Til baka í yfirlit
author Aldís Stefánsdóttir
calendar 13 May 2022

Vöndum vinnubrögðin við stækkun bæjarins

Framsókn í Mosfellsbæ styður áframhaldandi uppbyggingu á íbúðarhúsnæði fyrir alla aldurs- og tekjuhópa. Annað væri óábyrgt miðað við stöðuna á húsnæðismarkaðnum í dag. Sú staða hefur áhrif á flest heimili meðal annars í gegnum vaxandi verðbólgu.
Margir finna fyrir skorti á húsnæði og þá sérstaklega unga fólkið en einnig þeir sem eldri eru. Húsum þar sem ungmenni fá aðstöðu í bílskúrnum hjá foreldrum sínum fjölgar enn í Mosfellsbæ og húsaleiga er gríðarlega há.

Fréttir af fyrirhugaðri uppbyggingu í Blikastaðalandi eru því löngu tímabærar. EN það er ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir. Þessi uppbygging mun hafa gríðarleg áhrif á núverandi íbúa Mosfellsbæjar. Það vita þau sem hafa búið hér á síðustu tveimur áratugum. Á þeim tíma hefur íbúafjöldinn tvöfaldast. Sú fjölgun hefur ekki verið án vaxtaverkja og við þurfum að læra af þeirri reynslu.

Við þurfum að horfa á þróun og rekstur bæjarins í samhengi. Það er ekki skynsamlegt að líta til stakra málaflokka og halda að rekstur á einum lið hafi ekki áhrif á annan. Ekkert frekar en í rekstri fyrirtækja eða heimila.
Staðan er sú að á sama tíma og núverandi bæjarstjórn hefur skuldbundið verðandi fulltrúa varðandi uppbyggingu á Blikastaðalandi, sem er gríðarlega stórt verkefni, stöndum við frammi fyrir stórum áskorunum á öðrum sviðum. Það eru samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu sem skipta okkur Mosfellinga miklu máli. Einnig munum við glíma við eftirköst heimsfaraldurs, endurskipuleggja málaflokk eldra fólks, taka á móti flóttafólki og efla starfsemi leik- og grunnskóla með hagsmuni barna að leiðarljósi svo eitthvað sé nefnt.
Að auki eigum við inni samtal um þróun á atvinnustarfsemi í Mosfellsbæ sem hefur ekki verið í forgrunni heldur mætt afgangi sem sést á stefnu- og áhugaleysi bæjaryfirvalda.

Þessi verkefni verða ekki leyst farsællega nema með samvinnu, samtali við íbúa, trausti og forgangsröðun. Þau verða heldur ekki leyst farsællega nema með því að styrkja stjórnsýsluna til að gera henni kleift að sinna sínum verkefnum.
Það er stjórnmálanna að leggja til framtíðarsýn og gera langtímaáætlanir. Fólki í stjórnmálum ber skylda til að gera það á gagnsæjan hátt og þannig að lýðræðið sé virt. Upplýsingagjöfin og samtalið á að fara stöðugt fram en ekki bara rétt fyrir kosningar. Það á heldur ekki að koma íbúum né kjörnum fulltrúum á óvart þegar verið er að gera stóra samninga um uppbyggingu í sveitarfélaginu. Það eru ekki vinnubrögð sem við getum boðið upp á.

Framsókn í Mosfellsbæ leggur áherslu á heiðarleg og gagnsæ vinnubrögð. Virkt samtal við hagsmunahópa og öflugt nefndarstarf í nefndum og ráðum bæjarins. Við viljum hugsa stórt og við viljum hugsa til lengri tíma.
Hvernig sveitarfélag verður Mosfellsbær í framtíðinni? Hvaða áherslur þarf að leggja í uppbyggingu bæjarins sem gerir hann aðlaðandi og ákjósanlegan til búsetu til framtíðar bæði fyrir börnin okkar og okkur sjálf á efri árum? Svarið við þessum spurningum liggur hjá okkur sem búum hér í dag og látum okkur málin varða. Hlutverk kjörinna fulltrúa er að hafa hugrekki til að hlusta og koma hlutunum í verk.

Munið X við B á kjördag

Aldís Stefánsdóttir

  1. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Fleiri fréttir

news thumbnail
author

Framsókn í Mosfellsbæ

calendar 10 Desember 2024

Íbúa­fund­ur um Far­sæld artún

news thumbnail
author

Framsókn í Mosfellsbæ

calendar 28 Nóvember 2024

Með enga menn og engin vopn?