Category: Fréttir
36. flokksþing Framsóknar
Dagana 19. og 20. mars s.l. fór fram 36. flokksþing Framsóknar á Grand Hótel í Reykjavík.
Þar voru miklir fagnaðarfundir, þegar eldri félagar hittust mörg hver í fyrsta sinn í raunheimi eftir langa bið vegna heimsfaraldurs og fjölmörg voru þarna í fyrsta skipti á flokksþingi.
Flokksþing Framsóknar fara að jafnaði fram annað hvert ár, en vegna Covid-19 faraldursins var síðast haldið flokksþing árið 2018, næsta reglulega þing stóð svo til að yrði árið 2020 en um það leyti sem til stóð að halda þingið það árið var skellt í lás með fyrstu samkomutakmörkunum vegna heimsfaraldurs, a.m.k. í tvígang þurfti aftur að fresta þinginu vegna breytinga á samkomutakmörkunum. En loks nú um helgina tókst að halda langþráð flokksþing.
Öflugt málefnastarf
Á þinginu fór venju samkvæmt fram öflugt og gott málefnastarf, þar sem fram fer endurskoðun og vinna við grunnstefnumál Framsóknar á landsvísu, úr þeirri vinnu varð svo til góður grunnur sem kemur til með að nýtast framboðum Framsóknar, um land allt, vel í málefnavinnunni sem nú er í fullum gangi fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fram munu fara laugardaginn 14. maí.
Framsókn í Mosfellsbæ lét ekki sitt eftir liggja og sendi nokkra fulltrúa á flokksþingið til þátttöku í málefnastarfinu.
Á laugardagskvöldinu fór fram kvöldverðarhóf þar sem enn betra færi gafst til að spjalla við aðra þingfulltrúa.
Á hófinu veitti Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, tvenn verðlaun, sem hefð hefur skapast fyrir að veita á flokksþingi. Jafnréttisverðlaun Framsóknar 2022, hlaut Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Bjartsýnisverðlaun Framsóknar 2022 féllu í skaut Ljóssins-Endurhæfingar fyrir krabbameinsgreinda, Sigurður Ingi sagði í stuttu máli frá starfi og tilgangi ljóssins, og minntist þá einnig Þórunnar Egilsdóttur, þingkonu Framsóknar sem féll frá á síðasta ári eftir baráttu við krabbamein, en hún bæði naut stuðnings Ljóssins eftir að hún greindist og starfaði einnig með Ljósinu.
Á sunnudeginum var svo þingstörfum framhaldið, þar sem afgreiddar voru tillögur málefnahópa frá deginum áður. Þá fór einnig fram kosning á forystu flokksins fram til næsta flokksþings.
Sigurður Ingi Jóhannsson var endurkjörinn formaður með 98,63% atkvæða, Lilja Dögg Alfreðsdóttir hlaut endurkjör í embætti varaformanns með 96,43% atkvæða. Jón Björn Hákonarson sem gegnt hafði embætti ritara flokksins frá árinu 2016 gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Ásmundur Einar Daðason tilkynnti fyrir þingið að hann gæfi kost á sér í embætti ritara og hlaut hann 95,59% atkvæða.
Þingfulltrúar gengu bjartsýn og endurnærð útí vorið að flokksþinginu loknu og ganga nú samstíga útí þá vinnu sem framundan er næstu vikur fram að sveitarstjórnarkosningum þann 14. maí, með öfluga yfirskrift flokksþingsins í farteskinu.
„NÝ FRAMSÓKN FYRIR LANDIÐ ALLT“
Previous
Next
Framboðslisti fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022
Á félagsfundi þriðjudaginn 22. febrúar var samþykkt tillaga að framboðslista Framsóknar í Mosfellsbæ, en uppstillingarnefnd hefur unnið að mótun listans frá því í nóvember.
Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttakennari skipar 1. sæti listans og Aldís Stefánsdóttir viðskiptafræðingur er í 2. sæti.
