Category: Kosningar 2024

Með enga menn og engin vopn?

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

28. nóvember, 2024

Við í Framsókn verðum seint vænd um það að sitja með hendur í skauti. Í 108 ár hefur Framsókn unnið að velferð og framförum okkar allra, óþreytandi og óslítandi sama hvernig á okkur viðrar.
Stjórnarsamstarfið, síðasta misserið áður en Sjálfstæðisflokkurinn ákvað upp á sitt einsdæmi að sprengja ríkisstjórnina, var oft erfitt.
Við héldum þó ótrauð áfram að berjast fyrir okkar hjartans málum, að styrkja fjölskyldur, börnin okkar, heilsuna og öryggi fólks í lífi og starfi enda er sú barátta hryggjarstykkið í hugsjón Framsóknar og þar gefum við engan afslátt. Þetta er okkur mikilvægast.
Að því sögðu verður að segjast að undanfarnar vikur hafa verið okkur þungur róður, óánægja fólks á liðnu stjórnarsamstarfi og ítrekaðar atlögur að flokknum af hálfu stjórnarandstöðunnar þar sem sannleikurinn virðist með öllu virtur að vettugi er erfitt að kyngja og ómögulegt að berjast við í því fjaðrafoki sem á sér stað þessar vikurnar.


En hvað ætlum við að gera?
Við stöndum berskjölduð frammi fyrir alþjóð-
Hálfnakin en þó með þá óbilandi trú að okkar trausta bakland og skynsemi fólks sjái hvað það er sem raunverulega skiptir samfélagið máli.
Við erum eins og sagt er, með fáa menn og engin vopn, en einmitt á slíkum stundum afhjúpast úr hverju maður er gerður og þá skiptir liðsheildin öllu máli.

Framtíðin
Framsókn mun halda áfram að setja fjölskylduna í forgang, bæta lífsgæði okkar allra og hugsa um heildina og sérstaklega velferð þeirra sem minnst mega sín og þurfa á mestri hjálp að halda. Það er okkar leiðarljós. Allt annað kemur samhliða þeim vexti.
Góðar og skilvirkar samgöngur eru nauðsynlegar og skipta okkur miklu máli og okkur Mosfellinga sérstaklega, við þurfum einfaldar og skjótar aðgerðir sem eru vel framkvæmanlegar og fyrir því munum við berjast.
Við viljum frelsi í fæðingarorlofi, að fjölskyldur hafi val um það hvernig þær ráðstafa sínum rétti og afnema allar eyrnamerkingar á þeim ráðahag, að auki viljum við hækka launin og lengja samverutímann upp í 20 mánuði.
Þetta er vel gerlegt og við sem þjóð höfum efni á því að stórbæta kerfið því ávinningurinn er ekki alltaf mældur í krónum og aurum heldur því sem mikilvægast er, andleg heilsa og öryggi barnanna okkar.
Forvarnir skipta að sama skapi gríðarlega miklu máli, að andleg og líkamleg heilsa sé á oddinum í okkar daglega lífi, hvort sem er í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu, á vinnumarkaðinum eða í félags- og tómstundastarfi, að styrkja kerfisbundið okkar heilbrigði og fylgja því eftir um aldur og ævi er besta fjárfesting sem við gerum, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur fyrir allt samfélagið.
Við þurfum lægri skatta, aukna verðmætasköpun svo við höfum efni á þessu öllu saman og það er vel gerlegt og við treystum okkur best í það verkefni. Það bíða okkar verk eins og virkjanir, samgöngubætur, styrking löggæslu og það sem brýnast er, að bæta vinnuumhverfi kennaranna okkar og allra þeirra sem eru að hugsa um börnin okkar. Við getum þetta saman!

Ég segi meiri samvinna, meiri umhyggja,
meiri Framsókn.

