Author: Aldís Stefánsdóttir

Hverjir munu búa á Blikastaðalandi?

Posted on by Aldís Stefánsdóttir

Aldís Stefánsdóttir skrifar 22. janúar 2025 21:00

Lögð hefur verið fram til kynningar deiliskipulagstillaga á vinnslustigi um uppbyggingu á Blikastaðalandi í Mosfellsbæ. Tillagan er líkt og kemur fram í yfirheiti hennar á vinnslustigi en þannig er gengið lengra en lög gera ráð fyrir í lýðræðslegu skipulagsferli. Tillagan kemur fram í kjölfar, og í samræmi við, uppbyggingarsamning sem gerður var milli Mosfellsbæjar og landeiganda Blikastaðalandsins í maí 2022. Til að setja hlutina aðeins í samhengi þá hefur umræða um uppbyggingu á Blikastaðalandi staðið yfir í áratugi. Þetta fallega svæði hefur farið á milli eigenda og oft skapað deilur vegna verðmætis. Rammaskipulag á Blikastöðum var lagt fram upphaflega fyrir 20 árum. En síðan hefur margt – ef ekki flest – breyst.

Uppbygging á Blikastaðalandi er mikilvægur hluti af íbúðaframboði á höfðuborgarsvæðinu sem mikið hefur verið rætt um á síðustu misserum. Á svæðinu er nú gert ráð fyrir því að byggðar verði um 3500 íbúðir þannig að um þriðjungur íbúa í Mosfellsbæ mun búa þar þegar hverfið verður fullbyggt.

Búið er að skipta svæðinu upp í þrjá áfanga og þær tillögur um deiliskipulag fyrsta áfanga sem hafa verið lagðar fram –á vinnslustigi – verða ekki lagðar fram fullunnar fyrr en í fyrsta lagi í haust. Þá mun fara fram hefðbundið samráðsferli samkvæmt skipulagslögum. Þegar skipulag hefur verið samþykkt og gengið frá öllum lausum endum er ljóst að uppbygging á Blikastaðalandi mun taka að minnsta kosti 15 ár.

Það felst mikil ábyrgð í því að brjóta nýtt land undir byggð og líka mikil tækifæri að geta hannað heilt hverfi frá grunni. Hverfi sem mun þjóna íbúum framtíðarinnar. Við þessa vinnu þarf að taka tillit til þarfa íbúa svæðisins eins og þær eru í dag en fyrst og fremst er byggt til framtíðar og leitast við að taka mið af því samfélagi sem við munum búa í eftir 20 ár. Það þarf að tryggja að verkefnið sé eins sjálfbært og auðið er og gangi ekki um of á gæði umhverfis og þjónustu þeirra sem búa í Mosfellsbæ í dag. Það er þó ljóst að umfangið er slíkt að það mun að sjálfsögðu breyta bæjarbragnum og þeirri þjónustu sem hér er að fá – vonandi til hins betra.

Talsvert hefur verið rætt um þéttleika byggðarinnar sem tillagan felur í sér. Það er áskorun að rýna í skipulag og reyna að sjá fyrir sér hvernig götur og hús munu raunverulega líta út fullbyggð og hvernig gæði umhverfisins verður í raun og veru. Eitt er allavega víst en það er að þetta hverfi verður ekki byggt eins og gömlu hverfin í Mosfellsbæ. Enda aðrar forsendur uppi nú, bæði þegar kemur að kostnaði og líka þegar kemur að þörfum íbúa – þörfum íbúa framtíðarinnar – sem munu búa á svæðinu.

Ein leið til að átta sig á því hvort svæði er of þétt eða nógu þétt er að bera það saman við önnur svæði. Það liggur beinast við að bera uppbyggingu á Blikastöðum saman við uppbyggingu á Keldnalandi. Þessi svæði liggja nálægt hvort öðru og munu verða borin saman. Sú tillaga sem unnið er með við skipulag á Keldnalandinu gerir ráð fyrir 5700 íbúðum. Keldnaland er 20% stærra landsvæði en Blikastaðir eða tæpir 117 hektarar. Heildar uppbyggingarmagn á Keldnalandi er þó um 80% meiri.

Förum við úr sveit í borg?

Ungt fólk í dag og kynslóðin sem er að koma inn á vinnumarkaðinn núna er með aðrar hugmyndir og aðrar áherslur en voru uppi þegar eldri hverfi í Mosfellsbæ voru byggð. Hvernig hverfi vill þetta fólk byggja? Ef það á að spyrja einhvern þá ætti að spyrja þau. Ef ég á að setja mig að einhverju leiti inn í þeirra hugarheim þá held ég að einhver myndu að minnsta kosti svara því til að þau vilji einfaldlega eiga kost á því að kaupa sér fasteign og flytja að heiman.