Áhersla lögð á samtal og samvinnu
„Við, sem skipum lista Framsóknar í Mosfellsbæ, erum hópur fólks sem gefur kost á sér til að taka þátt í að byggja upp samfélag þar sem lögð er áhersla á samtal og samvinnu,“ segir Halla Karen nýr oddviti Framsóknar.
„Þar sem áherslurnar eru skýrar en við getum rætt um leiðir að markmiðunum. Þar sem við missum aldrei sjónar á þeirri ánægju og gleði sem þarf að vera fylgifiskur þess að taka þátt í að byggja upp samfélag. Þar sem við berum virðingu hvert fyrir öðru og þeim sjónarmiðum sem uppi eru á hverjum tíma. Þar sem kjörnir fulltrúar bjóða fram þjónustu sína og styðja við þann mannauð sem fyrirfinnst bæði í stjórnkerfinu og í íbúum bæjarins.“
Fjölmargar áskoranir næstu ár
„Það er af mörgu að taka þegar kemur að áskorunum næstu ára í starfsemi Mosfellsbæjar.
Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni að íbúum hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Slíkri fjölgun fylgja áskoranir sem mikilvægt er að ræða.
Heimsfaraldurinn mun án efa skilja eftir sig verkefni sem mikilvægt er að fylgja eftir bæði hjá ungum íbúum og einnig hjá þeim sem eldri eru.
Mikill þrýstingur er á sveitarfélög að uppbygging haldi áfram. Það þýðir áframhaldandi vaxtaverki og innviðauppbyggingu í Mosfellsbæ. Áskoranir sem varða umhverfismál eru miklar og þar verða allir að leggja sitt af mörkum.“
Sameinumst um góðar ákvarðanir
„Við höfum tækifæri til að hafa áhrif á hvernig við viljum hafa Mosfellsbæ í framtíðinni með því að láta okkur málin varða og sameinast um að taka góðar ákvarðanir sem eru okkur sjálfum og samfélaginu okkar til framdráttar.
Við viljum hvetja öll þau sem hafa áhuga á að koma á fyrsta fundinn okkar, þar getið þið haft áhrif með því að koma með ábendingar eða vinna með okkur að stefnumótun listans og þeirri málefnavinnu sem fram undan er.
Fyrsti opni fundurinn verður á kosningaskrifstofu Framsóknar á 5. hæð í Kjarnanum laugardaginn 26. febrúar kl. 10:00-12:30.
Þín rödd er mikilvæg og þú skiptir máli fyrir bæjarfélagið. Það er okkur mikilvægt að eiga gott samráð og samvinnu við ykkur bæjarbúa og tryggja að raddir sem flestra heyrist.“
LISTI FRAMSÓKNAR 2022
1. Halla Karen Kristjánsdóttir Íþróttakennari
2. Aldís Stefánsdóttir Viðskiptafræðingur
3. Sævar Birgisson Viðskiptafræðingur
4. Örvar Jóhannsson Rafvirki
5. Leifur Ingi Eysteinsson Háskólanemi
6. Erla Edvardsdóttir Kennari
7. Hrafnhildur Gísladóttir Tómstunda‐ og félagsfræðingur, Verkefnastjóri
8. Þorbjörg Sólbjartsdóttir Kennari
9. Hilmar Tómas Guðmundsson Sjálfstætt starfandi
10. Rúnar Þór Guðbrandsson Framkvæmdastjóri
11. Sigríður Dóra Sigtryggsdóttir Hjúkrunarfræðingur
12. Birkir Már Árnason Söluráðgjafi
13. Grétar Strange Flugmaður
14. Ragnar Sverrisson Matreiðslumeistari og framkvæmdastjóri
15. Matthildur Þórðardóttir Kennari og stjórnmálafræðingur
16. Ísak Viktorsson Háskólanemi
17. Bjarni Ingimarsson Slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður
18. Hörður Hafberg Gunnlaugsson Húsasmíðameistari
19. Ævar H. Sigdórsson Vélstjóri
20. Ingibjörg Óskarsdóttir Hjúkrunarfræðingur
21. Níels Unnar Hauksson Verktaki
22. Eygló Harðardóttir Matreiðslunemi og fyrrverandi ráðherra
Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 24. febrúar 2022