Vala Garðarsdóttir
Mosfellingur og fornleifafræðingur 
Skipar 3. sæti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Samningar byggja á samvinnu

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

28. nóvember, 2024

Til þess að tryggja jafnt tímanlegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu er mikilvægt að semja um alla nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
Án samninga við stofnanir og fagfólk er hætta á að tekjulægri hópar neyðist til að neita sér um nauðsynlega þjónustu. Samningar gefa okkur jafnframt frekari tækifæri til að skipuleggja þjónustuna heildstætt, tryggja samfellu og stuðla að bættum gæðum og öryggi.

Samningar við sérfræðilækna
Búið er að semja við sérfræðilækna til fimm ára sem batt enda á langt samningsleysi með ofangreindum neikvæðum afleiðingum. Samningurinn tryggir aukna greiðsluþátttöku og sparar heimilunum um það bil 3 milljarða á ári. Samningnum er jafnframt ætlað að styðja við framþróun í þjónustu sérfræðilækna með sérstakri áherslu á nýsköpun, stafræna þróun og fjarheilbrigðisþjónustu til að gera hana aðgengilegri óháð búsetu.

Samið við sjúkraþjálfara
Í kjölfarið tókust samningar við sjúkraþjálfara til fimm ára sem einnig höfðu verið samningslausir í lengri tíma með framangreindu óhagræði. Með samningnum lækkaði kostnaður þeirra sem sækja sér þjónustuna og öll aukagjöld sem lögð höfðu verið á þjónustuþega felld niður.
Þjónusta sjúkraþjálfara er okkur mikilvæg og umfangsmikil en rúmlega 62.000 einstaklingar nýttu þjónustu sjúkraþjálfara í fyrra. Við þekkjum það hversu mikilvægu hlutverki sjúkraþjálfarar gegna á mjög víðtæku sviði endurhæfingar. Ljóst er að bætt aðgengi að þjónustu sjúkraþjálfara dregur úr álagi annars staðar í heilbrigðiskerfinu og hefur jákvæð áhrif á fjölda Íslendinga.

Samningur við tannlækna og tannréttingasérfræðinga
Það voru ánægjuleg tímamót þegar fyrsti heildarsamningur um tannlækningar var undirritaður. Samningurinn tryggir greiðsluþátttöku hjá tannlæknum fyrir börn, aldraða og öryrkja til næstu fimm ára en einnig fjölgaði meðferðum sem greiddar eru af Sjúkratryggingum.
Samhliða samning um tannlækningar þá var gerður tímamótasamningur um tannréttingar og þjónustu tannréttingasérfræðinga. Samningurinn er sá fyrsti sem gerður er um þjónustuna hér á landi og fól m.a. í sér nær þreföldun á styrk vegna almennra tannréttinga. Með samningnum hækkuðu styrkir til tannréttinga úr 150.000 kr í 430.000 kr. sem leiðir af sér aukið og jafnara aðgengi að þjónustunni, óháð efnahag.

Lýðheilsutengdar aðgerðir
Búið er að ljúka samningsgerð vegna lýðheilsutengdra aðgerða. Samningarnir gilda til áramóta en áfram er unnið að samningum til lengri tíma. Lýðheilsutengdar aðgerðir eru aðgerðir sem teljast ekki til bráðaaðgerða heldur eru valkvæðar þannig að hægt er að skipuleggja þær fram í tímann, s.s. liðskiptiaðgerðir á hné og mjöðm, kviðsjáraðgerðir vegna endómetríósu, bakaðgerðir vegna brjóskloss og þrenginga í mænugöngum og augasteinsaðgerðir.
Þessar aðgerðir eiga það sammerkt að geta komið einstaklingum aftur til heilsu og í samfélagslega virkni, og það er verðugt takmark í sjálfu sér. Það eru sameiginlegir hagsmunir samfélagsins, bæði efnahagslegir og félagslegir, að tryggja tímanlegt aðgengi að slíkri þjónustu sem veitt er á réttu þjónustustigi og styður við virkni einstaklingsins í samfélaginu.
Samhliða auknum afköstum og auknu aðgengi að þjónustunni innan íslenska heilbrigðiskerfisins hefur t.a.m. þeim sem leitað hafa út fyrir landsteinana í liðskiptaaðgerð, á grundvelli biðtímaákvæðis EES-samningsins um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, fækkað um rúmlega helming. Það er jákvæð þróun í samhengi við áherslur okkar í Framsókn um skilvirkni og hagkvæmni.