Unga fólkið á höfuðborgarsvæðinu hefur stækkað radíusinn og kemur sér í meira mæli fyrir í nágrannasveitarfélögum eins og Akranesi, Hveragerði og Þorlákshöfn. Það er nákvæmlega það sem fólk fyrir 40 árum gerði þegar það flutti í Mosfellsbæ. Verðmiðinn hefur þar langmest áhrif. Þau eru ekki að flytja úr Mosó á Akranes af því að þar eru meiri rólegheit. Þau fara af því að þau fá meira fyrir peninginn og fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu – sem Mosfellsbær tilheyrir – er of hátt.

Það er ekki hægt að hanna ný hverfi á Blikastaðalandi eða Keldnalandi með þarfir fólks í huga eins og þær voru fyrir 40 árum síðan þegar mikil uppbygging var í Holtum og Teigum. Eða fyrir 30 árum þegar Hlíðar og Tangar voru í uppbyggingu. Þá var land ekki verðlagt með þeim hætti sem það er í dag. Fólk fékk úthlutuðum lóðum og byggði sér hús eða verktakar fengu lóðir og byggðu hús fyrir fólk. Stórar fjölskyldur komu sér fyrir í Mosfellsbæ og hér hefur verið gott að ala upp börn – og vera barn. Þannig verður það að sjálfsögðu áfram. Líka fyrir nýju íbúana á Blikastaðalandi. En þeir hafa aðrar þarfir. Fjölskyldur eru að minnka. Við erum að eignast færri börn og fjölskylda í dag er mun fjölbreyttari eining en fjölskyldan var fyrir 30 árum. Fólk kýs í meira mæli að búa eitt og eins og talsvert hefur verið rætt undanfarið þá er þjóðin að eldast. Þetta býr til þarfir fyrir minni íbúðir þar sem fleiri deila kostnaði fyrir landið og innviðina.

Þá komum við að verðmiðanum. Hvernig fólk á að geta búið á Blikastaðalandi? Ungt fólk sem er að hefja búskap, eldra fólk sem vill minnka við sig, allskonar fólk er það ekki? Þétting byggðarinnar og fjöldi húsa mun hafa mikið um það að segja. Ekki bara vegna fjölbreytni í húsakosti heldur einnig út af verði. Því færri íbúðir sem við byggjum á svæðinu því dýrari verða þær. Það er bara rekstrarleg staðreynd. Það þarf að byggja upp alla innviði og það skiptir máli hvað íbúðirnar eru margar til að greiða fyrir þá innviði.

Byggð á Blikastaðalandi mun að sjálfsögðu ekki hafa áhrif á þéttleika þegar byggðra hverfa í Mosfellsbæ. En umfang verkefnisins gerir það að verkum að þau sem að þessari ákvarðanatöku koma verða að stefna að eins mikilli sjálfbærni þessa hverfis eins og unnt er. Nútímakröfur og framtíðarkröfur gera það að verkum að byggðin þarna verður þéttari en þau hverfi sem þegar eru byggð. Hún verður hinsvegar lágreist og græn og þannig í samhengi við aðra byggð í bænum. Í flestu samhengi myndi ég telja að við eigum áfram eftir að upplifa að Mosfellsbær er sveit í borg – en bæði sveitin og borgin eru að breytast og þurfa að þróast til framtíðar til að við getum boðið börnunum okkar upp á að njóta gæða umhverfisins á sinn hátt – eins og við gerðum á sínum tíma.

Höfundur er bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ.

