efla kynningu á því góða starfi sem fer fram hér í bæjarfélaginu okkar.  Því öll erum við að vinna að sama markmiðinu sem er að efla einstaklinginn andlega, líkamlega og félagslega.

Öflug sókn í íþrótta og tómstundastarfi er besta forvörn sem við getum veitt börnunum
okkar. Við foreldrarnir sem og afar og ömmur megum samt ekki gleyma hlutverki okkar.  Við erum fyrirmyndir. Eins og málshátturinn segir:
„Það sem þú gerir hljómar svo hátt að það sem þú segir heyrist ekki“ 

Halla Karen Kristjánsdóttir,
íþróttakennari og oddviti Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 7. apríl 2022