Þessir samningar skipta máli
Íslenska heilbrigðiskerfið byggir á félagslegum grunni þar sem jafnt aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag eða búsetu, er tryggt og um það ríkir samstaða í íslensku samfélagi. Það er og hefur verið stefna Framsóknar að lækka greiðsluþátttöku almennings vegna heilbrigðisþjónustu og tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi. Með samningum sköpum við faglega umgjörð um heilbrigðisþjónustu á sama tíma og við tryggjum jafnræði í aðgengi að henni.

Willum Þór Þórsson,
heilbrigðisráðherra og oddviti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi

Willum Þór – fyrir konur

Posted on by Halla Karen Kristjánsdóttir

Í tíð Willums Þórs Þórssonar sem heilbrigðisráðherra hefur hann unnið markvisst að kvenheilsumálum, sem hafa oft verið vanrækt í heilbrigðisumræðunni. Þrátt fyrir að kvenheilsa sé grundvallaratriði í lýðheilsu hafa þessi mál ekki fengið þá athygli sem þau eiga skilið. Willum hefur því lagt sig fram um að lyfta þessum málaflokki upp samhliða öðrum mikilvægum verkefnum. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið meðal kvenna og rannsóknir sýna að regluleg skimun getur lækkað dánartíðni vegna sjúkdómsins um 20%. Til að styðja betur við forvarnir lækkaði heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, gjald fyrir brjóstaskimun úr rúmlega 6.000 krónum í 500 krónur, sem er sami kostnaður og fyrir leghálsskimun hjá heilsugæslunni. Þessi breyting á að hvetja fleiri konur til þátttöku, en það er áhyggjuefni að þátttaka í skimunum hefur dregist saman, sérstaklega meðal yngri kvenna og innflytjenda.

Nýtt samkomulag um aðgerðir vegna endómetríósu

Willum Þór Þórsson stóð einnig fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands sömdu við Klíníkina um aðgerðir vegna endómetríósu. Hér er um að ræða mikilvægt skref sem hefur bætt líf fjölda kvenna og staðfestir á sama tíma alvarleika sjúkdómsins sem alltof lengi fékk litla sem enga athygli. Endómetríósa, oft kölluð endó, er krónískur og sársaukafullur sjúkdómur sem hrjáir konur og einstaklinga sem fæðast í kvenlíkama. Sjúkdómurinn veldur meðal annars bólgum og innvortis blæðingum og hefur margvísleg áhrif á daglegt líf. Samningurinn veitir þeim sem glíma við þennan þungbæra sjúkdóm aukið aðgengi að nauðsynlegri meðferð. Með þessu er staðfest að endómetríósa er ekki lengur bara „túrverkir“ sem hægt er að harka af sér, heldur alvarlegur sjúkdómur sem þarf að taka alvarlega.

Aukin greiðsluþátttaka í tæknifrjóvgun

Þá hefur Willum lagt til aukna greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgunar. Drög að nýrri reglugerð hafa verið birt í samráðsgátt þar sem gert er ráð fyrir föstum styrkjum í stað hlutfallsbundinnar greiðsluþátttöku. Samkvæmt nýju reglugerðinni munu einstaklingar fá 150.000 kr. í styrk fyrir fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferð og 400.000 kr. fyrir hverja meðferð frá annarri til fjórðu. Þetta er mikil breyting frá núverandi kerfi þar sem greiðsluþátttaka var 5% fyrir fyrstu meðferð og 65% fyrir meðferðir 2-4. Með þessu aukast styrkir fyrir fyrstu meðferð sexfalt og fyrir meðferðir 2-4 um tæpar 90.000 kr. fyrir hverja meðferð. Þessar breytingar gera kostnað við tæknifrjóvgun fyrirsjáanlegri og létta verulega á þeim einstaklingum sem þurfa þessa dýru meðferð. Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi 1. janúar 2025. Willum Þór Þórsson hefur sýnt og sannað að hann gengur í verkin og klárar þau. Við treystum honum til þess að leiða okkur áfram.