Greinin birtist á visir.is

Við getum gert betur

Posted on by Aldís Stefánsdóttir

19. september, 2024

Sú staðreynd að börnin okkar séu ekki örugg – hvorki í sínu nærumhverfi eða á opinberum viðburðum er hliðrun á þeim raunveruleika sem við höfum búið við í íslensku samfélagi.
Síðustu vikur hefur verið áþreifanleg sorg í samfélaginu og hluttekning með þeim sem eiga um sárt að binda vegna dauðsfalls ungrar stúlku sem varð fyrir hnífstunguárás á Menningarnótt í Reykjavík. Ofbeldið í samfélaginu er að aukast og við verðum að bregðast við.
Við sjáum vísbendingar í talsvert auknum fjölda tilkynninga til barnaverndar um ofbeldi og notkun vímuefna. Niðurstöður kannana benda einnig til þess að börnum og ungmennum líði ekki vel og þau leita í auknum mæli eftir óheilbrigðum lausnum við þeirri vanlíðan.
Í kjölfar gríðarlega vel heppnaðrar bæjarhátíðar – þrátt fyrir leiðinlegt veður og skugga ofbeldis – er mikilvægt að við stöldrum við og veltum fyrir okkur hvort það þurfi að gera breytingar. Mikið hefur borið á unglingadrykkju og vanda sem því tengist á allra síðustu árum. Í túninu heima er ætlað að gefa bæjarbúum tækifæri til að njóta þess besta sem bæjarfélagið okkar býður upp á. Menningu, náttúru og ekki síst samveru vina, nágranna og fjölskyldna. Hátíðinni er ekki ætlað að skapa kjöraðstæður fyrir eftirlitslausa unglingadrykkju og ofbeldishegðun.
Aukum áherslu á forvarnir
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur veitt þessu athygli og leggur áherslu á að farið verði í markvissar forvarnaraðgerðir með það að markmiði að koma í veg fyrir aukna neyslu áfengis og vímefna í hópi barna og unglinga. Einnig að mæta umræðunni um ofbeldi og vopnaburð með fræðslu og þátttöku alls samfélagsins.

Mosfellsbær er gott samfélag og við viljum halda áfram að þróa það til framtíðar. Kjörnir fulltrúar og starfsfólk fræðslu- og velferðarsviðs, starfsfólk skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðvarinnar Bólsins ásamt íþróttaþjálfurum og öðrum hópum sem tengjast daglegri umgjörð barna hafa svo sannarlega gert sitt besta til að skapa öruggt umhverfi fyrir börnin okkar og munu halda því áfram. En nú þarf meira til. Það skiptir allt máli. Orðræðan í samfélaginu skiptir máli. Hvernig við tjáum okkur við hvert annað og um hvert annað. Að við innleiðum farsæld í okkar samfélag með þeim hætti að ekkert barn verði skilið eftir. Við höfum alla burði til þess. Við erum auðugt samfélag af svo mörgu og sérstaklega af mannauði.
Við getum gert betur og við verðum að gera betur.

Aldís Stefánsdóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ

Vöndum vinnubrögðin við stækkun bæjarins

Posted on by Aldís Stefánsdóttir

Framsókn í Mosfellsbæ styður áframhaldandi uppbyggingu á íbúðarhúsnæði fyrir alla aldurs- og tekjuhópa. Annað væri óábyrgt miðað við stöðuna á húsnæðismarkaðnum í dag. Sú staða hefur áhrif á flest heimili meðal annars í gegnum vaxandi verðbólgu.
Margir finna fyrir skorti á húsnæði og þá sérstaklega unga fólkið en einnig þeir sem eldri eru. Húsum þar sem ungmenni fá aðstöðu í bílskúrnum hjá foreldrum sínum fjölgar enn í Mosfellsbæ og húsaleiga er gríðarlega há.

Fréttir af fyrirhugaðri uppbyggingu í Blikastaðalandi eru því löngu tímabærar. EN það er ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir. Þessi uppbygging mun hafa gríðarleg áhrif á núverandi íbúa Mosfellsbæjar. Það vita þau sem hafa búið hér á síðustu tveimur áratugum. Á þeim tíma hefur íbúafjöldinn tvöfaldast. Sú fjölgun hefur ekki verið án vaxtaverkja og við þurfum að læra af þeirri reynslu.

Við þurfum að horfa á þróun og rekstur bæjarins í samhengi. Það er ekki skynsamlegt að líta til stakra málaflokka og halda að rekstur á einum lið hafi ekki áhrif á annan. Ekkert frekar en í rekstri fyrirtækja eða heimila.
Staðan er sú að á sama tíma og núverandi bæjarstjórn hefur skuldbundið verðandi fulltrúa varðandi uppbyggingu á Blikastaðalandi, sem er gríðarlega stórt verkefni, stöndum við frammi fyrir stórum áskorunum á öðrum sviðum. Það eru samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu sem skipta okkur Mosfellinga miklu máli. Einnig munum við glíma við eftirköst heimsfaraldurs, endurskipuleggja málaflokk eldra fólks, taka á móti flóttafólki og efla starfsemi leik- og grunnskóla með hagsmuni barna að leiðarljósi svo eitthvað sé nefnt.
Að auki eigum við inni samtal um þróun á atvinnustarfsemi í Mosfellsbæ sem hefur ekki verið í forgrunni heldur mætt afgangi sem sést á stefnu- og áhugaleysi bæjaryfirvalda.

