Málefnin

Við erum flokkur samvinnu og frjálslyndis og rúmlega aldarlöng saga Framsóknar er samtvinnuð framförum og framsækni.

Mosfellsbær er bær til framsóknar á öllum sviðum.

stefnuskra
Álafoss

Framtíðarsýn okkar

Framsókn í Mosfellsbæ vill taka þátt í að byggja upp framsækið samfélag sem hvílir á grunngildum lýðræðis, jafnræðis, hagsældar og samfélagslegrar ábyrgðar. Við viljum efla mannauð þannig að sérhver einstaklingur fái hvatningu og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi. Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo fjölbreytileiki mannlífs fái notið sín.

 

Ábyrgur rekstur og stefna til lengri tíma í öllum málaflokkum er undirstaða þess að stuðla að hagkvæmum og stöðugum vexti. Framsókn í Mosfellsbæ mun leggja áherslu á innleiðingu á samþættri þjónustu við alla aldurshópa með áherslu á börn og eldra fólk. Efling íbúalýðræðis, gagnsæ vinnubrögð og skilvirk ákvarðanataka er undirstaða trausts milli stjórnsýslunnar og íbúa Mosfellsbæjar. 

Menntun og málefni barna

Framsókn í Mosfellsbæ vill stuðla að samþættri þjónustu í þágu farsældar barna í anda nýrrar löggjafar. Öll þjónusta leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva auk íþrótta- og tómstundastarfs verði skipulagt með fjölbreyttar þarfir allra barna í öndvegi. Sköpum nýtt velferðarkerfi þar sem barnið er hjartað í kerfinu og allir þjónustuaðilar vinna saman með snemmtækan stuðning að leiðarljósi. Framsókn í Mosfellsbæ vill setja setja menntamál í fyrsta sæti. Eflum miðlægan stuðning við uppbyggingu á framsæknu skólastarfi og aukum samtalið á milli skólanna.

 

 

  • Þjónusta við börn hefst að loknu fæðingarorlofi foreldra.
  • Uppbygging á miðlægri sérþjónustu fyrir leik- og grunnskólabörn.
  • Þjónustu- og námsver fyrir nýja íbúa af erlendum uppruna. 
  • Heildstæð stefnumótun í málefnum barna. (skv. frumkvæði Barnamálaráðherra).

Málefni eldra fólks

Framsókn í Mosfellsbæ leggur áherslu á að ráðist verði í endurskipulagningu á málaflokki eldra fólks út frá grunngildum aldursvæns samfélags. Við viljum stuðla að persónulegri  þjónustu með skýra sýn á hlutverk og skyldur þeirra sem að þjónustunni koma. Framsókn vill leggja áherslu á aukna og samhæfða heimaþjónustu, sveigjanleg dagþjálfunarúrræði og aukna tæknivæðingu. Stórefla þarf samstarf milli félags- og heilbrigðisþjónustunnar svo þjónustan sé persónumiðuð og veitt í því búsetuúrræði sem hentar hverjum og einum. Líta þarf á þjónustu við eldra fólk sem fjárfestingu í framtíðinni.

 

  • Við viljum fjölga dagdvalar úrræðum fyrir eldra fólk. 
  • Við viljum auka faglegt starf í þjónustu við eldra fólk. 
  • Við viljum bæta húsnæðis- og aðstöðumál vegna þjónustu við eldra fólk. 
  • Við viljum halda áfram að bæta við úrræðum í félagsstarfi eldra fólks. 

Lýðheilsa

Við viljum að Mosfellsbær nái aftur forystu sinni sem heilsueflandi samfélag þar sem áhersla er lögð á lýðheilsu í öllum málaflokkum. Þannig verði sjónarmið lýðheilsu höfð til hliðsjónar í allri ákvarðanatöku. Tekið verði tillit til andlegrar, líkamlegrar og félagslegrar heilsu í starfsemi Mosfellsbæjar bæði þegar kemur að þeim sem veita þjónustuna og þeim sem þiggja hana.

 

  • Stofnuð verði miðstöð frístundastarfs allra íbúa óháð aldri.
  • Grípum til aðgerða til að styrkja andlega líðan einstaklinga í öllum aldurshópum í kjölfar heimsfaraldurs. 
  • Styðjum við og aukum menningarstarfsemi í bænum í þágu lýðheilsu. 
  • Vinna verður markvisst að eflingu lýðheilsu í samræmi við þá stefnu sem sett hefur verið í málaflokknum og tryggja fjármagn til framkvæmdar hennar.
  • Förum í allsherjar stefnumótun varðandi áframhaldandi uppbyggingu á starfi fyrir ungt fólk Mosfellsbæ.

Málaflokkur fatlaðs fólks

Þjónusta við fatlað fólk hefur breyst mikið á síðasta áratug. Með flutningi málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga hefur raunverulega tekist að stytta boðleiðir í þágu betri og aðgengilegri þjónustu. Framsókn í Mosfellsbæ leggur áherslu á að tryggt sé að þau hafi aðgengi að húsnæði, atvinnu og heilbrigðisþjónustu. Upplýsingum verði komið á framfæri og að stafræn samskipti verði helsta samskiptaleið Mosfellsbæjar við íbúa.

 

  • Eyðum biðlistum eftir húsnæði. 
  • Eflum aðgengi að félagsstarfi fyrir ungt fólk með fötlun. 
  • Aðgengismál verði sett í forgang tryggt að upplýsingar um ákvarðanir og þjónustu sé komið á framfæri á skilvirkan hátt. Lögð verði áhersla á stafrænt aðgengi.