Tryggjum Willum á þing!

Heiðdís GeirsdóttirHalla Karen Kristjánsdóttir og Hjördís Guðný Guðmundsdóttirframbjóðendur Framsóknar í Kraganum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2024.

Framsókn til forsætis

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

Íslend­ing­ar! Nú þurf­um við að hugsa okk­ar ráð!

Hver verður nú for­sæt­is­ráðherra fari kosn­ing­arn­ar á versta veg? Hvaða ein­stak­ling­ur og flokk­ur er lík­leg­ur til að geta leitt hér þriggja flokka stjórn, svo ekki sé talað um fjög­urra flokka stjórn? Stillið nú upp for­mönn­um flokk­anna og spyrjið ykk­ur sjálf hver þeirra sé lík­leg­ast­ur.
Ég ef­ast ekki um að þar er Sig­urður Ingi Jó­hanns­son fremst­ur meðal jafn­ingja. Hann sýndi það vel 2016 þegar Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son varð að segja af sér, þá féll allt strax í ljúfa löð og þjóðin kunni að meta störf Sig­urðar Inga. Með hon­um sækja fram ráðherr­ar sem hver og einn hef­ur getið sér gott orð.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, vara­formaður flokks­ins, hef­ur farið fyr­ir mik­illi sókn í menn­ingu og list­um. Lilja hef­ur verið talsmaður ís­lenskr­ar tungu og komið henni inn í gervi­greind og gogg­ul. Lilja stóð í stafni í Seðlabank­an­um þegar þjóðinni var bjargað af gjaldþrots­barmi 2013- 2016.

Will­um Þór Þórs­son er óum­deild­ur einn öfl­ug­asti heil­brigðisráðherra þess­ar­ar ald­ar. Hvar sem ég fer fær hann hrós lækna og heil­brigðis­starfs­fólks sem lausnamiðaður og að hann hafi komið mörg­um mál­um í höfn í starfi sínu, og fólkið vill sjá hann áfram í starfi heil­brigðisráðherra.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason hef­ur reynst íþrótta­hreyf­ing­unni öfl­ug­ur ráðherra og tekið að sér viðkvæm­asta og mik­il­væg­asta mála­flokk­inn, blessuð börn­in, og ekki síst þau sem eiga við erfiðleika að búa.

Halla Hrund klíf­ur tinda

Halla Hrund Loga­dótt­ir er nýr stjórn­mála­maður og magnaður talsmaður hug­sjóna og gilda sem snerta við hverj­um þeim sem hlust­ar á boðskap henn­ar. Hún tal­ar fyr­ir auðlind­um Íslands af meiri virðingu en flest­ir aðrir. Hún vill ekki vind­myll­ur á ann­an hvern hól. Hún tal­ar um land­búnað og bænd­ur af þrótti og ósk­ar þess að lands­menn beri sömu virðingu fyr­ir afurðum land­búnaðar­ins, skyr­inu, lamb­inu, ull­ar­vör­un­um og græn­met­inu, og Frakk­ar gera fyr­ir sín­um vör­um. Hún tal­ar fyr­ir land­vernd, grænni orku og nýt­ingu auðlind­anna af skyn­semi. Marg­ir flokk­ar hafa valið sér fræg and­lit en við fram­sókn­ar­menn setj­um fram konu sem klíf­ur tinda.

Fram­sókn­ar­menn og friðflytj­end­ur! Nú skul­um við efla þann flokk sem oft­ast hef­ur reynst best þegar þjóðin hef­ur staðið á sundr­ung­ar­barmi. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn býður upp á lausn­ir í hús­næðismál­um unga fólks­ins, lækkaðan mat­ar­skatt, lægri vexti og að við kjós­um verðbólg­una burtu. Við vilj­um hvorki Trump­ista né sósíal­ískt þjóðfé­lag. Við vilj­um búa í sam­vinnu- og jafnaðarmanna­sam­fé­lagi þar sem at­vinna og at­vinnu­líf blómstr­ar. Send­um sund­ur­lynd­is­fjand­ann á fer­tugt dýpi og kjós­um með land­inu okk­ar og tæki­fær­un­um. Þegar öllu er á botn­inn hvolft er það Fram­sókn sem er besti kost­ur­inn.

