Category: Flokksþing

36. flokksþing Framsóknar

Posted on by Framsókn í Mosfellsbæ
35. flokksþing Framsóknar - nýkjörin forysta
Nýkjörin forysta Framsóknar, Ásmundur Einar Daðason, Sigurður Ingi Jóhannsson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Dagana 19. og 20. mars s.l. fór fram 36. flokksþing Framsóknar á Grand Hótel í Reykjavík.

Þar voru miklir fagnaðarfundir, þegar eldri félagar hittust mörg hver í fyrsta sinn í raunheimi eftir langa bið vegna heimsfaraldurs og fjölmörg voru þarna í fyrsta skipti á flokksþingi.
Flokksþing Framsóknar fara að jafnaði fram annað hvert ár, en vegna Covid-19 faraldursins var síðast haldið flokksþing árið 2018, næsta reglulega þing stóð svo til að yrði árið 2020 en um það leyti sem til stóð að halda þingið það árið var skellt í lás með fyrstu samkomutakmörkunum vegna heimsfaraldurs, a.m.k. í tvígang þurfti aftur að fresta þinginu vegna breytinga á samkomutakmörkunum. En loks nú um helgina tókst að halda langþráð flokksþing.

Öflugt málefnastarf

Á þinginu fór venju samkvæmt fram öflugt og gott málefnastarf, þar sem fram fer endurskoðun og vinna við grunnstefnumál Framsóknar á landsvísu, úr þeirri vinnu varð svo til góður grunnur sem kemur til með að nýtast framboðum Framsóknar, um land allt, vel í málefnavinnunni sem nú er í fullum gangi fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fram munu fara laugardaginn 14. maí.

Framsókn í Mosfellsbæ lét ekki sitt eftir liggja og sendi nokkra fulltrúa á flokksþingið til þátttöku í málefnastarfinu.

Á laugardagskvöldinu fór fram kvöldverðarhóf þar sem enn betra færi gafst til að spjalla við aðra þingfulltrúa.
Á hófinu veitti Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, tvenn verðlaun, sem hefð hefur skapast fyrir að veita á flokksþingi. Jafnréttisverðlaun Framsóknar 2022, hlaut Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Bjartsýnisverðlaun Framsóknar 2022 féllu í skaut Ljóssins-Endurhæfingar fyrir krabbameinsgreinda, Sigurður Ingi sagði í stuttu máli frá starfi og tilgangi ljóssins, og minntist þá einnig Þórunnar Egilsdóttur, þingkonu Framsóknar sem féll frá á síðasta ári eftir baráttu við krabbamein, en hún bæði naut stuðnings Ljóssins eftir að hún greindist og starfaði einnig með Ljósinu.

Á sunnudeginum var svo þingstörfum framhaldið, þar sem afgreiddar voru tillögur málefnahópa frá deginum áður. Þá fór einnig fram kosning á forystu flokksins fram til næsta flokksþings.

Sigurður Ingi Jóhannsson var endurkjörinn formaður með 98,63% atkvæða, Lilja Dögg Alfreðsdóttir hlaut endurkjör í embætti varaformanns með 96,43% atkvæða. Jón Björn Hákonarson sem gegnt hafði embætti ritara flokksins frá árinu 2016 gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Ásmundur Einar Daðason tilkynnti fyrir þingið að hann gæfi kost á sér í embætti ritara og hlaut hann 95,59% atkvæða.

Þingfulltrúar gengu bjartsýn og endurnærð útí vorið að flokksþinginu loknu og ganga nú samstíga útí þá vinnu sem framundan er næstu vikur fram að sveitarstjórnarkosningum þann 14. maí, með öfluga yfirskrift flokksþingsins í farteskinu.

„NÝ FRAMSÓKN FYRIR LANDIÐ ALLT“

36. Flokksþing Framsóknar - SIJ
Þingforsetar og þingritarar á sunnudeginum, Örvar Jóhannsson sem skipar 4. sæti hjá Framsókn í Mosfellsbæ, lengst til hægri
Frambjóðendur úr Mosfellsbæ á flokksþingi Framsóknar - Halla Karen Kristjánsdóttir(1. sæti) og Hrafnhildur Gísladóttir(7. sæti)
Halla Karen stýrði málefnahóp sem fjallaði um velferðarmál á flokksþinginu

Previous
Next