Umhverfis- og loftslagsmál

Sveitarfélög í landinu gegna lykilhlutverki í að fræða íbúa og stuðla að umhverfisvænum lífsháttum. Framsókn í Mosfellsbæ leggur áherslu á ákvarðanatöku og aðgerðir í þágu orkuskipta og sjálfbærni. Framsókn vill stuðla að innleiðingu hringrásar hagkerfisins í þágu heimila og atvinnulífs. Þannig er unnt að viðhalda verðmæti auðlinda og lágmarka myndun úrgangs. Mosfellsbær á að leggja sitt af mörkum til kolefnisbindingar með uppbyggingu á loftslagsskógi í Mosfellsbæ í samstarfi við Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og Kolvið. 

  • Metnaðarfull loftslagsstefna fyrir Mosfellsbæ verði innleidd á næsta kjörtímabili og henni fylgi aðgerðaráætlun og fjármagn. 
  • Stuðlum að stofnun fjarvinnustöðvar í Mosfellsbæ.
  • Heildstæð langtímastefna og fræðsla um flokkun og endurvinnslu úrgangs.
  • Aukin upplýsingagjöf til að íbúar tileinki sér aukna sjálfbærni- og umhverfisvitund.
  • Aðalskipulag geri ráð fyrir skógrækt á Mosfellsheiði.

´Íþrótta- og tómstundamál

Framsókn vill að Mosfellsbær verði leiðandi á landsvísu í íþrótta- og tómstundamálum og öðrum sveitarfélögum fyrirmynd. Við viljum stuðla að samráðsvettvangi íþrótta- og tómstundafélaga og sjá til þess að mynduð sé framtíðarsýn til lengri tíma. Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og ber okkur skylda að gera málefnum því tengdu hátt undir höfði. 

 

  • Allir hafi jafnan aðgang að íþrótta- og tómstundastarfi.
  • Uppbygging íþróttamannvirkja verði metnaðarfull og svari þörfum starfseminnar sem þar fer fram.
  • Lokið verði við uppbyggingu Ævintýragarðsins.
  • Félagsmiðstöðin Ból verði opin allt árið.
  • Gott stuðningsnet fyrir nýja íbúa til þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi.

Skipulagsmál

Framsókn í Mosfellsbæ styður áframhaldandi uppbyggingu á fjölbreyttu húsnæði fyrir alla tekjuhópa. Skipulagið geri ráð fyrir blandaðri byggð þannig að það stuðli að uppbyggingu á atvinnutækifærum í bæjarfélaginu. Efling á samgönguleiðum milli hverfa og áframhaldandi uppbygging á stígakerfi. Lögð verði áhersla á viðhald fasteigna í eigu sveitarfélagsins sem gegna lykilhlutverki í þjónustu þess eins og skólar og íþróttamiðstöðvar. 

 

  • Uppbygging innviða taki mið af stækkandi bæjarfélagi og áframhaldandi fjölgun íbúa.
  • Stöndum saman gegn uppbyggingu Reykjavíkurborgar á grófum iðnaði í nærumhverfi Mosfellinga.
  • Stuðlað verði að úthlutun lóða fyrir græna starfsemi.
  • Framsókn leggur áherslu á að urðun sorps verði hætt í Álfsnesi.
  • Bæta vegtengingar milli hverfa í Mosfellsbæ og að stofnvegum.
  • Lögð verði aukin áhersla á græna uppbyggingu og sjálfbær hverfi.
  • Átak verði í viðhaldi og endurbyggingu sögulegra minja.

Stjórnsýsla og fjármál

Framsókn í Mosfellsbæ leggur áherslu á faglega ráðningu bæjarstjóra, ábyrga fjármálastjórn, gagnsæja, stafræna og skilvirka stjórnsýslu. Lögð verði áhersla á góð samskipti í þjónustu bæjarins og skilvirka svörun erinda. Upplýsingar um rekstur bæjarins verði aðgengilegri. Aðkoma og þátttaka ungs fólks í ákvörðunartöku verði aukin.

 

  • Skilvirkt og aðgengilegt nefndarstarf þar sem lögð er áhersla á jákvæð og uppbyggileg samskipti.
  • Aukið íbúalýðræði og virkt samtal við hagsmunaaðila.
  • Mosfellsbær verði fremst í flokki með að veita stafræna þjónustu.
  • Álögur á íbúa verði í samræmi við það þjónustustig sem veitt er.
  • Stjórnskipulag taki mið af íbúafjölda og áherslum í rekstri hverju sinni.

Atvinnumál og nýsköpun

Framsókn leggur áherslu á að Mosfellsbær leitist við að skapa hagkvæm skilyrði fyrir atvinnulíf og nýsköpun. Haldið verði áfram uppbyggingu atvinnuhúsnæðis á landi Blikastaða og á Tungumelum. Mosfellsbær beiti sér fyrir því að boðið verði upp á byggingarland fyrir atvinnuhúsnæði undir létta og græna starfsemi. Framsókn leggur áherslu á stafrænar þjónustulausnir til einföldunar og hagræðingar í öllu samskiptaferli við bæjarfélagið. Hagsmunir íbúa felast í því að geta sótt atvinnu í sveitarfélaginu og það á einnig við um aðstöðu til að stunda fjarvinnu. 

 

  • Vakin verði athygli á atvinnutækifærum í verslun, þjónustu og afþreyingu í ört stækkandi bæjarfélagi.
  • Lögð verði aukin áhersla á þróunar- nýsköpunar og atvinnumál í nefndarstarfi bæjarins.
  • Stuðlum að stofnun fjarvinnustöðvar í Mosfellsbæ.