Guðni Ágústssonfyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. nóvember 2024.

Kosning utan kjörfundar

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna alþingiskosninganna 30. nóvember er hafin. Upplýsingar um kosningarnar má finna á kosning.is.

Hægt er að kjósa utankjörfundar hjá sýslumönnum um land allt. 

Kjósendur sem staddir eru erlendis geta kosið á skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar hjá alþjóðastofnun, í sendiræðisskrifstofu eða á skrifstofu kjörræðismanns.

Utankjörfundarskrifstofa Framsóknar veitir nánari upplýsingar í síma 540 4300 eða á netfanginu framsokn@framsokn.is.

Hvert atkvæði skiptir okkur máli!

Listabókstafur Framsóknar er B

Nauðsynlegt er að hafa meðferðis skilríki með ljósmynd og framvísa á kjörstað.

Ef kosið er utan kjördæmis kjósanda, innanlands eða erlendis skulu kjósendur sjálfir annast og kosta sendingu atkvæðisbréfs síns. Atkvæði má koma með eða senda til:

Framsóknarflokkurinn
Bæjarlind 14-16
201 Kópavogi
ICELAND 

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar við embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu fer eingöngu fram í Holtagörðum á 1. hæð.

  • 7. nóvember – 17. nóvember kl. 10:00-18:00
  • 18. nóvember – 29. nóvember kl. 10:00-22:00

Á kjördag laugardaginn 30. nóvember verður opið frá kl. 10:00-17:00 fyrir kjósendur sem ekki geta sótt kjörfund.

Sýslumaðurinn á Vesturlandi

  • Akranesi – skrifstofu sýslumanns, Kirkjubraut 28, 2. hæð. Mánudaga til fimmtudaga kl. 9:00-15:00 og kl. 9:00-14:00 á föstudögum.
  • Borgarnesi – skrifstofu sýslumanns, Bjarnarbraut 2. Mánudaga til fimmtudaga kl. 9:00-15:00 og kl. 9:00-14:00 á föstudögum.
  • Búðardal – skrifstofu sýslumanns, Miðbraut 11. Þriðjudaga kl. 9:00-15:00 og fimmtudaga kl. 9:00-14:00.
  • Stykkishólmi – skrifstofu sýslumanns, Borgarbraut 2. Mánudaga til fimmtudaga kl. 9:00-15:00 og kl. 9:00-14:00 á föstudögum.
  • Snæfellsbæ – skrifstofu Snæfellsbæjar, Klettsbúð 4. Mánudaga til fimmtudaga kl. 9:00-12:00 og 13:00-15:30 og föstudaga kl. 9:00-12:00 og 13:00-15:00.

Frá 18. nóvember er einnig hægt að kjósa á neðangreindum stað:

  • Grundarfirði – skrifstofu Grundarfjarðarbæjar, Borgarbraut 16 alla virka daga kl. 10:00-14:00.

Sýslumaðurinn á Vestfjörðum

  • Aðalstræti 92, Patreksfirði, frá kl. 9:30-12:00 og 13:00-15:00 en til kl. 12:00 á föstudögum.
  • Hafnarstræti 1, Ísafirði, frá kl. 9:30-15:00 en til kl. 13.30 á föstudögum.
  • Hafnarbraut 25, Hólmavík, frá kl. 9:00-13:00 en til kl. 12:00 á föstudögum.

Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra

  • Blönduósi, aðalskrifstofu, Hnjúkabyggð 33, Blönduósi, virka daga, kl. 9:00-15:00.
  • Sauðárkróki, sýsluskrifstofu, Suðurgötu 1, Sauðárkróki, virka daga, kl. 9:00-15:00.

