Til baka í yfirlit
author Hrafnhildur Gísladóttir
calendar 28 November 2024

Menning í aðdraganda jóla

28. nóvember, 2024

Í Mosfellsbæ er mikið um að vera í menningar- og listastarfi í kringum jólin.
Fyrst ber að nefna frábæran jóla-listamarkað í Listasal Mosfellsbæjar, þar sem yfir 50 listamenn sýna og selja list sína. Hugmyndin að þessari samsýningu kom frá íbúa bæjarins og var lögð fyrir menningar og lýðræðisnefnd sem samþykkti að í stað hefðbundinnar listasýningar í desember, yrði prófað að hafa samsýningu margra listamanna, eins konar listaverkajólamarkað.
Óhætt er að segja að vel hefur tekist til með fjölbreytni verka og hvetjum við alla Mosfellinga að gefa sér tíma til að kíkja á þennan markað sem stendur til 20. desember.

Um næstu helgi verða ljósin tendruð á jólatrénu okkar á Miðbæjartorgi með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. Hlégarðs­tún er prýtt jólaljósum, en hugmyndin um Jólagarð við Hlégarð var ein af þeim hugmyndum sem kosnar voru til framkvæmdar í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2021.

Fjölbreyttar uppákomur verða í garðinum á aðventunni og vel þess virði að brjóta upp skammdegið og heimsækja Hlégarðstúnið í aðdraganda jólanna. Einnig verður mikið um að vera í félagsheimilinu okkar, Hlégarði. Þar má nefna jólamarkað, listaskólinn heldur jólatónleika svo eitthvað sé nefnt og að sjálfsögðu mögnuð skötuveisla á Þorláksmessu.

Gaman hefur verið að fylgjast með og fá að taka þátt í að styðja við þær frábæru hugmyndir sem koma frá íbúum í að skapa það blómlega menningar- og listalíf sem er í bænum og hversu vel íbúar mæta og taka þátt í því sem er að gerast í Mosfellbæ. Öflugt menningarlíf gerir mannlífið í Mosó betra.

Hrafnhildur Gísladóttir, 
formaður menningar- og lýðræðisnefndar Mosfellsbæjar


Fleiri fréttir

news thumbnail
author

Framsókn í Mosfellsbæ

calendar 28 Nóvember 2024

Með enga menn og engin vopn?

news thumbnail
author

Framsókn í Mosfellsbæ

calendar 28 Nóvember 2024

Samningar byggja á samvinnu

news thumbnail
author

Framsókn í Mosfellsbæ

calendar 27 Nóvember 2024

Blönduhlíð formlega opnuð á Farsældartúni