Þessi verkefni verða ekki leyst farsællega nema með samvinnu, samtali við íbúa, trausti og forgangsröðun. Þau verða heldur ekki leyst farsællega nema með því að styrkja stjórnsýsluna til að gera henni kleift að sinna sínum verkefnum.
Það er stjórnmálanna að leggja til framtíðarsýn og gera langtímaáætlanir. Fólki í stjórnmálum ber skylda til að gera það á gagnsæjan hátt og þannig að lýðræðið sé virt. Upplýsingagjöfin og samtalið á að fara stöðugt fram en ekki bara rétt fyrir kosningar. Það á heldur ekki að koma íbúum né kjörnum fulltrúum á óvart þegar verið er að gera stóra samninga um uppbyggingu í sveitarfélaginu. Það eru ekki vinnubrögð sem við getum boðið upp á.

Framsókn í Mosfellsbæ leggur áherslu á heiðarleg og gagnsæ vinnubrögð. Virkt samtal við hagsmunahópa og öflugt nefndarstarf í nefndum og ráðum bæjarins. Við viljum hugsa stórt og við viljum hugsa til lengri tíma.
Hvernig sveitarfélag verður Mosfellsbær í framtíðinni? Hvaða áherslur þarf að leggja í uppbyggingu bæjarins sem gerir hann aðlaðandi og ákjósanlegan til búsetu til framtíðar bæði fyrir börnin okkar og okkur sjálf á efri árum? Svarið við þessum spurningum liggur hjá okkur sem búum hér í dag og látum okkur málin varða. Hlutverk kjörinna fulltrúa er að hafa hugrekki til að hlusta og koma hlutunum í verk.

Munið X við B á kjördag

Aldís Stefánsdóttir

  1. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Af því að það skiptir máli

Posted on by Aldís Stefánsdóttir

Tilvera okkar er full af áreiti og álitaefnum. Til dæmis hvort maður eigi að bjóða sig fram til setu í sveitarstjórn eða ekki.
Það eru ótrúlega margar ástæður fyrir því að gera það ekki. Trúið mér, ég er búin að fara yfir þær allar. En á endanum varð niðurstaðan sú að ég vil leggja mitt af mörkum. Mér finnst skipta máli hverjir stjórna og hvernig er stjórnað. Það er pláss við borðið fyrir fjölbreyttar skoðanir og það er mikilvægt að nýjar raddir fái að heyrast.

Við búum í samfélagi sem hefur alla burði til að geta þróast með kröfum nútímans og svarað kalli framtíðarinnar.
Þjónusta sveitarfélaga er gríðarlega mikilvæg og snertir hvert einasta heimili. Þegar þjónusta er þróuð, skipulögð og veitt, skiptir mestu máli að hlusta á þá sem þiggja hana og enn fremur þá sem veita hana. Ég tel að reynsla mín og þekking á starfsemi sveitarfélagsins geri mig að góðum hlustanda.

En það er ekki nóg að hlusta og hafa skoðanir. Það þarf líka að hafa reynslu og þekkingu til að greina aðalatriði frá aukaatriðum, kunna að afla sér upplýsinga og síðast en ekki síst að hafa nægilegan styrk til að geta tekið góðar ákvarðanir. Ég trúi því að áralöng reynsla í krefjandi verkefnum á vinnumarkaði geri mig hæfa til ákvarðanatöku.

Mosfellsbær hefur allt til að bera til að vera fyrirmyndar sveitarfélag. Það er mikilvægt að við leyfum okkur að hugsa stórt og hugsa lengra. Okkar bíða áskoranir við að byggja upp Mosfellsbæ framtíðarinnar.

Eftirköst heimsfaraldursins, móttaka og aðlögun innflytjenda, áhrif loftslagsbreytinga, breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, frekari uppbygging íbúðarhúsnæðis, fjölgun íbúa og efling innviða. Þetta eru áskoranir sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir, bæði til lengri og skemmri tíma. Það er af nægu að taka.

Ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum og hlakka mikið til að heyra hvað brennur á íbúum í bænum. En svona verkefni vinnur enginn einn. Það skiptir máli að vera í góðum hópi fólks og eiga góða að.
Framsókn í Mosfellsbæ er fjölbreyttur og hæfileikaríkur hópur fólks sem brennur fyrir því að auka velferð í samfélaginu okkar og treystir sér til að hlusta á íbúa og taka góðar ákvarðanir.

Þetta verður eitthvað!