Author: Hrafnhildur Gísladóttir

Menning í aðdraganda jóla

Posted on by Hrafnhildur Gísladóttir

28. nóvember, 2024

Í Mosfellsbæ er mikið um að vera í menningar- og listastarfi í kringum jólin.
Fyrst ber að nefna frábæran jóla-listamarkað í Listasal Mosfellsbæjar, þar sem yfir 50 listamenn sýna og selja list sína. Hugmyndin að þessari samsýningu kom frá íbúa bæjarins og var lögð fyrir menningar og lýðræðisnefnd sem samþykkti að í stað hefðbundinnar listasýningar í desember, yrði prófað að hafa samsýningu margra listamanna, eins konar listaverkajólamarkað.
Óhætt er að segja að vel hefur tekist til með fjölbreytni verka og hvetjum við alla Mosfellinga að gefa sér tíma til að kíkja á þennan markað sem stendur til 20. desember.

Um næstu helgi verða ljósin tendruð á jólatrénu okkar á Miðbæjartorgi með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. Hlégarðs­tún er prýtt jólaljósum, en hugmyndin um Jólagarð við Hlégarð var ein af þeim hugmyndum sem kosnar voru til framkvæmdar í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2021.

Fjölbreyttar uppákomur verða í garðinum á aðventunni og vel þess virði að brjóta upp skammdegið og heimsækja Hlégarðstúnið í aðdraganda jólanna. Einnig verður mikið um að vera í félagsheimilinu okkar, Hlégarði. Þar má nefna jólamarkað, listaskólinn heldur jólatónleika svo eitthvað sé nefnt og að sjálfsögðu mögnuð skötuveisla á Þorláksmessu.

Gaman hefur verið að fylgjast með og fá að taka þátt í að styðja við þær frábæru hugmyndir sem koma frá íbúum í að skapa það blómlega menningar- og listalíf sem er í bænum og hversu vel íbúar mæta og taka þátt í því sem er að gerast í Mosfellbæ. Öflugt menningarlíf gerir mannlífið í Mosó betra.

Hrafnhildur Gísladóttir, 
formaður menningar- og lýðræðisnefndar Mosfellsbæjar

Menningin blómstrar í Mosfellsbæ

Posted on by Hrafnhildur Gísladóttir

Það eru forréttindi að fá að taka þátt í að gera bæinn okkar blómlegri með menningarviðburðum.
Nú er mars, mánuður Menningar í Mosó, nýliðinn og það var nóg um að vera. Þar má nefna tónleika sem kvennakórarnir Stöllurnar úr Mosfellsbæ og Sóldís úr Skagafirði héldu saman í Hlégarði, en þar voru flutt lög Magnús­ar Ei­ríks­son­ar. Á degi Listaskólans var öllum velkomið að kíkja við þar sem ljúfir tónar hljómuðu úr öllum rýmum. Þvílíkir hæfileikar hjá unga tónlistarfólkinu okkar.
Í leikhúsinu okkar var einnig opið hús þar sem nú er verið að sýna Línu Langsokk. Enn og aftur toppar Leikfélag Mosfellssveitar sig með frábærri sýningu. Í Álafosskvosinni var myndlistakonan Ólöf með opið hús alla sunnudaga í mars, gaman var að heimsækja hana og Kvosina. Þetta eru bara nokkrir viðburðir af mörgum þetta árið og verður gaman að fylgjast með þessu verkefni þróast og stækka á næstu árum.

Menning auðgar mannlífið og gefur okkur tækifæri til að hittast og njóta saman. Það er mikilvægt að lyfta upp á yfirborðið því fjölbreytta menningarstarfi sem fram fer í Mosfellsbæ, gera mosfellska menningu sýnilega og aðgengilega og þar hefur mikilvægi Hlégarðs komið vel í ljós.

Hlégarður spilaði stórt hlutverk í Menningu í mars og var um margt að velja. Það er dásamlegt að fylgjast með hvernig félagsheimili okkar Mosfellinga hefur lifnað við og blómstrað undanfarin misseri.
Einn af þeim viðburðum sem hefur fengið hvað bestar viðtökur í dagskrá Menningar í mars eru sögukvöldin í Hlégarði. Í fyrra var fullt hús og í ár fylltist húsið á fimm mínútum af söguþyrstum Mosfellingum. Það eru margir sem koma að því að láta svona viðburð ganga upp og vil ég þakka öllum þeim fyrir sem lögðu hönd á plóg. Það er magnað hvað hægt er að gera þegar áhugasamt fólk tekur sig saman.

Að lokum vil ég segja frá því að nú er hafin vinna við nýtt verkefni þar sem kortlögð hafa verið rými í Mosfellsbæ þar sem hægt verður að halda litlar sýningar í óformlegum sýningarrýmum. Í framhaldinu verður bæjarbúum boðið upp á að sækja um að halda sýningar í hinum ýmsu rýmum eins og til dæmis Hlégarði, Kjarnanum og Lágafellslaug svo eitthvað sé nefnt.
Þetta verkefni var sett af stað til að gefa þeim sem eru að vinna að listsköpun í Mosfellsbæ fjölbreyttari tækifæri til að sýna verk sín. Þegar þeirri vinnu er lokið verður verkefnið kynnt nánar ásamt upplýsingum um hvar og hvernig skráningar beiðna um sýningarrými verða mótteknar og afgreiddar.

Hrafnhildur Gísladóttir
formaður menningar- og lýðræðisnefndar