
Fréttir af andláti Hilmars komu eins og þruma úr heiðskíru lofti. Aðeins kvöldið áður höfðum við fundað saman, hlegið og talað um framtíðina. Það verður stórt skarð sem Hilmar skilur eftir í þéttum hópi okkar framsóknarfélaga í Mosfellsbæ. Hann var mjög virkur í félagsstarfi Framsóknarfélags Mosfellsbæjar ásamt því að sinna nefndarstörfum en hann gegndi meðal annars varaformennsku í menningar og lýðræðisnefnd.
Fyrstu kynni okkar flestra af Hilmari var í kosningarbaráttunni fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2022. Hilmar var kosningastjóri í þeirri baráttu þar sem Framsókn kom sá og sigraði. Hann var ósérhlífinn, bóngóður, þjónustulundaður og vinur vina sinna. Það var alltaf hægt að heyra í Hilmari sama hvað það var og gott var að taka upp símann og heyra í honum til að leita ráða. Hann hafði einstaklega rólegt og yfirvegað fas sem hann kom með að borðinu þegar leysa þurfti úr málum og redda hinu og þessu. Hann var hnyttinn og hafði gaman af því að leika sér með orð og hafði mikinn áhuga á hvers konar samfélagsmálum. Hilmar og Lotta hans voru alltaf mætt ef það þurfti að setja saman húsgögn, baka vöfflur eða bara setjast yfir bolla og ræða málin. Það verður skrítið að sitja fundi eða skipuleggja viðburði án þess að hafa hann okkur við hlið.
Hilmars verður sárt saknað og við verðum ævinlega þakklát fyrir samfylgdina, vináttuna og allt það óeigingjarna starf sem hann hefur innt af hendi síðustu ár.
Hilmar var einstaklega mikill fjölskyldumaður en hin fallega nánd þeirra hjóna og stolt þeirra af börnunum sínum þekkja allir sem hafa hitt þau. Elsku fjölskylda, við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur og vonum að vinátta okkar gefi ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.
F.h Framsóknarfélags Mosfellsbæjar
Hrafnhildur Gísladóttir