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra

  • Akureyri, Strandgötu 16 (Icewear við Oddeyrarskála), virka daga kl. 10.00-15.00.
  • Húsavík, Útgarði 1, mánudaga til fimmtudaga kl. 9.00-15.00 en föstudaga kl. 9.00-14.00.
  • Siglufjörður, Gránugötu 6, mánudaga til fimmtudaga kl. 9.00-15.00 en föstudaga kl. 9.00-14.00.
  • Þórshöfn, Fjarðarvegi 3, mánudaga til föstudaga kl. 10:00-14:00.
  • Dalvík, Ráðhúsinu, alla miðvikudaga kl. 10:00-12:00.

Sýslumaðurinn á Austurlandi

Hægt verður að greiða atkvæði utan kjörfundar á skrifstofum embættisins frá 7. nóvember sem hér segir:

  • Egilsstaðir, Lyngás 15, mánudaga til fimmtudaga kl. 9:00-15:00 en föstudaga kl. 9:00-14:00.
  • Eskifjörður, Strandgata 52, mánudaga til fimmtudaga kl. 9:00-15:00 en föstudaga kl. 9:00-14:00.
  • Seyðisfjörður, Bjólfsgata 7, mánudaga til fimmtudaga kl. 9:00-15:00 en föstudaga kl. 9:00-14:00.
  • Vopnafjörður, Lónabraut 2, mánudaga til fimmtudaga kl. 9:00-15:00 en föstudaga kl. 9:00-14:00.

Sýslumaðurinn á Suðurlandi

Hægt verður að greiða atkvæði utan kjörfundar hjá embætti sýslumannsins á Suðurlandi á opnunartíma sýsluskrifstofa, kl. 9:00-15:00.

Skrifstofur embættisins eru á eftirtöldum stöðum:

  • Hafnarbraut 36, Höfn í Hornafirði
  • Ránarbraut 1, Vík í Mýrdal
  • Austurvegi 6, Hvolsvelli
  • Hörðuvöllum 1, Selfossi

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum

Hægt verður að greiða atkvæði utan kjörfundar hjá embætti sýslumannsins í Vestmannaeyjum á opnunartíma skrifstofunnar að Heiðarvegi 15.

Afgreiðslutími er sem hér segir:

  • Mánudaga – fimmtudaga kl. 9:15-15:00.
  • Föstudaga kl. 9:15-14:00.

Sýslumaðurinn á Suðurnesjum

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna alþingiskosninga hefst á skrifstofu sýslumannsins á Suðurnesjum að Vatnsnesvegi 33, Reykjanesbæ þann 7. nóvember nk.

Unnt verður að greiða atkvæði alla virka daga frá kl. 8:30 til 19:00 og á laugardögum frá kl. 10:00 til 14:00.

Kosning utan kjörfundar erlendis

Kjósendur þurfa að hafa samband við sendiráð eða ræðismann í viðkomandi landi til að vita hvar og hvenær er hægt að kjósa. Sýna þarf skilríki, til dæmis ökuskírteini eða vegabréf, þegar kosið er.

Hér má finna lista af íslenskum sendiráðum og ræðismönnum.

Ef kjósandi er í vafa um hvar og hvernig eigi að kjósa erlendis er best að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í gegnum hjalp@utn.is eða í síma +354 5459900.

Hver er minn kjörstaður?

Ef einstaklingur er í vafa um hvert hann ætti að fara að kjósa eða hvort hann sé á kjörskrá þá mun Þjóðskrá Íslands opna síðu þar sem viðkomandi getur nálgast þær upplýsingar um sig HÉR.

Framsókn hvetur alla þá sem komast ekki að kjósa þann 30. nóvember til að nýta sinn kosningarrétt og taka þátt í utankjörfundaratkvæðagreiðslunni. Hægt er að hafa samband við Framsókn á framsokn@framsokn.is til að fá nánari upplýsingar.

Hvert atkvæði skiptir okkur máli!